Söluhagnaður sumarhúsa skerði ekki lífeyri

Söluhagnaður sumarhúsa skerði ekki lífeyri

Nái frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á tekjuskattslögum fram að ganga, verður skattaleg meðferð frístundahúsa sú sama og gildir um íbúðarhúsnæði. Þá skerðir söluhagnaður ekki greiðslur almannatrygginga.

Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður en að frumvarpinu standa Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Bryndís Haraldsdóttir.

Verði frumvarpið að lögum ræðst skattskylda söluhagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa aðeins af tíma eignarhalds, þ.e. hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur en ekki jafnframt af ákveðnum stærðarmörkum. Markmið frumvarpsins er að einfalda lög um tekjuskatt, skattframkvæmd og að koma til móts við eldra fólk.

Í 17. gr. laga um tekjuskatt er ákvæði um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði að teknu tilliti til fyrninga og áður fengins söluhagnaðar. Stofnverð er kostnaðarverð eigna. Meginreglan er sú að ef maður hefur átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár telst hagnaður af sölu þess til skattskyldra tekna á söluári. Ef maður hefur átt hið selda húsnæði í tvö ár eða lengur telst hagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Gildandi ákvæði á aðeins við um sölu íbúðarhúsnæðis í eigu manna.

Söluhagnaður af frístundahúsnæði er meðhöndlaður eins og aðrar fjármagnstekjur sem greiða þarf fjármagnstekjuskatt af. Þar sem fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá Tryggingastofnun er lagt til að sömu reglur gildi um sölu á frístundahúsnæði og sölu á íbúðarhúsnæði. Til að frumvarpið nái markmiði sínu og að ekki komi til skerðingar á ellilífeyri og örorkulífeyri eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt þannig að ekki komi til skerðinga.

Enn fremur er kveðið á um undanþágu sem í frumvarpi þessu er lögð til að falli brott. Með öðrum orðum er það þannig að ef íbúðarhúsnæði fer yfir tiltekin stærðarmörk er sala íbúðarhúsnæðis skattskyld óháð eignarhaldstíma. Stærðarmörkin eru 600 m3 ef um einstakling er að ræða og 1.200 m3 í tilviki hjóna og er þá söluhagnaður skattskyldur af þeim hluta húsnæðis sem er umfram þessi mörk. Þessi svonefnda rúmmálsregla á þó aðeins við þegar íbúðarhúsnæði er selt sem ekki hefur verið til eigin nota.

Framangreind rúmmálsregla á rót sína að rekja til 4. tölul. 3. gr. laga nr. 7/1972, um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarp það sem síðar varð að téðum lögum var á sínum tíma lagt fram með það fyrir augum að dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt en tíðkast hafði. Fyrir gildistöku rúmmálsreglunnar miðaðist skattfrelsi aðeins við eignarhaldstíma og jókst eftir því sem hann var lengri þar til fullu skattfrelsi var náð. Má gera ráð fyrir að rúmmálsreglunni hafi einkum verið ætlað að jafna stöðu þeirra eignaminni og þeirra sem meira áttu.
    

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :