Skýrsla um samkeppnisrekstur hins opinbera

Alþingi hefur samþykkt skýrslubeiðni Óla Björns Kárasonar og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins um samkeppnisrekstur opinberra fyrirtækja og stofnana. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er falið að láta gera skýrsluna þar sem m.a. komi fram:

a.      á hvaða sviðum og mörkuðum fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum,
b.      yfirlit yfir fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga sem eru í samkeppnisrekstri,
c.      reglur og lög sem tryggja eiga fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisrekstrar og annarrar starfsemi fyrirtækja og stofnana ríkis og sveitarfélaga,
d.      fjárhagslegt umfang samkeppnisrekstrar opinberra aðila, greint annars vegar eftir sviðum og mörkuðum og hins vegar eftir fyrirtækjum og stofnunum,
e.      þróun samkeppnisrekstrar fyrirtækja og stofnana ríkis og sveitarfélaga eftir eðli og umfangi frá árinu 2008,
f.      mat á áhrifum samkeppnisrekstrar opinberra aðila á virka samkeppni og heilbrigði atvinnulífsins.  Þess er farið á leit að ráðherra flytji Alþingi umbeðna skýrslu fyrir lok maí 2019.

Í greinargerð með skýrslubeiðninni er bent á að stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga séu víða í samkeppni við einkaaðila. Oft er starfsemin samkvæmt fyrirmælum laga en dæmi eru um að engin lagaleg skylda hvíli á stofnunum og fyrirtækjum að stunda þá starfsemi sem er í samkeppni við einkaaðila. Vísbendingar eru um að opinberir aðilar og þá ekki síst opinber hlutafélög hafi á síðustu árum hert samkeppnisrekstur sinn og eru dæmi um að fyrirtæki hafi haslað sér völl í óskyldum samkeppnisrekstri.

Þegar hið opinbera keppir við einkarekstur er mikilvægt að tryggja jafnræði. Nauðsynlegt er að fylgt sé skýrum reglum og að afmörkun liggi fyrir um starfsemi opinberra aðila og umfang hennar. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að opinber samkeppnisrekstur verði niðurgreiddur með beinum eða óbeinum hætti og hafi neikvæð áhrif á samkeppni.

Á undanförnum árum hefur gagnrýni á samkeppnisrekstur opinberra aðila aukist og með rökum hefur því verið haldið fram að mörk opinbers rekstrar og einkarekstrar séu orðin óskýr. Þannig sé grafið undan einkafyrirtækjum enda séu þau illa undir það búin að keppa við opinberan rekstur. Samkeppnin verði alltaf ójöfn og nær aldrei á jafnræðisgrunni.

Umsvif opinberra aðila geta leitt til að skaðlegrar fákeppni og jafnvel einokunar. Það hefur aftur áhrif á nýsköpun og leiðir til einhæfni í framboði vöru og þjónustu þegar til lengri tíma er litið. Aðgengi nýrra aðila að markaðinum verður erfiðara. Þannig má leiða rök að því að samkeppnisrekstur opinberra aðila geti unnið gegn markmiði samkeppnislaga sem er að efla virka samkeppni í viðskiptum.

Share