Fánýtar kennslubækur

Fánýtar kennslubækur

Kórónuveiran hefur sett heiminn í efnahagslega herkví. Hagfræðingar geta ekki sótt í gamlar kennslubækur til að teikna upp skynsamleg viðbrögð. Spámódel, jafnt hin flóknustu sem einföld tímaraðamódel, ná ekki utan um það sem er að gerast. Í stað þess að birta spár um þróun efnahagsmála leggja hagfræðingar fram „sviðsmyndir“ til að reyna að átta sig á stöðunni og hver sé líkleg þróun.

Efnahagsleg áhrif kórónufaraldursins hafa komið hratt en örugglega í ljós. Í stað vaxtar á þessu ári mun hagkerfi heimsins dragast saman. Fá lönd sleppa undan áhrifunum, allt frá Kína til Bandaríkjanna, frá Þýskalandi til Argentínu, frá Suður-Kóreu til Íslands. Samdrátturinn kemur verst niður á löndum sem eiga mikið undir opnum alþjóðlegum viðskiptum. Ísland er eitt þeirra.

Barátta við veiruna er tvíþætt. Annars vegar að verja líf og heilsu almennings. Sú barátta er í forgangi. Hins vegar að verja efnahag þjóða, fyrirtækja og heimila – tryggja efnahagslega framtíð.

Áhrifaríkasta vopnið í baráttunni við hættulegan vírus, fyrir utan almennt hreinlæti, er í senn einfalt, áhrifamikið og kostnaðarsamt: Að stöðva eða hægja hressilega á hjólum efnahagslífsins og takmarka bein mannleg samskipti.

Höfum ekki leiðavísi

Vandinn er sá að við vitum ekki hversu lengi stríðið mun standa. Við vitum ekki fyrir víst hvenær við getum snúið til okkar daglega hefðbundna lífs – hitt vini og kunningja, tekið í hendur á góðu fólki og faðmað þá sem okkur þykir vænt um. Enginn getur sagt með vissu hvenær veitingastaðir verða opnaðir aftur, hvenær rakarinn getur tekið skærin aftur fram eða snyrtifræðingurinn fær að bjóða viðskiptavini sína aftur velkomna.

Engar kennslu- eða fræðibækur í hagfræði eða fjármálafræði geyma leiðarvísi fyrir stjórnvöld eða forystumenn í atvinnulífinu um hvernig best sé að bregðast við aðstæðum, þar sem búið er að „slökkva“ á vélum viðskipta, af illri nauðsyn. En verkefnið liggur ljóst fyrir. Að koma súrefni til tekjulausra/-lítilla fyrirtækja til að fleyta þeim í gegnum erfiða tíma. Hættan er sú að fyrirtæki leysist hreinlega upp í súru baði fasts kostnaðar án þess að eiga nokkra raunverulega möguleika á að afla tekna.

Aðgerðir íslenskra stjórnvalda á síðustu vikum hafa verið nauðsynlegar og skapað svigrúm til frekari ráðstafana til að styðja við atvinnulífið – fyrirtæki og heimili. Það er skynsamlegt að gefa fyrirtækjum kost á því að fresta greiðslu opinberra gjalda fram á komandi ár. Að sama skapi skiptir það miklu að auka bolmagn bankakerfisins til nýrra útlána og að ríkissjóðir gangist á ábyrgð fyrir hluta lána til fyrirtækja. En meira þarf að koma til eins og öllum má vera ljóst.

Að velta sköttum og gjöldum á undan sér í von um betri tíma léttir undir og hið sama á við um ný lán á hagstæðum kjörum. En þetta dugar skammt ef fyrirtæki eru tekjulítil/-laus fórnarlömb óværunnar. Þess vegna hljóta beinar greiðslur ríkisins til að standa undir hluta af föstum kostnaði fyrirtækja að koma til greina. Við þurfum að tryggja að sem flest fyrirtæki, ekki síst lítil og meðalstór, eigi sér viðreisnar von þegar hildarleiknum lýkur.

Hvað höfum við lært?

Við eigum eftir að læra margt af þeim hamförum sem ríða yfir íslenskt samfélag. Sumt mun síast hægt og bítandi inn, annað kallar á endurmat, nýja hugsun og nýja nálgun.

Um eitt höfum við fengið fullvissu – hafi einhver efast: Það er gæfa Íslendinga að hafa með sér þjóðarsáttmála um að tryggja öllum aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Sterkt heilbrigðiskerfi með öflugu starfsfólki skiptir sköpum í að verja líf og heilsu. Það er vegna þess sem við vitum að fyrr fremur en síðar munum við yfirstíga aðsteðjandi ógn.

Síðustu vikur hafa einnig sýnt og sannað hversu mikilvægt það er fyrir frjálsa þjóð að tryggja matvælaöryggi. Ísland er matvælaframleiðsluland, til sjávar og sveita. Hafi einhver ekki áttað sig á mikilvægi landbúnaðar áður en hamfarirnar riðu yfir, ætti allur efi að hafa gufað upp líkt og dögg fyrir sólu. Og þótt ekki blási byrlega á sumum mörkuðum fyrir sjávarafurðir í nokkrar vikur, er augljóst að enn á ný mun sjávarútvegurinn skipta þjóðina miklu í nýrri uppbyggingu efnahagslífsins.

Við höfum einnig séð hversu mikilvægt það er að til séu öflug hátæknifyrirtæki hér á landi – fyrirtæki sem sprottinn eru úr íslenskum jarðvegi með íslensku hugviti og þekkingu. Össur hefur reynst öflugur bakhjarl heilbrigðiskerfisins. Íslensk erfðagreining með Kára Stefánsson í fararbroddi hefur verið í lykilhlutverki í baráttunni við illvíga veiru. Hælbítarnir hafa því þagnað, a.m.k. um sinn.

Nú þegar gefur hressilega á bátinn höfum við einnig fengið staðfestingu á því hversu mikilvægt það er að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum á tímum góðæris. Safna korni í hlöðurnar fyrir mögru árin. Þessari stefnu hefur verið fylgt allt frá 2013 undir forystu Bjarna Benediktssonar. Þess vegna erum við Íslendingar betur í stakk búnir en flestar aðrar þjóðir að glíma við efnahagsleg áföll.

Í eftirleik þessara hörmunga eigum við eftir að svara mörgum spurningum. Hvernig mun hagkerfi heimsins breytast? Hvaða áhrif hefur faraldurinn á alþjóðlega samvinnu? Hvernig breytast grunnhugmyndir stjórnmálanna?

Eða mun ekkert breytast og allt falla í sama farið? Vonandi ekki, því þá höfum við lítið lært.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :