Í sjálfheldu fábreytileika og aukinna útgjalda

Í sjálfheldu fábreytileika og aukinna útgjalda

Krafan um stöðugt aukin ríkisútgjöld er sterk. Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á síðustu árum vantar fjármuni í alla málaflokka, sé tekið mið af fréttum, ákalli hagsmunaaðila og kröfum stjórnmálamanna að því er virðist úr öllum flokkum. Það vantar fjármuni í heilbrigðiskerfið, í almannatryggingar, í menntakerfið, í samgöngur og löggæslu. Umhverfismál eru sögð fjársvelt, við setjum ekki næga peninga í þróunaraðstoð, sveitarfélögin telja sig hlunnfarin í samskiptum við ríkið. Ætlast er til að meiri fjármunir séu settir í nýsköpun og rannsóknir, nauðsynlegt er að hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur. Ríkið á að styðja enn betur við bakið á menningarstarfsemi og auka endurgreiðslur (styrki) til kvikmyndagerðar og bókaútgáfu. Og ekki má gleyma kröfunni um að ríkissjóður sendi einkareknum fjölmiðlum árlegan tékka svo þeir sigli ekki í strand.

Þunginn að baki kröfum um stóraukin ríkisútgjöld er mikill. Kröfurnar eru endalausar en of fáir velta því fyrir sér hver eða hverjir eigi að standa undir öllu. Enn færri hafa áhuga á því að skoða meðferð opinbers fjár – leita svara við því hvort við séum að bæta þjónustu og gæði með auknum útgjöldum. Engu er líkara en að hagkvæm ráðstöfun sameiginlegra fjármuna sé aukaatriði. Aukning útgjalda er sjálfstætt markmið. Dæmi um þetta er heilbrigðiskerfið.

Nær 100 milljarða aukning

Samkvæmt fjárlögum þessa árs verða framlög til rekstrar heilbrigðiskerfisins (fjárfesting ekki talin með) nær 245 milljarðar króna. Á einum áratug hafa framlögin því hækkað um tæplega 98 milljarða að raunvirði, eða 67%. Mér er til efst að margar aðrar þjóðir hafa staðið þannig að verki.

En þrátt fyrir mikla aukningu – gríðarlega aukningu – virðist víða pottur brotinn. Krafan um að útgjöld til heilbrigðismála skuli ekki vera lægri en 11% af landsframleiðslu hljómar enn á ný. Því er haldið fram að Íslendingar séu eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að opinberu fjármagni til heilbrigðismála og engu skiptir þótt aldurssamsetning þjóðarinnar sé hagstæðari.

Til að setja hlutina í samhengi. Krafan um að tryggja að hlutfall heilbrigðisútgjalda nemi 11% af landsframleiðslu jafngildir því að útgjöld ríkisins hækki um liðlega 93 milljarða króna á þessu ári. Til að standa undir því yrði að hækka tekjuskatt einstaklinga um 45% eða hækka virðisaukaskatt um 36%. Það er einnig hægt að nær tvöfalda tryggingagjaldið. Auðvitað er hægt að útfæra tekjuöflun ríkisins með öðrum hætti, hækka suma skatta meira en aðra en í heild yrðu skatttekjur að hækka um 13% frá því sem ætlað er. Og þá er gengið út frá því að hækkun skatta hafi engin neikvæð áhrif á efnahagslífið – allir vita hversu fráleit slík forsenda er.

Aukin útgjöld til heilbrigðismála eru ekki markmið í sjálfu sér. Verkefnið er alltaf að auka lífsgæði almennings með góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu.

Betri nýting fjármuna

Flestir viðurkenna að auka verði útgjöld til heilbrigðismála eftir því sem þjóðin eldist. Við getum dregið úr aukningunni með skynsamlegri fjárfestingu í baráttunni gegn lífsstílstengdum sjúkdómum. En við verðum um leið að horfast í augu við þá staðreynd að fjármunum er víða sóað, þeir eru illa nýttir. Ég hef haldið því fram að eitt stærsta verkefni okkar á sviði heilbrigðismála sé að tryggja betri nýtingu fjármuna – að skattgreiðendur – hinir sjúkratryggðu – fái það sem greitt er fyrir; öfluga og góða heilbrigðisþjónustu. Þar skiptir skipulagið – kerfið sjálft – mestu.

Í grein hér í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag rökstyður Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, ágætlega þá fullyrðingu að álag á Landspítalann sé „komið yfir þolmörk“. Hann sér hins vegar ekki aðeins vandann heldur einnig lausnir:

„Möguleg lausn væri að skoða alla þjónustuþætti sjúkrahússins og greina betur það sem kalla má kjarna- og lykilstarfsemi frá annarri starfsemi sem hægt væri að fela öðrum sem þegar eru reiðubúnir að sinna þeirri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisyfirvöld virðast mótfallin slíkum aðgerðum og hafa með aðgerðum sínum í raun kallað fram það ófremdarástand sem nú hefur þróast.“

Reynir segir að á sama tíma og álagið á bráðaþjónustu Landspítalans sé komið að þolmörkum séu sjúkrahúsinu „falin viðbótarverkefni, ýmist í formi svokallaðra átaksverkefna eða þjónustu sem verið er að færa til vegna þeirrar stefnu heilbrigðisyfirvalda að einkarekin heilbrigðisþjónusta skuli dregin saman með öllum tiltækum ráðum“.

Skilaboð formanns Læknafélagsins eru skýr. Það megi með rökum halda því fram að viðbótarfjárveitingar til Landspítalans vegna „átaks- og sérverkefna hafi í raun haft þau heildaráhrif að þjónustan á öðrum sviðum og sérstaklega við bráðveikt fólk hafi skerst og sé komin niður fyrir þau öryggismörk sem læknar telja viðunandi“.

Sáttmáli brotinn

Svo virðist sem það sé inngróin tregða í kerfinu að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu, auka valmöguleika almennings og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna og draga úr álagi á sjúkrahúsum. Þegar sýnt er að takmarkaðir fjármunir nýtast betur og þjónustan við landsmenn verður öflugri er engin skynsemi í því að leggja steina í götur einkarekstrar. Afleiðing blasir við, eins og formaður Læknafélagsins bendir á.

Fábreytileiki í rekstrarformi innan heilbrigðiskerfisins leiðir til verri þjónustu við landsmenn – sem allir eru sjúkratryggðir – veldur auknum kostnaði og grefur undan samkeppnishæfni Íslands við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt starfsfólk, eftir langt sérnám. Dregið er úr framþróun enda horft framhjá því að læknisfræðin er þekkingariðnaður.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er á leið í sjálfheldu frábreytileika og aukinna útgjalda. Engu er líkara en að allt snúist um að auka útgjöldin og koma böndum á einkarekstur, í stað þess að leggja áherslu á þjónustu við alla sjúkratryggða.

Vandi heilbrigðiskerfisins verður ekki leystur með sífellt auknum útgjöldum (þó að við þurfum örugglega að auka útgjöldin á komandi árum og áratugum). En verst af öllu er að verða vitni að því hvernig hægt og bítandi er að myndast jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar, með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar. Efnafólk mun nýta sér góða og örugga heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila en við hin bíðum milli vonar og ótta á ríkisreknum biðlistum um að fá nauðsynlega þjónustu áður en það er orðið of seint. Og þá stendur ekkert eftir af þjóðarsáttmálanum um að sameiginlega tryggjum við öllum jafnan aðgang að nauðsynlegri þjónustu óháð efnahag.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :