Fjárfest í framtíðinni

Fjárfest í framtíðinni

Vikan byrjaði vel á Alþingi, að minnsta kosti fyrir framtíðina. Á mánudag var samþykkt frumvarp fjármálaráðherra um ýmsar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar með (sem er hluti af svokölluðum aðgerðapakka 2) var stigið stórt skref í að leggja grunn að nýjum og fjölbreyttari stoðum undir íslenskt efnahagslíf á komandi árum og áratugum.

Við glímum við alvarlegan efnahagslegan vanda vegna baráttunnar við kórónuveiruna. Þó sá vandi sé tímabundinn mun reyna á íslensk heimili, fyrirtæki, ríkissjóð og sveitarfélög. En um leið og tekist er á við erfiðleika hefur verið tekin ákvörðun um að hefja nýja sókn.

Hafi sagan kennt okkur eitthvað þá er það að nýsköpun og ný hugsun eru aflvakar framfara og bættra lífskjara. Án nýsköpunar og frumkvöðulsins sem ryður nýjar brautir staðna þjóðfélög. Þess vegna skiptir það miklu að stjórnvöld styðji á hverjum tíma dyggilega við nýsköpun og sprotafyrirtæki, tryggi hagstætt skattalegt umhverfi, einfalt og skilvirkt regluverk.

Þrjú skref og fleiri

Með samþykkt áðurnefnds frumvarps voru tekin nokkur mikilvæg skref í að efla nýsköpunarstarfsemi og sprotafyrirtæki:

1. Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði var hækkuð í 1.100 milljónir króna og hlutfall endurgreiðslu úr 20% í 35% hjá meðalstórum og minni fyrirtækjum, en í 25% hjá stærstu fyrirtækjunum.

2. Skattaafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í litlum félögum – ekki síst sprotafyrirtækjum í þróunarstarfsemi – var hækkaður úr 50% í 75%. Um leið voru fjárhæðarmörk hækkuð úr 10 milljónum króna í 15 milljónir.

3. Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna voru auknar. Þeim er nú heimilt að eiga allt að 35% í stað 20% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum.

Alþingi gerði meira á mánudaginn. Með samþykkt fjáraukalaga var ákveðið að auka framlög til nýsköpunar og rannsókna um 1.750 milljónir króna eða 11%. Þar af eiga 500 milljónir að renna til nýs Matvælasjóðs, sem verður til með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Sjóðnum er ætlað að styðja við nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Um 1.150 milljónir fara til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra hefur beitt sér fyrir að komið verði á fót. Frumvarp þessa efnis er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Hlutverk Kríu verður að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum vísisjóðum. Þannig á að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífsins og tryggja heilbrigt umhverfi fyrir áhættufjármagn til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Áður var búið að tryggja aukin framlög til Tækniþróunarsjóðs.

Gæfuspor

„Hér hefur verið stigið mikið gæfuspor til lengri tíma sem vonandi og væntanlega skilar þjóðarbúinu arðsömum alþjóðlegum fyrirtækjum til framtíðar,“ skrifaði Ívar Kristjánsson, forstjóri 1938 Games, í umsögn um frumvarp fjármálaráðherra. Fyrirtækið gaf út sinn fyrsta leik 15. apríl síðastliðinn. Á fyrstu tveimur vikunum námu tekjurnar hátt í 40 milljónum króna. Gert er ráð fyrir því að tekjur þessa árs nemi rúmum milljarði króna. Ekki slæmt á fyrsta ári og undirstrikar þau gríðarlegu tækifæri sem liggja í tölvuleikjaiðnaði. Í hugverkaiðnaði virðast tækifæri okkar Íslendinga vera óendanleg.

Í umsögn Samtaka leikjaframleiðenda var fullyrt að stuðningur ríkisins, í gegnum Tækniþróunarsjóð og með endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði, skipti sköpum fyrir iðnaðinn. Með þeim breytingum sem Alþingi hefur samþykkt aukast líkurnar á að hér verði til fleiri fyrirtæki sem líkt og CCP geta orðið leiðandi á alþjóðavísu. Mainframe, Directive Games, Solid Clouds, Mussila, Myrkur Games og Parity eru ásamt 1938 dæmi um sprota sem eru tilbúnir að grípa tækifærin á sístækkandi alþjóðlegum markaði.

Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, benti á í umsögn að þjóðir heims séu í kapphlaupi um að grípa næstu „háframleiðslueiningarnar og tryggja að ný hugverk verði til í hagkerfum“. Og það sé til mikils að vinna:

„Tölvuleikurinn og hugverkið EVE Online hjá CCP hefur sem dæmi fært íslenska hagkerfinu yfir 100 milljarða króna eða 776 milljón dollara í gjaldeyristekjur á 17 árum. Gera má sér í hugarlund hversu miklar tekjur hafa komið af hugverkum fyrirtækja eins og Össurar, Marels og Íslenskrar erfðagreiningar eða hverjar framtíðartekjur af hugverkum fyrirtækja eins og Kerecis eða Nox Medical kunna að verða.“

Drifkraftur framfara

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir harðri alþjóðlegri samkeppni um hugvit. Þeirri samkeppni getum við mætt með öflugu og lifandi menntakerfi en ekki síður hagstæðu og hvetjandi skattaumhverfi fyrir atvinnulífið í heild sinni og fyrir sprota- og nýsköpunarstarfsemi sérstaklega.

Nýsköpun er ekki eitthvert tískuorð nokkurra sérvitringa í tæknifyrirtækjum eða stjórnmálamanna sem grípa á lofti eitthvað sem þeim finnst jákvætt. Nýsköpun á sér stað um allt samfélagið, í flestum greinum atvinnulífsins.

Íslenskur sjávarútvegur er líkt og risastórt nýsköpunarfyrirtæki. Í landbúnaði á sér stað ör vöruþróun og í fáum greinum atvinnulífsins hefur framleiðni aukist meira á síðustu áratugum. Aukin framleiðni byggist á nýsköpun. Framfarir í læknavísindum verða ekki án rannsókna og þróunar. Nýsköpun hefur gert kleift að bjóða upp á fjarheilbrigðisþjónustu. Nýjar kennsluaðferðir í skólum eru nýsköpun. Rafræn þjónusta hins opinbera er óhugsandi án nýsköpunar. Hagkvæmari rekstur ríkisins – aukin framleiðni – næst ekki án nýsköpunar.

Ekkert frjálst þjóðfélag sem vill sækja fram og bæta lífskjör fær þrifist án hugvitsmannsins, – frumkvöðulsins sem kemur auga á tækifærin að framleiða nýja vöru eða bjóða nýja þjónustu. Hann er drifkraftur framfara sem skapa jarðveg fyrir ný störf og aukin lífsgæði. Þjóðir sem hlúa að einstaklingum með nýjar hugmyndir njóta velmegunar umfram aðrar þjóðir. Þess vegna er það ekki aðeins skynsamlegt heldur nauðsynlegt að ýta undir og styðja við nýsköpun á öllum sviðum.

Í einfaldleika sínum er nýsköpun fjárfesting í framtíðinni.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :