Á að virða samgöngusáttmálann?

Á að virða samgöngusáttmálann?

Borg­ar­stjóri er nokkuð kát­ur. Ný könn­un leiðir í ljós að inn­an við helm­ing­ur kjós­enda er hlynnt­ur Borg­ar­línu. Stuðning­ur­inn hef­ur minnkað frá sam­bæri­legri könn­un í októ­ber síðastliðnum og andstaðan auk­ist. „Í stuttu máli er ég bara mjög ánægður með þenn­an sterka stuðning,“ seg­ir Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri í sam­tali við Frétta­blaðið í gær þriðju­dag, en Zenter rann­sókn­ir gerði könn­un­ina fyr­ir blaðið. Í huga borg­ar­stjóra eru niður­stöðurn­ar „mik­il­vægt vega­nesti inn í næsta tíma­bil Borg­ar­lín­unn­ar sem er fram­kvæmda­tíma­bil“. Minnk­andi stuðning­ur og meiri andstaða valda ekki áhyggj­um.

Borg­ar­lín­an er hluti af sér­stök­um sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins, sem und­ir­ritaður var með viðhöfn í Ráðherra­bú­staðnum í sept­em­ber síðastliðnum. For­sæt­is­ráðherra, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, borg­ar­stjóri og bæj­ar­stjór­ar Garðabæj­ar, Hafn­ar­fjarðar, Kópa­vogs, Mos­fells­bæj­ar og Seltjarn­ar­ness, skrifuðu und­ir sátt­mál­ann. All­ir voru á því að um væri að ræða „tíma­móta­sam­komu­lag“ um „metnaðarfulla upp­bygg­ingu á sam­göngu­innviðum og al­menn­ings­sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu til fimmtán ára“.

120 millj­arðar

Á grunni þessa sam­komu­lags samþykkti Alþingi m.a. stofn­un op­in­bers hluta­fé­lags um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða á höfuðborg­ar­svæðinu. Sá er þetta skrif­ar greiddi at­kvæði með stofn­un hluta­fé­lags­ins, þrátt fyr­ir efa­semd­ir um fé­laga­formið. (Op­in­ber hluta­fé­lög – ohf. – hafa reynst dýr lexía fyr­ir lands­menn og þá ekki síst at­vinnu­lífið).

Áætlaður kostnaður er um 120 millj­arðar króna á næstu 15 árum. Rík­is­sjóður trygg­ir a.m.k. 45 millj­arða en bein fram­lög sveit­ar­fé­lag­anna verða 15 millj­arðar eða um einn millj­arður á ári. Um 60 millj­arðar verða fjár­magnaðir með flýti- og um­ferðar­gjöld­um en þó verða aðrir kost­ir tekn­ir til skoðunar sam­hliða orku­skipt­um og end­ur­skoðun á skatt­lagn­ingu á öku­tæki og eldsneyti. Í grein­ar­gerð með frum­varpi um stofn­un op­in­bera hluta­fé­lags­ins kem­ur fram að til greina komi að ríkið fjár­magni þenn­an hluta upp­bygg­ing­ar­inn­ar með sér­stök­um fram­lög­um vegna eigna­sölu, t.d. með sölu á Íslands­banka.

Sam­kvæmt sam­komu­lag­inu er skipt­ing kostnaðar eft­ir­far­andi:

  • 52,2 millj­arðar í stofn­vegi
  • 49,6 millj­arðar í innviði Borg­ar­línu og al­menn­ings­sam­göng­ur
  • 8,2 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, göngu­brýr og und­ir­göng
  • 7,2 millj­arðar í bætta um­ferðar­stýr­ingu og sér­tæk­ar ör­yggisaðgerðir.

Þá seg­ir orðrétt í und­ir­rituðu sam­komu­lagi:

„Við end­an­lega út­færslu fram­kvæmda verður sér­stak­lega hugað að greiðri teng­ingu aðliggj­andi stofn­brauta svo sem Sunda­braut­ar inn á stofn­braut­ir höfuðborg­ar­svæðis­ins.“

Mis­heppnuð markaðssetn­ing?

Allt frá því að fyrst var farið að ræða um Borg­ar­línu hef­ur hug­mynd­in verið um­deild. Kannski ekki síst vegna þess að vaðið var af stað án þess að skýr hug­mynd lægi að baki – allt frá lest­um á tein­um til sérak­reina fyr­ir strætó og flest þar á milli. En jafn­vel eft­ir að hug­mynd­in hef­ur orðið skýr­ari virðist andstaðan á sama tíma aukast. Og af því hljóta sveit­ar­stjórn­ar­menn á höfuðborg­ar­svæðinu að hafa áhyggj­ur, a.m.k. þeir sem hlusta en eru ekki for­hert­ir í bar­átt­unni gegn því að íbú­arn­ir eigi raun­veru­lega val­kosti í sam­göng­um.

Andstaðan við Borg­ar­lín­una er mest í Garðabæ og á Seltjarn­ar­nesi en efa­semd­ir eru einnig í öðrum sveit­ar­fé­lög­um og þá ekki síst í Mos­fells­bæ. Óhætt er að full­yrða að fáir ef nokkr­ir þeirra sem litla eða enga trú hafa á Borg­ar­lín­unni eru mót­falln­ir öfl­ug­um al­menn­ings­sam­göng­um. Marg­ir hafa áhyggj­ur af því að kostnaður – stofn- og rekstr­ar­kostnaður – verði miklu hærri en áætl­un – og vísa til bit­urr­ar reynslu skatt­greiðenda. En andstaðan á sér einnig ræt­ur í ótt­an­um við að Borg­ar­lín­an ryðji einka­bíln­um úr vegi – dragi úr val­kost­um. Þessi ótti er eðli­leg­ur þrátt fyr­ir að sátt­mál­inn sé skýr; að ráðast í um­fangs­mikl­ar sam­göngu­bæt­ur m.a. á stofn­veg­um og tryggja greiðari um­ferð með bættri um­ferðastýr­ingu.

Og hvernig má annað vera? 120 millj­arða sam­göngusátt­mál­inn virðist engu breyta í hug­um for­ystu­manna meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn.

Brostn­ar for­send­ur

Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs, fer mik­inn í grein sem birt­ist hér í Morg­un­blaðinu 13. júlí síðastliðinn: „Einka­bíll­inn er ekki framtíðin“. Borg­ar­full­trú­inn boðar færri „bíla­ak­rein­ar og færri bíla­stæði“ og Borg­ar­línu með „stór­tæk­um hjólainnviðum“.

Í þessu sam­hengi er vert að draga fram að mark­mið sam­göngusátt­mál­ans er skýrt; „að stuðla að aukn­um lífs­gæðum á höfuðborg­ar­svæðinu með upp­bygg­ingu skil­virkra hag­kvæmra, ör­uggra og um­hverf­i­s­vænna sam­göngu­innviða.“ Með þessu mark­miði er meðal ann­ars stefnt að eft­ir­far­andi:

„Að stuðla að greiðum, skil­virk­um, hag­kvæm­um og ör­ugg­um sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu með jafnri upp­bygg­ingu innviða allra sam­göngu­máta.“

Þegar grein for­manns skipu­lags- og sam­gönguráðs er les­in verður ekki hjá því kom­ist að velta því upp hvort það sé ásetn­ing­ur meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar að virða sam­göngusátt­mál­ann að vett­ugi þegar kem­ur að upp­bygg­ingu stofn­vega (52,2 millj­arðar) og bættr­ar um­ferðastýr­ing­ar (7,2 millj­arðar). Skrif for­manns­ins verða ekki skil­in með öðrum hætti en svo að eng­inn áhugi sé á að vinna að „jafnri upp­bygg­ingu innviða allra sam­göngu­máta“, held­ur láta eig­in drauma og fárra annarra um breytt borg­ar­sam­fé­lag ræt­ast.

Sé svo eru for­send­ur sátt­mál­ans brostn­ar. Stofn­un op­in­bers hluta­fé­lags um fram­kvæmd­ir og fjár­mögn­un þeirra, m.a. með dýr­mætu bygg­ing­ar­landi rík­is­ins að Keld­um, verður ekki aðeins óþörf held­ur óskyn­sam­leg.

En borg­ar­stjóri get­ur haldið gleði sinni yfir minnk­andi stuðningi við Borg­ar­lín­una.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :