Land tækifæra og velmegunar

Í amstri dags­ins þar sem við sitj­um þar að auki und­ir stöðugum frétt­um af því sem miður fer í heim­in­um, vill að gleym­ast hve gott það er að búa á Íslandi – hversu mik­il gæfa það er að fæðast hér eða eiga hér heima.

Þrátt fyr­ir ým­is­legt megi færa til betri veg­ar og mörg óunn­inn verk séu fram und­an, er Ísland eitt mesta vel­meg­un­ar­land heims. Í raun skipt­ir litlu hvort horft er á efn­is­leg gæði eða hug­læg.

Mér er til efs að nokk­ur smáþjóð hafi nokk­urn tíma alið af sér jafn­marga hæfi­leika­ríka lista­menn og Íslend­ing­ar, að ekki sé talað um af­reks­fólk í íþrótt­um. Mezzof­orte, Björk, Of Mon­sters and Men og Kal­eo. Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands þykir með þeim bestu. Jó­hann Jó­hanns­son, sem féll frá langt fyr­ir ald­ur fram, var í hópi bestu kvik­myndatón­skálda heims. Hild­ur Guðna­dótt­ir tón­skáld er að leggja heim­inn að fót­um sér. Íslenskt kvik­mynda­gerðarfólk hef­ur haslað sér völl í hörðum heimi. Baltas­ar Kor­mák­ur leik­stjóri, Elísa­bet Ronalds­dótt­ir klipp­ari og Eg­ill Eg­ils­son leik­stjóri og kvik­mynda­tökumaður. Arn­ald­ur Indriðason hef­ur staðið fremst­ur meðal jafn­ingja í út­rás ís­lenska rit­höf­unda á síðustu árum. List­inn er lang­ur – miklu lengri.

Við erum að gera eitt­hvað rétt

Sá kraft­ur og fjöl­breyti­leiki sem ein­kenn­ir ís­lenskt list­a­líf er ótrú­leg­ur. Það kraum­ar allt og bend­ir til að við séum að gera eitt­hvað rétt. Okk­ur hef­ur tek­ist að búa til frjórri jarðveg fyr­ir list­ir og menn­ingu en flest­um öðrum þjóðum. Hið sama á við um íþrótt­ir. Aðeins Íslend­ing­ar skilja hvernig 360 þúsund manna þjóð tekst að tefla fram hverj­um íþrótta­mann­in­um á fæt­ur öðrum á keppn­is­völl­um heims­ins. Karla- og kvenna­landsliðin í knatt­spyrnu hafa glæsi­legri ár­angri en nokk­urn Íslend­ing dreymdi um. Svipað er að segja um landsliðið í körfu­bolta, að ekki sé talað um hand­bolt­ann þar sem framtíðin virðist björt með ung­um og efni­leg­um leik­mönn­um. Íslensk­ir fatlaðir íþrótta­menn standa marg­ir fremst­ir í heim­in­um á sínu sviði. Gunn­ar Nel­son, Anníe Mist Þóris­dótt­ir, Fann­ey Hauks­dótt­ir, Ásdís Hjálms­dótt­ir og Arn­ar Davíð Jóns­son eru af­reks­fólk og meðal þeirra fremstu í heim­in­um í sín­um íþrótta­grein­um.

Í gamni hafa út­lend­ing­ar haldið því fram að það sé eitt­hvað í vatn­inu sem skýri glæsi­leg­an ár­ang­ur margra íþrótta­manna. Hreina loftið – súr­efnið – gefi Íslend­ing­um aukakraft­inn. Stór­brot­in nátt­úra – landið sjálft, blítt og gjöf­ult en einnig harðneskju­legt og óvægið, hafi hert fá­menna þjóða, gefið henni kraft en einnig inn­blást­ur sem brjót­ist fram ekki aðeins á íþrótta­vell­in­um held­ur ekki síður í bók­mennt­un, tónlist, dansi, kvik­mynd­um, mynd­list og leik­list.

Hlut­ur launa­fólks vex

Það er langt í frá sjálf­gefið að fá­mennri þjóð tak­ist að byggja upp eitt besta heil­brigðis­kerfi heims, að mati Lancet, sem er eitt virt­asta vís­inda­rit heims á sviði lækn­is­fræði. Íslensk­ir vís­inda­menn á sviði lækn­is­færði standa frama­lega. Með sama hætti gerðist það ekki af sjálfu sér að til hef­ur orðið jarðveg­ur fyr­ir öfl­ug há­tæknifyr­ir­tæki sem eru leiðandi á sínu sviði í heim­in­um eða fram­sæk­in hug­búnaðarfyr­ir­tæki sem sækja út á er­lenda markaði.

Og þrátt fyr­ir að ís­lenskt þjóðarbú hafi orðið fyr­ir áföll­um hef­ur okk­ur tek­ist að byggja upp vel­ferðarsam­fé­lag sem stenst sam­an­b­urð við þau bestu í heim­in­um. Í ýmsu stönd­um við fram­ar öðrum þjóðum í lífs­gæðum.

Síðustu ár hafa verið góð og ís­lenskt launa­fólk stend­ur bet­ur að vígi en nokkru sinni. Frá 2014 til 2019 jókst kaup­mátt­ur launa um 26% og kaup­mátt­ur lág­marks­launa um 32%. Þetta þýðir að kaup­mátt­ur hafi auk­ist um 5-6% að meðaltali á hverju ári. Fjár­hags­staða heim­il­anna hef­ur gjör­breyst á síðustu árum. Skuld­ir lækkað og eigið fé auk­ist.

Í engu ríki OECD renn­ur stærri hluti af verðmæta­sköp­un efna­hags­lífs­ins til laun­fólks en á Íslandi, eða 64%. Sviss og Dan­mörk koma þar á eft­ir með 60,5% og liðlega 59%. Launa­hlut­fallið hef­ur farið hækk­andi á und­an­förn­um árum sem þýðir að hlut­deild launa­fólks hef­ur auk­ist en hlut­ur fyr­ir­tækja dreg­ist sam­an. Árið 2009 var hlut­ur launa­fólks rétt tæp 51%.

Jöfnuður er meiri á Íslandi en á öðrum Norður­lönd­um (skv. Gini-stuðli). Ekk­ert land í OECD er með meiri jöfnuð fyr­ir utan Slóvakíu, en þar eru lífs­kjör­in tölu­vert lak­ari en hér á landi. Hvergi er fá­tækt eldri borg­ara minni en á Íslandi og sam­kvæmt alþjóðaeft­ir­launa­vísi­töl­unni er hvergi betra að fara á eft­ir­laun. Sam­kvæmt OECD er fá­tækt (hlut­fall fólks með lægri tekj­ur en 50% af miðgildis­tekj­um) hvergi minni en í Dan­mörku og á Íslandi.

Á Íslandi eru greidd hæstu meðallaun­in. Næst á eft­ir koma Lúx­em­borg, Sviss og Banda­rík­in. Lág­marks­laun á Íslandi eru þau þriðju hæstu í lönd­um OECD. Í Nor­egi og Dan­mörk eru lág­marks­laun­in hærri.

Hag­kerfi til fyr­ir­mynd­ar

Jafn­rétti kynj­anna er hvergi meira en á Íslandi. Í ell­efu ár hef­ur Ísland verið leiðandi meðal þjóða í jafn­rétt­is­mál­um sam­kvæmt skýrslu Alþjóða efna­hags­ráðsins (World Economic For­um).

Á síðustu árum hafa Íslend­ing­ar notið verðstöðug­leika. Verðbólga hef­ur aldrei farið yfir 3% að meðaltali síðustu sex ár, í fjög­ur ár var verðbólga 2% eða lægri. Vext­ir eru í sögu­legu lág­marki.

Ísland er fyr­ir­mynd­ar­hag­kerfi í út­tekt Alþjóða efna­hags­ráðsins. Á mæli­kv­arða „Inclusi­ve Develop­ment Index“, sem mæl­ir ekki aðeins hag­vöxt held­ur ýmsa fé­lags­lega þætti og hvernig ríkj­um tekst að láta sem flesta njóta efna­hags­legs ávinn­ings og fram­fara og tryggja jöfnuð milli kyn­slóða raða Norður­lönd­in sér í efstu sæt­in; Dan­mörk, Nor­eg­ur, Finn­land Svíþjóð og Ísland.

Ísland er ör­ugg­asta og friðsam­asta land heims sam­kvæmt „Global Peace Index“. Dan­mörk er í fimmta sæti, Finn­land í fjór­tánda sæti, Svíþjóð í því átjánda og Nor­eg­ur í tutt­ug­asta sæti.

Þegar allt þetta er haft í huga er það um­hugs­un­ar­vert af hverju reynt er að draga aðeins upp dökka mynd af landi og þjóð. Það er engu lík­ara en ákveðin öfl nær­ist á að dvelja við hið nei­kvæða. Fá tæki­færi eru lát­in ónotuð til að tala Ísland niður. Allt er gert til að byggja und­ir þá til­finn­ingu að Ísland sé spillt land þótt landið sé í hópi þeirra óspillt­ustu að mati alþjóðsam­taka sem berj­ast gegn spill­ingu. Ísland er í 11. sæti af 180 lönd­um á lista Tran­sparency In­ternati­onal.

En þótt margt hafi tek­ist vel og staðan al­mennt góð, er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera bet­ur á ýms­um sviðum. Við eig­um ýmis verk óunn­inn þegar kem­ur að al­manna­trygg­ing­um, skipu­lagi heil­brigðis­kerf­is­ins og ekki síður mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að gera meiri kröf­ur til þess að sam­eig­in­leg­ir fjár­mun­ir okk­ar nýt­ist en sé ekki sólundað. Og okk­ar bíða risa­verk­efni á sviði innviðafjár­fest­inga og til þess erum við vel í stakk búin. Tæki­færi eru fyr­ir hendi.

Share