Af hverju ég skrifa ekki undir hjá Kára

Af hverju ég skrifa ekki undir hjá Kára

Ég ætla að setja fram nokkrar fullyrðingar um íslenskt
heilbrigðiskerfi:

– Það vantar fjárfestingu í innviðum.

– Fjárskortur lamar eða veikir þjónustuna.

– Föst fjárveiting til mikilvægustu stofnunar landsins – Landspítalans – er tímaskekkja sem eykur vanda sjúkrahússins og kerfisins í heild.

– Fjármunum er sóað vegna skipulagsleysis og skammtímahugsunar.

– Kostir einkaframtaksins eru ekki nýttir með skipulegum hætti.

– Einhver arðbærasta fjárfesting sem Íslendingar eiga völ á er í heilbrigðisþjónustu.

Þrátt fyrir marga vankanta er heilbrigðisþjónustan á Íslendi
með þeirri bestu sem þekkist í heiminum. Af einhverjum ástæðum finnst mörgum
rétt að draga upp allt aðra og dekkri mynd; sannfæra landsmenn um að flest sé í
kalda koli og kerfið að hrynja.

Um það verður ekki deilt að gengið var nærri heilbrigðisþjónustunni
á fyrstum árunum eftir hrun bankakerfisins. Sumstaðar var skorið inn að beini
og jafnvel gott betur. Flestir landsmenn höfðu skilning á því að óhjákvæmilegt
væri að skera niður útgjöld til heilbrigðismála, en flestum sveið að sjá
forgangsröðunina þegar útgjöld ríkissjóðs voru ákveðin. Þá var margt í skjóli á
meðan beittur hnífur niðurskurðar fór í gegnum heilbrigðiskerfið.

Hvers er krafist?

Öllum má vera ljóst að við Íslendingar stöndum frammi fyrir
því að fjárfesta verulega í innviðum heilbrigðiskerfisins á komandi árum. Þar
skipta uppbygging heilsugæslunnar og bygging háskólasjúkrahúss mestu. Við munum
einnig þurfa að auka útgjöld til reksturs þjónustunnar töluvert, ekki síst
vegna þess að við sem þjóð erum að eldast.

Í liðinni viku hleypti Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar
erfðagreiningar, af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að „Alþingi
verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins“.

Af orðanna hljóðan eru þeir sem skrifa undir að krefjast þess
að ríkissjóður verji sem nemur 11% landsframleiðslunnar til heilbrigðismála.
Þetta þýðir að heilbrigðisútgjöld ríkissjóðs væru liðlega 218 milljarðar króna
miðað við árið 2014. Samkvæmt ríkisreikningi námu útgjöldin það ár um 140
milljörðum. Með öðrum orðum: Kári Stefánsson og stuðningsmenn hans vilja
(heimta) að útgjöldin verði aukin um 78 milljarða – hvorki meira né minna.

Árið 2014 námu heildarútgjöld Íslendinga – hins opinbera og
heimilanna – um 176 milljörðum. Ef krafa Kára Stefánssonar innifelur útgjöld
heimilanna, er hann engu að síður að kalla eftir að útgjöldin verði aukin um 42
milljarða króna á ári. Hvort þessi aukning á að koma öll úr ríkissjóði eða að
einhverju leyti frá heimilunum er þá spurning sem í engu er svarað.

Peningar leysa ekki allt

Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar gefur þeirri skoðun byr
undir vængi að hægt sé að leysa flest vandamál heimsins með peningum. Verði
fallist á kröfuna sem sett er fram (óháð því hvort um er að ræða 42 eða 78
milljarða) getur enginn tryggt að heilbrigðisþjónustan batni í réttu hlutfalli
við gríðarlega aukningu útgjalda.

