Full endurgreiðsla VSK og byggingarkostnaður lækkar um 3%

Nái frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna, fram að ganga má ætla að byggingakostnaður lækki um 3%. Ég mælti fyrir frumvarpinu í gær, fimmtudaginn 19. september. Ljóst er að frumvarpið nýtur víðtæks stuðnings þvert á flokka. Allir þingmenn sem tóku til máls lýstu yfir stuðningi við málið. Það eru því góðar líkur á að frumvarpið verði að lögum áður en árið er úti.

Sjá frumvarpið hér og umræður fimmtudaginn 19. september

Virðisaukaskattur var endurgreiddur að fullu af vinnu sem innt var af hendi frá 1. mars 2009 til 1. janúar 2015 en þá var endurgreiðslan lækkuð í 60% greidds virðisaukaskatts. Virðisaukaskattur vegna vinnu við frístundahúsnæði, hvort heldur sem var vegna nýbyggingar eða endurbóta og viðhalds, var einnig endurgreiddur að fullu fram til 1. janúar 2015 en eftir það féll sú endurgreiðsla niður.

Í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, var fjallað um að bregðast bæri við þeirri hækkun byggingarkostnaðar sem fælist í því að byggingarvinna, sem áður hefði verið undanþegin söluskatti, yrði framvegis virðisaukaskattsskyld. Var farin sú leið að mæla fyrir um að endurgreiða skyldi virðisaukaskatt af vinnu við nýbyggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis að fullu, sbr. 13. gr. laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 119/1989. Endurgreiðsluhlutfallið var lækkað niður í 60% með lögum nr. 86/1996 (sbr. 444. mál á 120. löggjafarþingi) og lögum nr. 149/1996 (sbr. 144. mál á 121. löggjafarþingi). Með lögum nr. 10/2009 (sbr. 289. mál á 136. löggjafarþingi) var endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við íbúðarhúsnæði hækkað úr 60% í 100% með sérstöku bráðabirgðaákvæði í lögum um virðisaukaskatt. Í greinargerð frumvarpsins kom fram að markmiðið með hækkun endurgreiðslunnar væri að „koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði“.

Óhætt er að fullyrða að markmið frumvarpsins hafi náðst með ágætum hætti. Lækkun endurgreiðslunnar árið 2015 vinnur í þveröfuga átt. Vísbendingar eru um að með lægri endurgreiðslu hafi svört atvinnustarfsemi aukist og heildarskatttekjur ríkissjóðs orðið lægri en ella. Því er óvíst að frumvarp þetta, nái það fram að ganga, hafi neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs þrátt fyrir aukin útgjöld af endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Með þessu frumvarpi er lagt til að virðisaukaskattur af vinnu við byggingu eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði að nýju endurgreiddur að fullu. Ekki er gerð tillaga um sams konar endurgreiðslu vegna frístundahúsa að svo stöddu þó að sterk rök séu fyrir því. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að hugað verði að þeim þætti síðar.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :