„Ég vona að ég fái að ráða hvenær ég hætti“

Gerd Altmann

Það er sama af hvaða sjón­ar­hóli horft er á ís­lenskt sam­fé­lag. Við get­um horft á framtíðina með aug­um ungs fólks sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnu­markaði eða þeirra sem eru að ljúka eða hafa lokið góðri starfsævi. Við get­um sett okk­ur í spor barna sem full til­hlökk­un­ar setj­ast á skóla­bekk í fyrsta skipti eða for­eldra þeirra sem eiga sín bestu ár eft­ir á vinnu­markaði. Sjón­ar­hóll­inn kann að vera mis­mun­andi en öll­um ætti að vera ljóst hve mik­il­vægt það er að kyn­slóðirn­ar mæti sam­eig­in­lega áskor­un­um sem fylgja breyttri ald­urs­sam­setn­ingu á kom­andi ára­tug­um.

Gleðifrétt­irn­ar eru þær að Íslend­ing­ar verða stöðugt eldri. Lífs­lík­ur karla hafa auk­ist um níu ár síðustu 40 ár eða svo. Meðalævi­lengd karla var 71,6 ár árin 1971-75. Árið 2017 var meðal­ald­ur­inn 80,6 ár. Meðalævi­lengd kvenna hef­ur einnig lengst – úr 73,5 árum í 83,9.

Vondu frétt­irn­ar eru þær að frjó­semi held­ur áfram að minnka. Árið 2018 var frjó­semi ís­lenskra kvenna 1,7 börn á ævi hverr­ar konu og hef­ur hún aldrei verið minni frá því að mæl­ing­ar hóf­ust árið 1853, sam­kvæmt upplýsing­um Hag­stof­unn­ar. Árið 1971 eignaðist hver kona að meðaltali 2,9 börn, árið 1960 um 4,3 börn. Líkt og bent er á í frétt Hag­stof­unn­ar í apríl síðastliðnum er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjöld­an­um til lengri tíma litið.

Eitt það besta í heim­in­um

Í heild er ís­lenska líf­eyri­s­kerfið sterkt – eitt það besta í heim­in­um. Hlut­falls­lega fjölg­ar þeim stöðugt sem fá greidd­an líf­eyri frá líf­eyr­is­sjóðunum og þeim eldri borg­ur­um sem þurfa að treysta ein­göngu á greiðslu frá al­manna­trygg­ing­um fækk­ar. Þetta eru góðar frétt­ir.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Fjár­mála­eft­ir­lits­ins [FME] nam líf­eyr­is­sparnaður lands­manna 4.439 millj­örðum króna í árs­lok 2018. Sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu nem­ur líf­eyr­is­sparnaður­inn 160% sem er hátt í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Aðeins Dan­mörk og Hol­land eru með hærra hlut­fall eða 199% og 171%. Sér­eign­ar­sparnaður í vörslu líf­eyr­is­sjóðanna nam 425 millj­örðum. Sér­eign­ar­sparnaður í vörslu annarra en líf­eyr­is­sjóða nam 202 millj­örðum. FME bend­ir á að með til­komu svo­kallaðrar til­greindr­ar sér­eign­ar hafi eign­ir sér­eign­ar­sparnaðar auk­ist hratt og muni gera það á kom­andi árum.

Því hef­ur verið haldið fram að líf­eyr­is­sjóðirn­ir séu fjör­egg okk­ar Íslend­inga. Okk­ur hef­ur tek­ist flest­um þjóðum bet­ur að búa í hag­inn fyrr framtíðina í stað þess að ýta vand­an­um yfir á kom­andi kyn­slóðir. Að þessu leyti er fyr­ir­hyggj­an meiri hér á landi en í flest­um öðrum lönd­um.

Marg­ar þjóðir Evr­ópu horfa fram á gríðarleg­an vanda við að fjár­magna svim­andi líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar og standa und­ir hækk­andi út­gjöld­um vegna heil­brigðismála vegna hækk­andi ald­urs. Sú hætta er raun­veru­leg – ekki síst í mörg­um lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins – að rof mynd­ist milli kyn­slóða. Átök verði á milli yngri og eldri. Líf­eyr­is­skuld­bind­ing­arn­ar eru svo þung­ar að við þær verður ekki staðið án þess að skerða lífs­kjör þeirra sem eru á vinnu­markaði (t.d. með stöðugt hærri skött­um) eða lækka veru­lega líf­eyr­is­greiðslur eldri borg­ara. Ég hef líkt þess­ari stöðu við tímasprengju.

Gjá milli kyn­slóða

Sterk staða ís­lensku líf­eyr­is­sjóðanna gef­ur okk­ur tæki­færi til að forðast að gjá mynd­ist milli kyn­slóða hér á landi. En þá verðum við að horf­ast í aug­um við áskor­an­ir og tak­ast á við þær. Í heild er trygg­inga­fræðileg staða sjóðanna nei­kvæð – skuld­bind­ing­ar eru um­fram eign­ir – og þar ræður mestu að líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar rík­is og sveit­ar­fé­laga eru ekki að fullu fjár­magnaðar. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um FME nam út­greidd­ur líf­eyr­ir sam­trygg­ing­ar­deilda líf­eyr­is­sjóðanna á síðasta ári 136 millj­örðum og jókst um 11 millj­arða eða 8,8%. Ljóst er að líf­eyr­isþegum fjölg­ar hratt á næstu árum og rétt­indi þeirra verða að jafnaði meiri en þeirra sem nú eru á líf­eyri. Útgreidd­ur líf­eyr­ir mun því aukast veru­lega um leið og það dreg­ur úr aukn­ingu iðgjalda. Á móti þessu kem­ur að þeim sem treysta á al­manna­trygg­ing­ar mun fækka á kom­andi ára­tug­um. Al­menna líf­eyr­is­sjóðakerfið tek­ur við.

Í liðinni viku vakti ég at­hygli á að við stönd­um frammi fyr­ir breyttri lýðfræðilegri sam­setn­ingu. Hlut­fall fólks, 67 ára og eldra, hækk­ar úr 12% í 19% árið 2040. Þá verða eldri borg­ar­ar orðnir 76 þúsund. Tutt­ugu árum síðar verður hlut­fallið 22% og fjöldi eldri borg­ara 97 þúsund. Eldri borg­ar­ar verða um 114 þúsund árið 2066. Þess er ekki langt að bíða að eldri borg­ar­ar utan vinnu­markaðar verði fleiri en þeir sem eru und­ir tví­tugu. Að óbreyttu verða æ fleiri utan vinnu­markaðar. Við sem þjóð höf­um ekki efni á því – jafn­vel þótt líf­eyri­s­kerfið standi sterk­ar hér en í flest­um öðrum lönd­um.

Sam­vinna kyn­slóðanna

Ekki verður hjá því kom­ist að stokka upp spil­in. Hækka þarf eft­ir­launa­ald­ur­inn, fyrst í 70 ár í skref­um á næstu 10-12 árum og síðan í takt við hækk­un líf­ald­urs á kom­andi ára­tug­um. Ríki og sveit­ar­fé­lög verða að af­nema há­marks­ald­ur op­in­berra starfs­manna. Hægt er að orða þetta með ein­föld­um hætti: Lengja verður starfsævi allra Íslend­inga í takt við hærri líf­ald­ur. Og til að standa und­ir bætt­um lífs­kjör­um verður einnig að auka fram­leiðni vinnu­afls og fjár­magns. Fram­leiðni vinnu­afls og fjár­magns verður ekki auk­in með hærri skött­um, ólíkt því sem marg­ir stjórn­mála­menn halda.

Hækk­un eft­ir­launa­ald­urs leys­ir auðvitað ekki allt. Við þurf­um hug­ar­fars­breyt­ingu. Ungt fólk verður að virða rétt þeirra eldri til að taka virk­an þátt í vinnu­markaðinum og skynja þau verðmæti sem fólg­in eru í reynslu og þekk­ingu. Að sama skapi verða þeir eldri að gefa yngra fólki svig­rúm, vera opn­ir fyr­ir nýj­um hug­mynd­um og aðferðum. Hug­ar­fars­breyt­ing­in felst í auk­inni sam­vinnu milli kyn­slóða.

Margt eldra fólk sem er í fullu fjöri – hef­ur löng­un og styrk til að halda áfram á vinnu­markaði. Það er efna­hags­leg firra að koma í veg fyr­ir að það haldi áfram að vinna, hvort held­ur er í fullu starfi eða hluta.

„Ég vona að ég fái að ráða hvenær ég hætti,“ sagði Bjarni Har­alds­son, kaupmaður á Sauðár­króki, í viðtali við frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins í til­efni af því að haldið var upp á ald­araf­mæli Versl­un­ar Har­ald­ar Júlí­us­son­ar um liðna helgi. Har­ald­ur var faðir Bjarna sem hef­ur staðið vakt­ina í versl­un­inni í 60 ár.

Ég hef þekkt Bjarna alla mína ævi og veit að hann mun ráða sín­um ör­lög­um sjálf­ur. Við eig­um að gera sem flest­um kleift að „ráða hvenær ég hætti“. Í því er sam­vinna kyn­slóðanna fólg­in.

Share