En þrátt fyrir að orðalag sem Kári setur fram í
kröfugerðinni sé klaufalegt eða villandi, er framtak hans tímabært. Vonandi
opnast ekki aðeins augu stjórnmálamanna heldur alls almennings fyrir nauðsyn
þess að styrkja og efla heilbrigðiskerfið. Best væri ef öflug umræða og átök um
forgangsröðun ríkisútgjalda fylgdi í kjölfarið.

Að lokinni undirskriftasöfnuninni væri gott að Kári
Stefánsson hugleiddi að leggja fram aðra kröfu:

„Við krefjum þess að eignir ríkisins séu nýttar með betri og
skynsamlegri hætti en gert er.“

Sá er hér heldur um pennann skal fyrstur skrifa undir, enda
ítrekað sett fram kröfu í ræðu og riti um að þeir gríðarlegu fjármunir sem
bundnir eru í fjármálafyrirtækjum (og skuldsettir að auki) verði nýttir til að
greiða niður skuldir ríkissjóðs og fjárfesta í félagslegum innviðum, ekki síst
í heilbrigðiskerfinu. Hið sama á við um margar aðrar eigur ríkisins.

Kerfið og sóunin

Aukin útgjöld til heilbrigðismála er ekki markmið í sjálfu
sér. Markmiðið er alltaf að auka lífsgæði almennings með góðri og öflugri
heilbrigðisþjónustu. Og þá skiptir skipulagið – kerfið sjálft – mestu.

Baráttan við lífsstílstengda sjúkdóma er eitt mikilvægasta
verkefnið í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Takist ekki vel til í þeirri baráttu
mun kostnaður við heilbrigðiskerfið fara úr böndunum og 11% hans Kára duga
skammt.

Skammtímahugsun sem einkennir fjármögnun
heilbrigðiskerfisins frá ári til árs, kemur í veg fyrir að árangur náist á
mörgum sviðum. Þannig kann barátta við áunna sykursýki að kosta töluverða
fjármuni í upphafi en þeir fjármunir skila sér síðar margfalt til baka, að ekki
sé talað um aukin lífsgæði einstaklinga sem tekst að yfirvinna sjúkdóminn.
Fjárfesting í forvörnum í nútíð er ávísun á lægri útgjöld í framtíð. En kerfið
er fast í skammtímahugsun og fjármunum er sóað í framtíðinni.

Svipað er upp á teningnum þegar kemur að elstu borgurum
landsins. Of fá hjúkrunarrými, of lítil heimahjúkrun og heimilishjálp og
veikburða heilsugæsla, kallar á dýrari úrræði sjúkrahúsa. Kostnaðurinn við
kerfið verður hærri og sóunin heldur áfram.

Byrja á grunninum

Öflug heilsugæsla dregur úr heildarkostnaði við kerfið.
Eftir því sem fleiri hafa aðgang að heimilislækni og eiga möguleika á að leita
til starfsfólks í framvarðarsveit heilsugæslunnar, því minni verður
eftirspurnin eftir dýrum meðferðum og innlögnum á sjúkrahús.

Nauðsynlegt er að gjörbreyta fjármögnun Landspítalans og í
kjölfarið annarra sjúkrahúsa, beita forskrift og greiða fyrir unnin, skilgreind
verk. Þannig á að hverfa að mestu af braut fastra fjárframlaga. Um leið opnast
nýir og auknir möguleikar á að gera þjónustusamninga við sjálfstætt lækna um
einstaka þætti líkt og þekkist vel í þeim löndum sem við viljum bera okkur
saman við.

Í stað þess að leggja steina í götur einkaframtaksins á „kerfið“
að nýta sér kosti þess, auka valmöguleika almennings og tryggja um leið
hagkvæma nýtingu fjármuna og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hér hafa nokkur dæmi verið nefnd um nauðsyn þess að huga að
skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Það dugar ekki að krefjast þess að útgjöld
séu aukin og láta þar við sitja. Það þarf að skera kerfið upp og
endurskipuleggja frá grunni, sem er og hefur alltaf verið heilsugæslan. 

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :