Er þá allt í kalda kolum?

Er þá allt í kalda kolum?

Kaupmáttur launa jókst á síðasta ári um 3,7%. Árið á undan nam vöxturinn 5% og 9,5% árið 2016. Kaupmáttur launa hefur aukist á hverju einasta ári frá 2011, alls um 36%. Fjárhagsstaða heimilanna hefur gjörbreyst á síðustu árum. Skuldir eru um 75% af vergri landsframleiðslu og hafa ekki verið lægri frá 2003. Þessi bætta skuldastaða endurspeglast í auknu eigin fé heimila sem hefur ekki verið hærra í tuttugu ár. Hagstofan bendir á að rekja megi bætta eiginfjárstöðu til aukningar ráðstöfunartekna.

Jöfnuður innan ríkja OECD er hvergi meiri en á Íslandi og við stöndum nokkuð betur að vígi en aðrar Norðurlandaþjóðir. Fátækt er hvergi minni og mun minni en í velferðarríkjum Noregs, Finnlands og Svíþjóðar.

Góður árangur

Við getum haldið áfram að líta á björtu hliðarnar:

 • Á Íslandi er launahlutfallið (% launa og launatengdra gjalda af þáttatekjum) hærra en í öllum öðrum ríkjum OECD. Hlutfallið hefur hækkað verulega á síðustu árum eða úr 56,6% árið 2011 í 64,8% árið 2017. Þannig er hlutur launa að hækka en hlutur fyrirtækja að minnka.
 • Á Íslandi eru greidd næst hæstu meðallaunin meðal ríkja OECD. Aðeins í Sviss eru launin hærri.
 • Lágmarkslaun á Íslandi eru þau þriðju hæstu í löndum OECD. Í Noregi og Danmörk eru lágmarkslaunin hærri.
 • Síðustu ár hefur vöxtur kaupmáttar á Norðurlöndunum verið mestur á Íslandi.
 • Jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Íslandi. Tíunda árið í röð er Íslandi leiðandi meðal þjóða í jafnréttismálum samkvæmt skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins (World Economic Forum).
 • Ísland hefur síðustu ár notið lengsta tímabils verðstöðugleika. Á síðustu fimm árum hefur verðbólga aldrei farið yfir 3% að meðaltali, í þrjú ár var verðbólga undir 2% og í fjögur ár undir verðbólgumarkmiðum.
 • Vextir eru í sögulegu lágmarki.
 • Ísland er fyrirmyndar hagkerfi í úttekt Alþjóða efnahagsráðsins. Aðeins Noregur er fyrir ofan okkur. Á mælikvarða „Inclusive Development Index“, sem mælir ekki aðeins hagvöxt heldur ýmsa félagslega þætti og hvernig ríkjum tekst að láta sem flesta njóta efnahagslegs ávinnings og framfara og tryggja jöfnuð milli kynslóða, er Ísland í öðru sæti fast á eftir Noregi.
 • Vöxtur kaupmáttar á Íslandi er fordæmalaus. Á fjórum árum (2014-2017) jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um liðlega 25%.
 • Sex ár í röð hefur viðskiptajöfnuður verið jákvæður.
 • Hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð í fyrsta skipti í áratugi.
 • Íslendingar hafa síðustu átta árin notið eins lengsta hagvaxtarskeiðs Íslandssögunnar.
 • Íslenska heil­brigðis­kerfið er það annað besta í heim­in­um sam­kvæmt út­tekt sem birt­ist í Lancet, einu virt­asta vís­inda­riti heims á sviði lækn­is­fræði.
 • Ísland er öruggasta og friðsamasta land heims samkvæmt „Global Peace Index“.

 

Er allt í kalda kolum? Svarið er einfalt. Nei, þvert á móti.

Efnahagslegur árangur okkar Íslendinga á síðustu árum er óumdeildur og miklu betri en nokkur gat látið sig dreyma um þegar fjármálalegar hörmungar riðu yfir landið undir lok árs 2008. Ýmislegt lagðist gegn okkur en við bárum gæfu til að standa gegn því að þjóðnýta skuldir einkabanka. Uppgjör þrotabúa viðskiptabankanna og stöðugleikaframlög til ríkisins skiptu miklu.

Að grípa gæsina

Við höfum fengið að njóta ótrúlegs uppgangs ferðaþjónustunnar á síðustu árum. Sumir halda því fram að um eins konar lottóvinning sé að ræða en með því er litið fram hjá eða gert lítið úr áralangri þrotlausri markaðssetningu og uppbyggingu ferðaþjónustunnar um allt land. Þar hafa einstaklingar og fyrirtæki lagt allt sitt undir í þeirri trú að í framtíðinni yrði hægt að uppskera eins og til var sáð.

Auðvitað hjálpaði Eyjafjallajökull. En íslenska landsliðið í knattspyrnu lagði einnig sín lóð á vogarskálarnar alveg eins og íslenskir listamenn, allt frá Björk til Of Mon­sters and Men, frá Mezzof­orte til Kal­eo, að ógleymd­um Jó­hanni heitnum Jó­hanns­syni tón­skáldi. Íslensk­ir kvik­mynda­gerðar­menn og leikarar sem gert hafa garðinn fræg­an, hafa vakið athygli á þessari litlu þjóð. Rit­höf­und­ar hafa reynst góðir sölumenn Íslands í öðrum löndum. Og þannig má lengi telja.

Það voru einstaklingar, fjölskyldur – íslenskir framtaksmenn – sem tryggðu að tækifærin voru og eru nýtt. Það er vegna þeirra sem ferðaþjónustan varð drifkraftur hagvaxtar og skapaði forsendur fyrir ótrúlegri kaupmáttaraukningu. Framtaksfólkið – konur og karlar – gripu gæsina þegar færi gafst og þess vegna hefur hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu tvöfaldast, þess vegna hefur viðskiptajöfnuður verið jákvæður síðustu ár og þess vegna hafa orðið til þúsundir nýrra starfa.

„Breiðu bökin“

Flest fyrirtæki í ferðaþjónustu eru lítil eða meðalstór. Um 86% þeirra eru með tíu eða færri starfsmenn, rúm 11% eru með 11 til 49 starfsmenn.  Um 2% fyrirtækja í ferðaþjónustu eru með 50 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Reiknað er með samdrætti í ferðaþjónustu á þessu ári og það dregur úr vexti útflutnings. Með öðrum orðum; það kreppir að. Staða flugfélaganna er viðkvæm eins og þekkt er. Samkeppnisstaðan annarra ferðaþjónustufyrirtækja hefur versnað enda kostnaður hækkað hressilega.

Það er í ljósi (eða réttara sagt í skugga) þessara staðreynda sem nokkur verkalýðsfélög telja rétt að hefja verkfallsaðgerðir gagnvart ferðaþjónustunni.  Forystumaður eins verkalýðsfélagsins segir að aðgerðir muni beinast að „breiðu bökunum í ferðaþjónustunni“. Með þessu er reynt að réttlæta að verkfallsvopninu sé beitt og gefið í skyn að aðgerðirnar komi ekki niður á öðrum en stærstu fyrirtækjunum. Ekkert er fjarri sannleikanum. Verkföll grafa undan ferðaþjónustunni, fyrst undan litlu og meðalstóru fyrirtækjunum og síðan þeim stærri. Fyrirtæki leggja upp laupana og störfum fækkar. Eins og stundum áður verður landsbyggðin harðast úti.

Réttur launafólks til að fara í verkföll og knýja á um kjarabætur er óumdeildur. Vopnið er sterkt og árangursríkt sé því  beitt af skynsemi. Hörð átök við fyrirtæki sem starfa innan atvinnugreinar sem glímir við samdrátt og verri samkeppnisstöðu, skila hins vegar engu í vasa launafólks – þvert á móti.

Sá tími virðist að baki að meginmarkmið kjarasamninga sé að viðhalda stöðugleika og tryggja aukinn kaupmátt launa. Hugmyndir um að rétti tími til að sækja fram af hörku í kjarabaráttu sé í uppsveiflu efnahagslífsins, hafa verið lagðar á hilluna. Hörkunni á að beita þegar slaki myndast á vinnumarkaði. Afleiðingin ætti að vera öllum ljós og þá kann svarið við spurningunni um köldu kolin að verða jákvætt.

 

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :