Átök hugmynda á nýju ári

A gavel coming down on a house. Very high resolution 3D render.

Hagvöxtur hefur verið góður, verðbólga lág og kaupmáttur launa hefur aukist. Atvinnuþátttaka fer vaxandi, atvinnuleysi er lítið og víða vantar starfsmenn. Nýsamþykkt lög um opinber fjármál gefa vonir um að stöðuleiki í ríkisfjármálum verði festur í sessi. Nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna marka tímamót, færa ríkissjóði gríðarlegar tekjur og eru forsenda þess að hægt verði að afnema fjármagnshöft án þess að allt fari úr böndunum.

Flest bendir því til að árið 2016 verði okkur Íslendingum hagfellt þótt oft hafi okkur orðið hált á svelli góðæris. En á sama tíma og lífskjör landsmanna batna munu pólitísk átök setja mark sitt á nýtt ár sem er síðasta heila starfsár ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þrátt fyrir að margt hafi tekist vel er ýmislegt ógert. Grundvallarmál sem mynda rammann um þjóðfélagsgerðina eru óafgreidd. Slík mál kalla á pólitíska sannfæringu og stefnufestu enda ekki afgreidd eða til lykta leidd án átaka.

Stefna í húsnæðismálum

Séreignastefnan hefur lengi verið eitur í beinum margra sem kenna sig ýmist við sósíalisma eða félagshyggju. Í hugum þeirra er draumurinn um eigið húsnæði hluti af borgaralegu viðhorfi – skilgetið afkvæmi markaðshyggju. Þess vegna er hvert tækifæri sem gefst nýtt til að grafa undan séreignarstefnunni.

Vonir um endurreisn séreignarstefnunnar á kjörtímabilinu hafa því miður ekki ræst. Þvert á móti virðist hugmyndafræði félagshyggjunnar hafa náð yfirhöndinni.

Félags- og húsnæðisráðherra hefur lagt fram fjögur frumvörp til laga sem öll gera draum launafólks um séreign og fjárhagslegt sjálfstæði fjarlægari en áður. Áherslan er á leiguhúsnæði. Í stað þess að leita leiða til að auðvelda almenningi að eignast eigið húsnæði er engu líkara en að ríkisstjórnin sé kappsöm við að byggja upp samfélag leiguliða. Þar með verður fótunum kippt undan eignamyndun stórs hluta launafólks. Afleiðingarnar koma fram á næstu áratugum. Við lok starfsævinnar munu margir sitja fastir í fátæktargildru og það kallar á aukin útgjöld almannatryggingakerfisins.

Tveir kostir

Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur felur í sér liðlega tveggja milljarða króna aukin útgjöld ríkisins vegna aðstoðar við leigjendur. Skrifstofa opinberra fjármála telur að útgjöld ríkissjóðs vegna þess nemi í heild 6,6 milljörðum á árinu 2017, miðað við núgildandi verðlag.

Að minnsta kosti hluti aukinna útgjalda lendir í vasa leigusala í formi hærri leigu og nýtist því ekki þeim sem ætlunin er að aðstoða. Skynsamlegra er að draga úr eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sem að öðru óbreyttu lækkar leiguverð, sem aftur kemur þeim til góða, sem vilja eða þurfa að leigja. Með því að gefa fleirum tækifæri til að eignast eigið húsnæði er dregið úr spennu og eftirspurn á leigumarkaði.

Þessa staðreynd hljóta þingmenn að hafa í huga þegar tekist er á um stefnuna í húsnæðismálum. Þeir komast illa hjá því að svara þeirri spurningu hvort miklum fjármunum sé vel varið. Fyrir tvo milljarða má t.d. aðstoða 333 fjölskyldur, á hverju einasta ári, til að eignast eigið húsnæði með því að leggja þeim til 20% eiginfjárframlag í 30 milljóna króna eign. Fyrir 6,6 milljarða er hægt að liðsinna 1.100 fjölskyldum.

