Í sátt við menn og náttúruna

Sé rétt á málum haldið geta legið mikil – jafnvel stórkostleg tækifæri í fiskeldi fyrir okkur Íslendinga. Við höfum tækifæri til að byggja upp öfluga atvinnugrein af skynsemi og á grunni bestu vísindalegrar þekkingar. Eða við getum unnið óbætanleg spjöll á náttúrunni með ófyrirsjáanlegum efnahagslegum afleiðingum.

Stefnt er að því að Alþingi afgreiði á vorþingi tvö frumvörp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskeldi. Annað frumvarpið felur í sér umtalsverðar breytingar á gildandi lögum um fiskeldi, þar sem markaður er skýrari rammi um vaxandi atvinnugrein. Markmiðið er, eins og segir í greinargerð, að „styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis og með því að ýta undir að fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi“. Það á að gæta „ýtrustu varúðar við uppbyggingu fiskeldis“ og byggja ákvarðanir á ráðgjöf vísindamanna. Með síðara frumvarpinu verður tekin upp gjaldtaka af fiskeldi í sjó sem „grundvallast á þeirri aðstöðu að handhafar rekstrarleyfa til sjókvíaeldis njóta takmarkaðra réttinda til hagnýtingar auðlinda“. Gjaldið sem innheimt verður tekur mið af alþjóðlegu markaðsverði. Til að ýta undir eldi á ófrjóum laxi og eldi í lokuðum kvíum verður gjaldið helmingi lægra.

Fjórföldun á tíu árum

Í tölum Hagstofunnar kemur fram að á síðustu tíu árum hefur magn slátraðs eldisfisks nær fjórfaldast en rúmum 19 þúsund tonnum var slátrað á síðasta ári. Mest er aukningin í laxeldi. Rétt tæpum 300 tonnum var slátrað árið 2008 en 13.500 tonnum á liðnu ári. Gríðarleg aukning í framleiðslu endurspeglast í verulegri fjölgun starfsmanna. Frá 2008 til 2017 nær 2,7-faldaðist fjöldi starfsmanna fiskeldisfyrirtækja, fór úr 164 í 435 manns. Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu 19,3 milljörðum árið 2017 – tvöfalt meiru en árið 2015 og meira en sex-falt meiru en 2008. Heildarútflutningsverðmæti hefur nær sjö-faldast. Mest munar um mikinn vöxt á útflutningi á eldislaxi. Árið 2008 var verðmæti útflutnings um 500 milljónir króna en 8,8 milljarða á síðasta ári.

Öllum má því vera ljóst að hagsmunirnir sem eru í húfi við uppbyggingu fiskeldis eru miklir. Við sem viljum fara varlega og leggjum áherslu á að byggt sé á vísindalegri þekkingu, verðum að viðurkenna að möguleikarnir eru miklir, hvort heldur er í landeldi eða sjókvíaeldi. Takist vel til getur fiskeldi orðið styrkasta stoð margra sveitarfélaga til framtíðar. Okkur Íslendingum hættir hins vegar oft til að pissa í skóinn okkar – það verður hlýtt stutta stund en síðan sækir kuldinn aftur að okkur og er hálfu verri en áður.

Í sátt við náttúruna

Það er mikilvægt að þegar stutt er við uppbyggingu á fiskeldi í sjó og nýjar leikreglur mótaðar sé það gert í sátt. Að tekið sé tillit til allra hagsmuna, ekki síst náttúrunnar sjálfrar. Fiskeldi og náttúruvernd geta farið ágætlega saman en þá verða ákvarðanir um sjókvíaeldi að vera í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og bestu þekkingu á hverjum tíma. Með fyrirhuguðum breytingum á lögum um fiskeldi er hægt að leggja grunn að því að nýta tækifærin sem vissulega eru fyrir hendi án þess að fórna öðrum hagsmunum. Komið er til móts við ólík sjónarmið – annars vegar þeirra sem stunda fiskeldi og hins vegar þeirra sem standa vilja vörð um náttúruna.

Sjókvíaeldi í opnum kvíum er langt í frá áhættulaus starfsemi (jafnvel þótt litið sé fram hjá því að notaður sé kynbættur laxastofn af norskum uppruna sem er erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum). Þessu hafa aðrar þjóðir fengið að kynnast. Hugsanleg erfðablöndun getur brotið niður náttúrulega laxastofna í íslenskum ám, sjúkdómar og laxalús geta magnast með óafturkræfum, skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna. Um leið er mikilvægum stoðum kippt undan búfestu í öðrum sveitum landsins. Og enn vitum við lítið sem ekkert um hvort og hvaða áhrif sjókvíaeldi hefur á uppeldisstöðvar nytjastofna hér við land.

Nýting veiðihlunninda er mikilvæg í mörgum sveitum og er forsenda byggðafestu. Þingmenn verða að hafa þetta í huga þegar þeir móta lagaumgjörð um fiskeldi. Þeir verða að virða sjónarmið veiðiréttarhafa sem byggja afkomu sína að stórum hluta á veiðiréttartekjum. Fjárhagslegir hagsmunir bænda eru samofnir byggðafestu og lífvænlegum sveitum.

Spila ágætlega saman

Ég er ekki andstæðingur sjókvíaeldis en ég er sannfærður um að til langrar framtíðar farnist okkur best – og þá ekki síst þeim sveitarfélögum sem vilja nýta tækifæri til atvinnuuppbyggingar – að fara varlega í sakirnar. Við þurfum að stórauka rannsóknir en um leið ýta með skipulegum hætti undir nýjungar í fiskeldi og auka fjárhagslega hvata til að stunda fiskeldi á ófrjóum fisk eða í lokuðum kvíum. Það er hægt að tryggja að til verði öflug sjálfbær atvinnugrein sem hefur vernd lífríkisins að leiðarljósi. Með þeim hætti er ég sannfærður um að ágæt sátt verði um uppbyggingu fiskeldis á Íslandi.

Atvinnulífið og náttúruvernd geta spilað ágætlega saman. Ég hef ítrekað haldið því fram í ræðu og riti að náttúruvernd sé efnahagslegt mál, að það séu efnahagsleg verðmæti fólgin í því að tryggja vernd náttúrunnar. Til framtíðar er skynsamleg nýting og náttúruvernd ein forsenda þess að ferðaþjónusta blómstri. Stjórnkerfi fiskveiða er eitt merkasta framlag okkar Íslendinga til náttúruverndar og ætti að vera fyrirmynd annarra þjóða í sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Share