Gerum alla að kapítalistum – að eignafólki

Í sjálfu sér er ákvörðunin tiltölulega einföld. Meirihluti Alþingis getur sameinast um að afhenda öllum Íslendingum eignarhluti í tveimur bönkum, sem þeir eiga en ríkissjóður heldur á í umboði þeirra. Með því yrði ýtt undir þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og margir fengju tækifæri til að stíga fyrstu skrefin í átt að því að gerast kapítalistar.

Auðvitað má búast við andstöðu á þingi og víðar við að launafólk fái afhentan eignarhlut í fyrirtækjum sem það á sameiginlega. Þeir eru enn til sem trúa því í einlægni að samfélaginu vegni best ef flest (öll!) atvinnutæki eru á höndum ríkisins. Ríkishyggjan getur aldrei samþykkt hugmyndir um valddreifingu og auðstjórn almennings.

En það gæti orðið áhugavert að fylgjast með hverjir setjast á bekk með úrtölumönnum og gerast talsmenn stjórnlyndis með því að leggja steina í götu þess að einstaklingar eignist milliliðalaust hlut í bönkunum. Að skjóta styrkari stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra og gera Íslendinga að kapítalistum, er eitur sem enn seytlar um æðar margra, sem eru sannfærðir um að séreignarstefnan eigi rætur í hugsunarhætti smáborgarans.

Fjárstjórn fjöldans

Almannavæðing fjármálakerfisins, líkt og hér er lagt til, er hluti af frelsisbaráttu Sjálfstæðisflokksins í 90 ár. Barátta fyrir að gera launafólk að eignafólki, – tryggja því fjárhagslegt sjálfstæði og frelsi til athafna. Eyjólfur Konráð Jónsson – Eykon – talaði um auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Hans draumur var að almenningur yrði virkur þátttakandi í atvinnulífinu og að til yrðu öflug almenningshlutafélög með þúsundir eigenda. Með þessu yrði þjóðarauðnum dreift til sem „allra flestra borgara landsins, að auðlegð þjóðfélagsins safnist hvorki saman á hendur fárra einstaklinga né heldur ríkis og opinberra aðila“. Með öðrum orðum: Valdinu sem fylgir yfirráðum yfir fjármagni er dreift á meðal allra landsmanna. Draumurinn er að allir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum, „en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins“.

Það var einlæg sannfæring Eykons, líkt og allra forystu- og hugsjónamanna Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar, að nauðsynlegt væri að örva sem „allra flesta til þess að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur, hvort heldur þeir taka sér fyrir hendur að reka trillubát eða iðjuver“.

Ekki fyrir fáa útvalda

Davíð Oddsson mótaði þessa hugsjón sjálfstæðismanna í nokkrum meitluðum orðum á Viðskiptaþingi Verslunarráðs í febrúar 2004:

„Tilgangur baráttu okkar fyrir einstaklingsfrelsinu var aldrei sá að frelsið yrði fyrir fáa útvalda. Of mikil samþjöppun í efnahagslífinu er í mínum huga óæskileg og lítt dulbúin frelsisskerðing.“

Líkt og Davíð minnti á fyrir liðlega 15 árum kostaði það mikil pólitísk átök að ná samstöðu um nauðsyn þess að ríkið hætti að leika aðalhlutverkið í íslensku atvinnulífi. Hann óttaðist hins vegar að stuðningur við þá stefnu myndi fjara út „ef þess er ekki gætt að jafnvægi ríki á markaðinum og ekki gíni of fáir yfir of miklu“.

Grunnstef sjálfstæðisstefnunnar er frelsið – frelsi til orðs og athafna, sem er hreyfiafl allra framfara og bættra lífskjara. Frelsið virkjar hugvit og útsjónarsemi einstaklinganna. Á Viðskiptaþingi undirstrikaði Davíð Oddsson að frelsi eins mætti aldrei verða annars böl og því væri nauðsynlegt að í gildi væru skýrar reglur sem tryggðu, eins vel og kostur væri, sanngirni og heiðarleika í samskiptum manna. Þær reglur yrðu því að tryggja „að viðskiptafrelsið sé sem mest, að sem flestir fái tækifæri til að keppa og þjóðin fái notið sem ríkulegastra ávaxta af atvinnustarfseminni“.

Hlutdeild í virðisauka

Ég hef áður haldið því fram að eðlilegt sé og sanngjarnt að almenningur fái að njóta með beinum hætti þess virðisauka sem hefur myndast innan veggja bankanna frá endurreisn þeirra. Til þess er engin leið betri en að ríkið afhendi hverjum og einum hlutabréf í bönkunum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þessari hugmynd í ræðu á landsfundi 2015. Frá þeim tíma hefur staðan styrkst. Uppgjör þrotabúa gömlu bankanna tókst einstaklega vel, stöðugleikaframlög og sala á hlut ríkisins í Arion banka hefur aukið svigrúmið til að láta almenning njóta ávaxtanna með beinum hætti.

Það er í takt við grunntón Sjálfstæðisflokksins að senda landsmönnum beinan hlut í bönkunum. En fleira skiptir þar máli. Dreift eignarhald – auðstjórn almennings og valddreifing – mun ekki aðeins auka aðhald að mikilvægum stofnunum samfélagsins heldur einnig styrkja tiltrú og eyða tortryggni í garð fjármálakerfisins.

„Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt,“ segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar er bent á að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé það umfangsmesta í Evrópu og „vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því“. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar ásáttir um að ríkissjóður verði „leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun“. Hér er um eðlilega og sanngjarna málamiðlun þriggja ólíkra stjórnmálaflokka að ræða. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins vill ganga lengra og hefur áréttað að engin þörf sé á „eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið“. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að umsvif ríkisins á fjármálamarkaði hér á landi eiga sér enga hliðstæðu í vestrænum ríkjum.

Í lok mars nam eigið fé Landsbanka og Íslandsbanka um 420 milljörðum króna. Verðmæti bankanna kann að vera eitthvað lægra, en um það veit enginn fyrr en á reynir. Þessum fjármunum er betur varið í að treysta innviði samfélagsins, í samgöngumannvirki, orkuvinnslu og -dreifingu, fjarskipti, skóla, byggingar og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu og íþróttahús. Fjárfesting í traustum innviðum, sem eru forsenda hagsældar og bættra lífskjara, er arðbærari en að festa fjármuni í áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja.

Mismunandi áherslur stjórnarflokkanna og ólík viðhorf til hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði kemur ekki í veg fyrir að tekin sé ákvörðun um valddreifingu – að afhenda landsmönnum eignarhlut í bönkunum tveimur sem eru í eigu ríkisins. Um leið er fallist á sanngjarna kröfu um að almenningur, sem tók þátt í endurreisn fjármálakerfisins, fái eitthvað í sinn hlut – 10-20% á næstu fjórum til fimm árum, samhliða því sem skipulega er dregið úr eignahaldi ríkisins á fjármálamarkaði.

Share