Að leggja kvaðir eða bönd á fólk

Að leggja kvaðir eða bönd á fólk

Á að banna arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu? Átta þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að heilbrigðisráðherra semji „aðeins við veitendur heilbrigðisþjónustu sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni”.  Í umræðum um frumvarpið 20. september lýsti Óli Björn Kárason adnstöðu við frumvarpið og varaði við afleiðingum þess ef það næði fram að ganga:

„Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum í dag, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, er ágætt dæmi um það hvernig ég og hv. flutningsmenn getum tekið höndum saman í ríkisstjórn og unnið að góðum málum en verið algjörlega ósammála í mörgum atriðum, þar á meðal í þessu frumvarpi. Ég er nefnilega ósammála mínum kæra og góða vini, hv. þm. Brynjari Þór Níelssyni, sem gerist ekki voðalega oft þótt það gerist, þegar hann segir að þetta frumvarp muni ekki hafa mikil áhrif nái það fram að ganga. Það skiptir ekki bara máli hvaða lög við setjum heldur hvaða skilaboð við sendum. Skilaboðin í frumvarpinu til þeirra sem starfa innan heilbrigðisgeirans, sem veita okkur nauðsynlega þjónustu og gera það á eigin vegum, eru í einkarekstri, eru þau að við ætlum að þrengja að þeim og það sé frekar óæskilegt að menn stundi mikinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

Ég þekki engan sem vill ekki öflugt sameiginlegt heilbrigðiskerfi. En ég á erfitt með að trúa því að til sé nokkur Íslendingur sem tali fyrir því að sóum sameiginlegum fjármunum okkar. Við erum í því verkefni að reyna að verja sameiginlegum fjármunum okkar, sem eru takmarkaðir, skynsamlega og fá eins mikið fyrir þá og mögulegt er. Það gerum við ekki með því að leggja bönd á einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og gera tortryggilegt að menn eftir áralanga baráttu við að byggja upp fyrirtæki geti greitt sér út smávægilegan arð þegar þar að kemur. Við eigum að byggja upp heilbrigðiskerfið með því að ná að nýta kosti þess að vera með ríkisrekstur þar sem það hentar en nýta okkur kosti og dugnað einkaframtaksins þar sem það hentar.

Það er alveg ljóst að einkaaðilar gegna alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki í þjónustu sem við erum sammála um að ríkið eigi að tryggja að sé veitt, þjónustu sem við erum líka sammála um að eigi að vera aðgengileg fyrir alla óháð efnahag. Þetta veit ég að 1. flutningsmaður, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, er mér sammála um.

Þess vegna eigum við fremur að vera að ræða hvernig við getum eflt heilbrigðisþjónustuna og nýtt betur og skynsamlegar kosti einkaframtaksins heldur en að vera að leggja kvaðir eða bönd á fólk, á einstaklinga sem hafa valið að gera heilbrigðisþjónustu, hvort sem það eru læknar eða hjúkrunarfræðingar eða sjúkranuddarar, að ævistarfi sínu en vill og gerir þá kröfu að hafa raunverulegt val um hvaða starfsvettvang það velur sér, hvort það vill vera á eigin vegum eða vinna innan vébanda stofnana sem rekin er beint af ríkinu.

Ég óttast að nái þetta frumvarp fram að ganga muni það gerast sem ég veit að flutningsmenn eru að berjast gegn, að hér verði til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Ef við bönnum að fyrirtæki sem veita þjónustu á sviði heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum við ríkið greiði eigendum sínum út arð eftir að hafa verið skattlögð, sem tekjuskattur tekinn af hagnaði og líka skattur af arðinum, þá munu þau fyrirtæki, sem eru okkur svo mikilvæg, ekki sjá neina ástæðu til að starfa innan þess kerfis sem við höfum reynt að byggja upp og munu ekki vilja taka þátt í t.d. rammasamningum eða öðrum þjónustusamningum á vegum ríkisins. Þannig verður til tvöfalt kerfið. Þannig verður til jarðvegur fyrir það sem við höfum ekki viljað sjá mikið af, sem eru einkareknar tryggingar í heilbrigðisþjónustu. Þá verða til öflug fyrirtæki þar sem einstaklingar sem hafa efni á því kaupa sér tryggingar og njóta þeirrar þjónustu sem þar er fyrir utan hinn hefðbundna ríkisrekstur og þurfa ekki að bíða eftir þjónustunni eins og við hin. Það er þetta sem mun gerast.

