Samkvæmisleikur þar sem minnihlutinn vinnur

Samkvæmisleikur þar sem minnihlutinn vinnur

Á næstu vikum verða fjölmiðlar líklegast uppteknir af samkvæmisleik, sem getur verið nokkur skemmtun í upphafi en verður leiðigjarn eftir því sem hann stendur lengur yfir. Samkvæmisleikurinn er að mestu saklaus og hefur lítil eða engin áhrif á framtíð þjóðarinnar eða lífskjör almennings.

Strax eftir að formlega varð ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson sæktist ekki eftir endurkjöri sem forseti lýðveldisins hófust fjölmiðlungar handa við að finna arftakann og raunar byrjaði leikurinn nokkru fyrr. Nöfn einstaklinga eru dregin fram og spurningaleikir settir upp á vefsíðum þar sem lesendur eiga að taka afstöðu til valinkunnra einstaklinga.

Margir „máta“ sig við embættið, fá vini og kunningja til að koma sér á framfæri – fésbókarhópar eru settir á fót, hringt er inn í símatíma útvarpsstöðva og viðtöl við fjölmiða skipulögð. Menn lýsa yfir framboði, draga það jafnvel til baka innan sólarhrings, en fjölmiðlar greina skilmerkilega frá framboðinu. Jafnvel þeir sem enginn þekkir eða veit nokkur deili á fá sínar 15 mínútur. Þannig virkar samkvæmisleikurinn. Allir geta tekið þátt í leiknum, ýmist boðið sig fram (þótt ekki sé nema rétt í nokkra klukkutíma) eða gefið álit sitt og fellt dóma yfir væntanlegum frambjóðendum.

Í fyrsta spurningaleiknum, sem visir.is efndi til, hafði formaður Vinstri grænna mest fylgi eða um 20%. Katrín Jakobsdóttir hefur lýst því yfir að framboð til embættis forseta sé ekki á dagskrá en útilokar samt ekkert. Sama dag og spurningaleikurinn hófst birtist forsíðuviðtal við Andra Snæ Magnason í Fréttablaðinu. Forsíðan skilaði honum öðru sæti með 16%. Andri Snær er að hugsa, eins og svo margir aðrir sem ganga með forsetann í maganum.

Kaldhæðni

Um það verður ekki deilt að Katrín Jakobsdóttir hefur margt til brunns að bera til að sinna skyldum forseta en það væri nokkur kaldhæðni fólgin í því ef hún leysti Ólaf Ragnar af hólmi á Bessastöðum.

Sem ráðherra og varaformaður Vinstri grænna barðist Katrín Jakobsdóttir hart fyrir samþykkt Icesave-samninganna. Í baráttu sinni lagðist Katrín gegn því að samningarnir yrðu bornir undir þjóðaratkvæði. Í tvígang hafnaði Ólafur Ragnar Grímsson lögum um ríkisábyrgð á skuldum einkafyrirtækis og jafn oft hafnaði þjóðin. Framganga í Icesave-deilunni, jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi, endurreisti Ólaf Ragnar í huga íslensku þjóðarinnar en um leið vann hann sér óhelgi meðal nokkurra gamalla pólitískra samherja.

Á nýársdag – daginn sem forsetinn tilkynnti ákvörðun sína um að draga sig í hlé – skrifaði Björn Valur Gíslason, varaformaður Katrínar Jakobsdóttur, á bloggsíðu sína:

„Ólafur Ragnar Grímsson hefur svo sannarlega sett mark sitt á embætti forseta Íslands á þeim nærri 20 árum sem hann hefur gegnt því embætti. Fæst af því hefur verið til góðs. Hann hefur náð að sundra þjóðinni í hverju málinu af öðru í stað þess að leiða hana saman. Hann hefur hiklaust efnt til átaka við þjóðina þegar hann hefur talið það henta sér. Honum hefur fundist það vandalaust að taka málstað yfirstéttarinnar og efnafólks þegar það hefur átt við, sem er ansi oft á þessum árum.“

Aðeins Kristján með meirihluta

Samkvæmt 5. grein stjórnarskrárinnar skal forseti „kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis“. Síðan segir:

„Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.“

Fimm einstaklingar hafa gegnt embætti forseta Íslands frá lýðveldisstofnun 1944. Aðeins einn þeirra – Kristján Eldjárn – var í upphafi kjörinn forseti með meirihluta atkvæða. Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti lýðveldisins af Alþingi og þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu 1945 og aftur 1949.

Ásgeir Ásgeirsson náði forsetakjöri árið 1952 með 48,3% atkvæða gegn 45,5% sem féllu í skaut séra Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti. Ásgeir var endurkjörinn þrisvar án mótframboðs og atkvæðagreiðslu.

Kristján Eldjárn tók við árið 1968. Hann hlaut glæsilega kosningu eða 65,6% atkvæða í baráttu við Gunnar Thoroddsen. Hann var sjálfkjörinn tvisvar.

Árið 1980 voru fjórir einstaklingar í framboði og þá hafði Vigdís Finnbogadóttir betur í samkeppni við Guðlaug Þorvaldsson, sem var hennar helsti keppinautur. Hún hlaut 33,8% atkvæða en Guðlaugur 32,3%. Vigdís var endurkjörin fjórum árum síðar án mótframboðs og aftur árið 1988 með 94,6% atkvæða en mótframbjóðandi hennar var Sigrún Þorsteinsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti árið 1996 með 41,4% atkvæða en þá voru þrír aðrir í framboði og kom Pétur Kr. Hafstein næstur með 29,5%. Ólafur Ragnar var sjálfkjörinn fjórum árum síðar og síðan endurkjörinn árið 2004 með 85,6% atkvæða en þá buðu tveir sig fram gegn sitjandi forseta.

Aftur var efnt til forsetakosninga árið 2012 þegar fimm fóru fram gegn forseta sem var endurkjörinn með 52,8% atkvæða en Þóra Arnórsdóttir kom honum næst með 33,2% sem er litlu minna fylgi en dugði Vigdísi til að ná kjöri 1980.

Forseti minnihluta þjóðarinnar

Miðað við allan þann fjölda einstaklinga sem nefndir hafa verið til sögunnar er líklegt að fleiri en nokkru sinni sækist eftir búsetu á Bessastöðum. Það hefur aldrei verið auðveldara að bjóða sig fram. Frambjóðandi þarf sama fjölda meðmælenda og 1952 þrátt fyrir að Íslendingar séu meira en tvöfalt fleiri nú en þá. Tæknin hefur auðveldað aðgengi að almenningi og fjölmiðlar hafa aldrei verið viljugri til að fara í samkvæmisleiki.

Vegna þessa eru meiri líkur en minni að sá sem tekur við keflinu af Ólafi Ragnari Grímssyni í ágúst næstkomandi geri það í krafti töluverðs minnihluta þjóðarinnar. Stuðningur fimmtungs þjóðarinnar – 20% – gæti dugað.

Verkefni forseta, sem hefði aðeins tvo af hverjum tíu Íslendingum á bakvið sig, verður snúið og ekki öfundsvert. En það dregur vart úr áhuganum á að gegna embætti sem er í stjórnskipulegu tómarúmi.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :