Verkefnið er að verja framleiðslugetuna

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að verja framleiðslugetu hagkerfisins. Koma í veg fyrir að tímabundið fall í eftirspurn vegna heimsfaraldurs verði til þess að innviðir viðskiptahagkerfisins molni og verði að engu. Byggingar, tæki, tól, fjármagn en ekki síst hugvit og þekking starfsmanna eru forsendur verðmætasköpunar í samfélaginu. Án verðmætasköpunar lamast heilbrigðiskerfið. Velferðar- og menntakerfi verður aðeins fjarlægur draumur. Verðmætasköpun stendur undir lífskjörum þjóða.

Hvernig tekst til við að verja framleiðslugetuna ræður úrslitum um hversu fljótt og vel okkur Íslendingum tekst að vinna okkur upp úr djúpum efnahagslegum öldudal.

Lítið er mikilvægt

Í samantekt Hagstofunnar fyrir Samtök atvinnulífsins um fjölda fyrirtækja og starfsmanna og launagreiðslur á árunum 2010-2018 kemur fram að árið 2018 var fjöldi launagreiðenda rétt liðlega 21 þúsund. Upplýsingarnar varpa skýru ljósi á mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf 2018:

  • 98% fyrirtækja á Íslandi eru lítil (49 eða færri starfsmenn).
  • Lítil fyrirtæki höfðu um 51% starfsmanna í atvinnulífinu í vinnu.
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki (50- 249 starfsmenn) voru með 73% starfsmanna í atvinnulífinu í vinnu árið 2018.
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 69% heildarlauna árið 2018.
  • Starfsmönnum í atvinnulífinu fjölgaði um 38 þúsund frá 2010 til 2018, þar af fjölgaði starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja um liðlega 27 þúsund.
  • Liðlega 45% fjölgunarinnar eða tæplega 18 þúsund voru hjá örfyrirtækjum (færri en 10 starfsmenn) og litlum fyrirtækjum.

Það er því ekki tilviljun að ríkisstjórn hafi horft sérstaklega til þess með hvaða hætti hægt sé að styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í gær voru kynntar sérstakar bótagreiðslur til fyrirtækja sem var gert að hætta tímabundið starfsemi vegna baráttunnar við veiruna illvígu. Þá verða sérstök stuðningslán boðin fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegum tekjusamdrætti. Aukin áhersla á nýsköpun, með hækkun endurgreiðslu kostnaðar vegna þróunar og rannsókna, er einnig hluti af varnaraðgerðum, sem skipta ekki síst máli fyrir frumkvöðla. Hér eftir sem hingað til er það eitt meginverkefnið að styðja við bakið á framtaksmanninum, sem hefur verið og verður aflvaki framfara og bættra lífskjara.

50 þúsund einstaklingar

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að aldrei hafi fleiri verið í þjónustu stofnunarinnar. Rúmlega 50.000 einstaklingar fá greiddar atvinnuleysistryggingar að fullu eða að hluta á móti skertu starfshlutfalli. Þetta eru litlu færri en íbúar samtals í Kópavogi og Garðabæ. Stofnunin áætlar að atvinnuleysi verði um 17% í apríl. Nú hafa yfir 34 þúsund umsóknir um hlutastörf borist og þar af var í byrjun vikunnar búið að afgreiða nær 30.400. Þá hafa um 2.200 nýjar umsóknir um hefðbundnar atvinnuleysistryggingar komið inn það sem af er apríl, sem er viðbót við þá u.þ.b. 14.200 einstaklinga sem þegar voru skráðir án atvinnu í lok mars – alls 16.600 einstaklingar sem er svipaður fjöldi og allir íbúar Garðabæjar.

Í skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn í mars kemur fram að yfir 40% af umsóknum um minnkað starfshlutfall eru í greinum sem tengjast flugrekstri og ferðaþjónustu. Stór hluti annarra umsókna er úr þeim hluta verslunargeirans sem tengist ferðaþjónustu að einhverju marki.

Atvinnuleysið leggst af misjöfnum þunga á landið. Verst er staðan á Suðurnesjum, þar sem stefnir í 24% atvinnuleysi í þessum mánuði. Sveitarfélög sem hafa treyst á ferðaþjónustu hafa orðið og verða illa fyrir barðinu á Covid-19. Staðan er t.d. sérstaklega erfið í Mýrdalshreppi, þar sem byggst hefur upp glæsileg ferðaþjónusta á síðustu árum.

Verulegur samdráttur verðmæta

Íslenskt þjóðfélag hefur aldrei getað sætt sig við umfangsmikið atvinnuleysi. Ekki aðeins vegna kostnaðarins sem af því hlýst heldur ekki síður vegna þess að atvinnuleysi er líkt og eitur sem seytlar um þjóðarlíkamann. Aukið atvinnuleysi er merki um vannýtta framleiðslugetu samfélagsins. Verðmætasköpunin verður minni og sóunin meiri.

Hagfræðingar eru tregir til að gefa út hagspár við þessar aðstæður, enda engin spálíkön til sem ná utan um þær efnahagslegu aðstæður sem glímt er við. Nú draga þeir fremur upp sviðsmyndir.

Ef landsframleiðslan dregst saman um 10% á þessu ári (sem því miður gæti verið skásta niðurstaðan) munu verðmætin sem íslenskt þjóðarbú býr til dragast saman á þessu ári um tæplega 300 milljarða. Verði samdrátturinn 15%, minnka verðmætin um nær 450 milljarða.

Lífskjör okkar verða lakari og möguleikar hins opinbera til að veita þá þjónustu sem ætlast er til verða minni. Lífskjör okkar á komandi árum ákvarðast af því hvernig tekst til við endurreisn viðskiptahagkerfisins – sem stendur undir öllu. Takist okkur að verja innviði viðskiptahagkerfisins – framleiðslugetu atvinnulífsins – verðum við fljót að ná okkur aftur á strik.

Að þessu leyti er verkefnið skýrt, þótt það vefjist fyrir einhverjum hvar og með hvaða hætti verðmætin verða til.

Share