Það geta verið skynsamleg efnahagsleg rök fyrir því að ríkissjóður stofni til verulegra útgjalda á hverju ári vegna húsnæðismála. Þar stendur fjárveitingavaldið – Alþingi – frammi fyrir tveimur kostum: Annars vegar að styðja við eignamyndun og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna, eða hins vegar að beina þeim inn í leiguhúsnæði, jafnt félagslegt sem á almennum markaði.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta aldrei valið annað en fyrri kostinn og á sama við um aðra borgaralega þingmenn.

Einfalt og réttlátt kerfi

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á undanförnum árum hefur ekki tekist að einfalda almannatryggingakerfið, gera það gagnsærra og réttlátara. Á nýju ári verður gerð enn ein tilraunin en vonir standa til að nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar skili tillögum til félagsmálaráðherra í janúar.
Nefndin var skipuð í nóvember 2013 og var undir forystu Péturs heitins Blöndal en Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur leitt nefndina síðustu mánuði. (Þess ber að geta að undirritaður á sæti í nefndinni sem fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins.)

Flóknar reglur samhliða ruglingslegum og ósanngjörnum tekjutengingum í almannatryggingakerfinu hafa leitt til óhagræðis og kostnaðar. Til hefur orðið kerfi sem fremur lifir fyrir sig sjálft en að þjónusta og verja hagsmuni þeirra sem þurfa og eiga rétt á greiðslum úr sameiginlegu tryggingakerfi landsmanna.

Ekki á kostnað þeirra er verst standa

Starf nefndarinnar hefur dregist verulega af ýmsum ástæðum. Markmið með breytingum á lögum um almannatryggingar er að einfalda kerfið, sameina bótaflokka, draga úr tekjuskerðingum, innleiða starfsgetumat í stað örorkumats, auka sveigjanleika við starfslok og hækka lífeyrisaldur. Breytingarnar munu, að öðru óbreyttu auka útgjöld ríkissjóðs töluvert á komandi árum en um leið bæta hag velflestra þeirra sem njóta almannatrygginga.

Nái megintillögur nefndarinnar fram að ganga er óhætt að fullyrða að réttarstaða þúsunda einstaklinga skýrist og styrkist. Kerfið verður hins vegar aðeins réttlátara ef þess er gætt að einfaldleikinn verði ekki á kostnað þeirra sem verst standa. Með því væri gengið gegn meginmarkmiði almannatrygginga.

Hér eru ekki tök á að fjalla ítarlega um tillögurnar enda hefur nefndin ekki afgreitt þær með formlegum hætti.

En jafnvel þótt nefndinni takist að ganga frá tillögum sínum í janúar er mikil vinna eftir. Það er flókið verk að smíða frumvarp að nýjum lögum og líklega verður ekki unnt að leggja það fram fyrr en á komandi hausti. Og næsta haust hefst þing þar sem hugur þingmanna verður bundinn við undirbúning að prófkjörum (og/eða uppstillingu á framboðslista) og alþingiskosningum vorið 2017. Breytingar á lögum um almannatryggingar verða því erfiðari en ella og svo kann að fara að þúsundir eldri borgara og öryrkja, sem beðið hafa eftir réttlátum breytingum, verði að bíða enn einu sinni. Eftir því sem tíminn til kosninga verður styttri er líklegra að pólitískt átök harðni með tilheyrandi flokkadráttum. Þá er ekki alltaf spurt um hverjir bera kostnaðinn.

Fleiri átakamál

Hér hafa aðeins verið nefnd tvö mál af mörgum, sem líkleg eru til að vekja upp deilur og ágreining á nýju ári.
Stefnan í málefnum innflytjenda verður eldfim sem og þátttaka okkar í Schengen-samstarfinu, ekki síst ef gerðar verða á því grundvallarbreytingar sem ganga gegn fullveldi þjóðarinnar. Tekist verður á um skipulag heilbrigðisþjónustunnar og stefnuna í skattamálum. Sá er þetta skrifar vonast til að á nýju ári verði kastljósi stjórnmálanna beint að atvinnulífinu og stöðu sjálfstæða atvinnurekandans, sem og að stjórnkerfinu sjálfu og uppskurði þess.

Um þetta verður skrifað þegar nýtt ár rennur í garð.

Share