Svo skiptir máli að það hlýtur að þurfa sterk rök fyrir því að hefta atvinnufrelsi ákveðinna starfsgreina, í þessu tilfelli þeirra sem sinna heilbrigðisþjónustu, á þann hátt sem frumvarpið gerir. Þannig væri t.d. lækni sem byggir á samningi við ríkið og þjónustar sjúklinga sína samkvæmt þeim samningi ekki heimilt að greiða sér arð, en húseigandinn sem leigir honum aðstöðuna hefur fullt frelsi, jafnvel þótt það sé einn og sami maðurinn eða aðilinn.

Ég er sannfærður um, og ég hygg að flutningsmenn séu sammála mér, að þegar við horfum fram á veginn sé ein stærsta áskorun sem blasir við í íslensku heilbrigðiskerfi að tryggja hæfileikaríkt starfsfólk komi til starfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins, að unga fólkið sem leggur á sig að sækja sér sérstaka sérmenntun til annarra landa sjái ástæðu til að koma aftur heim, miðla af þekkingu sinni og þjónusta okkur sem þurfum á þjónustunni að halda.

Eitt af því sem mun örugglega ráða er að þetta fólk hafi raunverulegt valfrelsi um það hvernig það haslar sér völl í íslenskri heilbrigðisþjónustu, að það sé ekki dæmt til þess hreinlega samkvæmt ákvörðun Alþingis að vinna eingöngu innan ríkisrekstrarformsins, að það hafi raunverulega möguleika á því að leggja á sig að stofna eigið fyrirtæki, byggja það upp. Launin verða kannski lægri á fyrstu árunum, eins og algengt er þegar menn taka ákvörðun um að hefja eigin rekstur, en að það hafi möguleika á því að njóta síðan ávaxtanna þegar uppbyggingu er lokið.

Það eru einmitt slík tækifæri sem við þurfum að passa að verði til og séu til. Við megum ekki gera neitt sem hamlar því að eftirsóknarvert þyki að snúa til Íslands og taka þátt í því að gera íslenskt heilbrigðiskerfi öflugra, enn öflugra en það er í dag.

Ég hef áhyggjur af samkeppnisstöðu okkar nái frumvarpið fram að ganga, samkeppnisstöðu okkar við að laða að heilbrigðisstarfsfólk miðað við önnur lönd. Þegar við innleiðum einhverjar þær takmarkanir á einstaklinga sem ekki eru í samkeppnislöndum okkar, þá gerum við samkeppnisstöðu okkar lakari. Því miður mun þetta frumvarp verða til þess.

Það er ekkert athugavert við að einstaklingar sem bjóða upp á góða þjónustu og uppfylla allar þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt samningi undir eftirliti landlæknis fái að njóta þess ef þeim tekst svo vel til að hafa kostnaðinn lægri en t.d. gengur og gerist í beinum ríkisrekstri. Það ætti hreinlega að vera sérstakt fagnaðarefni fyrir okkur ef slíkt er hægt. Það á ekki að gera það tortryggilegt ef slíkir einstaklingar, sem skila góðri þjónustu, standa við alla gerða samninga en gera það á ódýrari hátt en ætla mætti, greiða sér einhvern smá arð. Ég held að það sé jákvætt. Ég myndi fagna því fyrstur manna.

Virðulegur forseti. Ég fagna því hins vegar að frumvarp af þessu tagi sé til umræðu. Mér finnst það gott og dæmi um að við erum ekki sammála í einu og öllu. Stundum er erfitt fyrir mig að skilja af hverju sumir hv. þingmenn eru ekki sammála mér, hæstv. forseti, en það er eins og gengur og gerist. Ég er á því að betra sé að taka umræðuna, skiptast á skoðunum og rökræða um kosti og galla, en ég er eindreginn andstæðingur frumvarpsins og vara við samþykkt þess. Það mun leiða til annars en flutningsmenn ætla sér, það mun verða til tvöfalt heilbrigðiskerfi sem ég veit að ég og hv. flutningsmenn viljum ekki að gerist í framtíðinni.”

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :