Misjafnt er gefið

Þegar efnahagsleg áföll ríða yfir kemur oftar en ekki í ljós að staða launafólks er misjöfn. Ekki aðeins vegna menntunar eða búsetu, heldur ekki síður eftir því hvort það hefur haslað sér völl á almenna vinnumarkaðnum (einkageiranum) eða er í starfi hjá hinu opinbera – ríki og sveitarfélögum.

Um það verður ekki deilt að atvinnuöryggi launafólks í þjónustu opinberra aðila er töluvert annað og meira en þeirra sem vinna á almenna markaðnum. Þetta vita fáir betur en starfsmenn í ferðaþjónustu en einnig íbúar Suðurnesja þar sem atvinnuleysi er alvarlegast eða yfir 23% í mars.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru liðlega 21 þúsund einstaklingar án atvinnu í lok mars en þeim fækkaði lítillega frá fyrra mánuði. Tæplega 4.200 voru í minnkuðu starfshlutfalli (á hlutabótum). Samtals voru því yfir 25.200 einstaklingar atvinnulausir í lok mars. Atvinnuleysi var 12,1%.

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 7,1% á síðasta ári og kaupmáttur um 2,5%. Með hliðsjón af þeim efnahagssamdrætti sem fylgt hefur kórónuveirufaraldrinum vekja þessar upplýsingar athygli en eins og Hagstofan bendir á þá gætir merkjanlegra áhrifa faraldursins og þeirra aðgerða sem gripið var til í þeim tilgangi að draga úr efnahagslegum áhrifum hans.

Misgengi

Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að kaupmáttur launa sé í hæstu hæðum. Vísitala neysluverðs hafi hækkað um 4,3% milli marsmánaða 2020 og 2021, en á sama tíma hafi launavísitalan hækkað um 10,6%. Kaupmáttaraukningin á milli ára er því mikil eða um 6%. Síðustu fimm ár hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um liðlega 16,4% samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Þegar litið er til þróunar á vinnumarkaði er ljóst að verulegt misgengi hefur átt sér stað síðustu misseri milli opinbera markaðarins og almenna vinnumarkaðarins. Fjölgun atvinnulausra er fyrst og síðast á almennum vinnumarkaði og þá einkum í ferðaþjónustu. Á sama tíma og launafólk glímir við atvinnuleysi á almenna vinnumarkaðnum hækka laun opinberra starfsmanna mun meira en laun annarra.

Hagfræðideild Landsbankans dregur þessa mynd ágætlega skýrt upp. Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 8,5% frá janúar 2020 fram til sama tíma á þessu ári en um 16,1% á þeim opinbera. Laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 13,7% en starfsmenn sveitarfélaga nutu á sama tíma um 18,7% hækkunar launa. Í heild hækkaði launavísitalan um 10,3%.

Fyrstu þrjá mánuði ársins hækkaði launavísitalan um 4,4%, mest í janúar eða um 3,7%, vegna áfangahækkana í kjarasamningum. Almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum verða ekki fyrr en í janúar á komandi ári. Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að þróun launa á opinbera og almenna markaðnum hafi yfirleitt verið með álíka hætti yfir lengra tímabil, „en þar sem um eitt og hálft ár er eftir af núgildandi kjarasamningi, þar sem flestir hópar eru í sama umhverfi, er ekki líklegt að sá munur sem kominn er upp núna jafnist í bráð“. Misgengi launaþróunar milli markaða gengur því að óbreyttu ekki til baka fyrr en við gerð nýrra kjarasamninga og þar er ekki á vísan að róa.

Úr takt við hagþróun

Launaþróunin hér á landi frá upphafi síðasta árs hefur ekki verið í takt við þróun helstu hagstærða og í engum takti við mikinn slaka á vinnumarkaði líkt og mikið atvinnuleysi ber órækt merki um. Ábending hagfræðideildar Landsbankans um að efnahagslegt áfall komi meira fram í auknu atvinnuleysi en áður þegar kaupmáttur launa lækkaði vegna gengisfalls og aukinnar verðbólgu, er rétt. Nú eykst kaupmáttur en atvinnulausum fjölgar, kannski ekki síst vegna þess að veirufaraldurinn hefur höggvið mest í ferðaþjónustu og tengdar greinar, á meðan margar aðrar atvinnugreinar hafa haldið sjó og jafnvel dafnað.

En þessi þróun á ekki að koma neinum á óvart enda í samræmi við kjarasamninga. Nær tveimur þriðju hluta verðmætasköpunar í landinu er varið til greiðslu launa og tengdra gjalda, að því er kemur fram í pistli sem Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði nýlega í Viðskiptablaðið. „Í því ljósi er augljóst að umsamdar launahækkanir samræmast illa greiðslugetu flestra fyrirtækja. Það gefur augaleið að háu atvinnustigi verður ekki viðhaldið við slík skilyrði,“ skrifar Ásdís.

En burtséð frá þeirri staðreynd að þróun launa, ekki síst opinberra starfsmanna, hefur verið þvert á almenna hagþróun síðustu misseri hafa kjarasamningar náð ákveðnum árangri líkt og að var stefnt. Á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu laun verkafólks frá byrjun síðasta árs til janúar síðastliðins mest eða um 13,3%, á móti 8,5% meðalhækkun. Í Hagsjá kemur fram að laun stjórnenda hafi hins vegar hækkað minnst eða um 4%. Meðal atvinnugreina á almenna markaðnum hækkuðu laun minnst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða um 4,6%. Sérfræðingar Landsbankans segja það benda til að minni umsvif í byggingarstarfsemi hafi minnkað launaþrýsting í þessum greinum.

En þrátt fyrir að laun verkafólks hafi hækkað meira en laun annarra á almennum markaði er sú hækkun langt undir launaþróun opinberra starfsmanna, eins og sést vel á meðfylgjandi mynd. Búast má við að launafólk á almennum markaði geri þá kröfu – sem varla getur talist ósanngjörn – að það misgengi sem hefur átt sér stað í launaþróun hins opinbera og einkageirans, verði a.m.k. jafnað, þegar sest verður niður við gerð nýrra kjarasamninga.

Verkefni komandi mánaða og ekki síður á nýju kjörtímabili er að mynda jarðveg til atvinnusköpunar þannig að þúsundir vinnufúsra handa verði aftur virkar á vinnumarkaðinum. Sú atvinnusköpun getur ekki orðið innan opinbera geirans – þótt einhverjir stjórnmálamenn eða flokkar telji að ríkið sé upphaf og endir allra verðmæta.

Share