138 milljarða sparnaður vegna lægri skulda

Ræða við 1. umræðu um fjárlagafrumvarp 2019. – 13. september 2018

Herra forseti. Mér finnst við hæfi að taka þátt í umræðum hér, 1. umr. fyrirliggjandi frumvarps til fjárlaga 2019. Það er rétt ár síðan ég stóð hér í ræðustól og hélt ræðu um fjárlagafrumvarp þeirrar ríkisstjórnar sem þá var. Ég hafði ákveðnar efasemdir um það fjárlagafrumvarp, sérstaklega tekjuhliðina, gagnrýndi hana. Lýsti því yfir að ég ætti erfitt eða gæti ekki stutt þau áform sem þar voru kynnt. En ekki grunaði mig að nokkrum klukkustundum síðar yrði sú ríkisstjórn öll, ekki út af þeirri ræðu, heldur á einhverjum fámennum fundi einhvers staðar úti í bæ. (Gripið fram í: Enga hógværð.) En svona er nú þetta. Ég skal lofa ykkur því að þessi ræða mun ekki valda neinum skjálftum. Og þó.

Ef maður á að lýsa þróun ríkisfjármála á undanförnum árum þá er auðvitað ekki hægt að lýsa því með betra orði heldur en útgjaldaþenslu. Maður gæti þó haldið annað þegar maður situr undir ræðum manna sem kalla hér á stöðugt aukin útgjöld, útgjöld á útgjöld ofan, eins og það sé alveg sérstakt markmið í sjálfu sér og þá sé einhver sérstakur mælikvarði á það hversu vel við stöndum okkur í þessum sal hvað okkur tekst að auka útgjöld ríkisins mikið. Það er aldrei minnst einu orði á það hvaða gæði eða hvaða þjónusta fylgir þessum auknu útgjöldum. Þeir sem hæst tala og hæst kalla eftir að hækka útgjöld hafa minnstar áhyggjur af því hvernig fjármunum almennings er varið, vegna þess að þetta eru fjármunir almennings sem við erum að fjalla um, launafólks, fyrirtækja, og hvort þeim er varið af skynsemi.

Það er alveg ljóst að fyrirliggjandi frumvarp sem við fjöllum um og tökum til við, gerum hugsanlega einhverjar breytingar á ef við teljum ástæðu til, er frumvarp sem boðar töluvert mikla aukningu útgjalda enn eitt árið, 55 milljarða. Það hefði nú þótt frétt til næsta bæjar ofan á liðlega 50 milljarða útgjaldaaukningu á þessu ári. Það er töluvert afrek að geta staðið þannig að verki að hægt sé að auka útgjöld til ýmissa málaflokka og reka ríkissjóð réttu megin við strikið. Og ekki nóg með það, heldur búa í haginn fyrir framtíðina með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum.

Við getum deilt um ýmislegt hér í þessum sal þegar kemur að fjárreiðum ríkisins. Við getum deilt um hvort eigi að setja meira eða minna í ákveðna málaflokka í ákveðin mál. Og við getum deilt um það hvort það eigi að hækka eða lækka skatta, setja þessi gjöld eða hin, hvort það eigi að íþyngja launafólki eða létta aðeins í vasa þeirra. Við getum deilt um þetta allt saman. En við getum hins vegar ekki deilt um eitt að það er búið að nást alveg stórkostlegur árangur þegar kemur að því að búa í haginn fyrir framtíðina. Alveg ótrúlegur árangur og ég, hæstv. forseti, ætla að segja lygilegur árangur.

Í lok komandi árs verða skuldir ríkisins, ríkissjóðs, 670 milljörðum lægri en þau voru þegar skuldirnar voru hæstar árið 2012. Miðað við þá fjármálaáætlun sem við samþykktum í vor þá verða skuldirnar 790 milljörðum lægri árið 2023 í lok þeirrar áætlunar heldur en þegar þær voru hæstar. Þetta eru u.þ.b. 9 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Nýtt ár markar því ákveðið upphaf að nýjum tímum. Við höfum náð að greiða niður þær skuldir, þær byrðar sem við tókum á okkur, ríkissjóður tók á sig vegna falls fjármálakerfisins, en við höfum fengið að njóta þess líka á undanförnum árum. Við höfum notið þess í formi lægri vaxta og meiri möguleika ríkisins annars vegar við að auka útgjöld til þeirra mála sem við viljum að staðið sé að og líka til að létta aðeins álögur á fyrirtæki og einstaklinga sem virðist vera eitur í beinum sumra þingmanna hér.

Bara til að setja hlutina í samhengi er að ef við hefðum frá árinu 2013 þurft að greiða sömu fjárhæð í vexti og fjármagnskostnað, þ.e. heildarfjármagnskostnað hjá ríkinu eins og við gerðum þegar hann var hæstur árið 2012, þá hefðum við þurft að greiða 138 milljörðum kr. meira í vexti en við höfum gert. Þá tel ég komandi ár miðað við fjárlagafrumvarpið með. 138 milljarða kr. sparnaður hefur náðst vegna þess hvernig haldið hefur verið á ríkisfjármálum á undanförnum árum. Menn ættu að ræða það aðeins hvers konar gríðarlegur árangur þetta er og hversu miklu það skiptir fyrir okkur þegar litið er til langrar framtíðar hvernig haldið hefur verið á málum hér frá 2013 þegar hv. fjármálaráðherra settist fyrst í stól fjármálaráðherra.

Þessi sparnaður, 138 milljarðar, jafngildir rúmlega þriggja ára framlögum sem við ætlum í samgöngumál, milljörðum sem við höfum náð að spara vegna þess að við höfum haldið skynsamlega á verki.

Ég hef hins vegar ítrekað hér á fyrra þingi og lýst yfir áhyggjum á því að við séum á ystu nöf þegar kemur að aukningu útgjalda. Ég hef áhyggjur af því að við séum að ganga of langt. En um leið viðurkenni ég að við þurfum að gera betur á ýmsum sviðum. Þar hef ég sérstaklega verið talsmaður þess að við stokkum upp almannatryggingakerfið þegar kemur að öryrkjum. En við verðum hins vegar að hafa líka á hreinu hvað við höfum þó gert þó að menn tali hér eins og hér sé blæðandi niðurskurður stundum.

Heilbrigðisútgjöld á föstu verðlagi hafa aukist úr 153 milljörðum í 209 milljarða á þessu ári, og fara í 249 milljarða árið 2023 miðað við þá fjármálaáætlun sem við samþykktum. Á einum áratug erum við auka útgjöld til heilbrigðismála, vegna þess að við erum sammála um að gera það, um 100 milljarða. Þetta er 63% aukning. Útgjöld til heilbrigðismála verða árið 2023 samkvæmt ákvörðun sem við tókum í vor 100 milljörðum hærri en þau voru 2013, 63% raunaukning.

Sama má segja um framlög þegar kemur til málefna aldraðra og öryrkja. Ég skal viðurkenna að þar er ýmislegt óunnið, en það hefur þó verið þannig að aukningin er 77 milljarðar að raunvirði. Ef við miðum við þetta ár þá eru það 53 milljarðar.

Á sama tíma hofum við fram á það að tekjuauki ríkisins samkvæmt fjármálaáætluninni, þ.e. tekjur ríkissjóðs aukist um 230 milljarða fram til ársins 2023, þar af skatttekjur um 223 milljarða. (Forseti hringir.) Svo krefjast menn þess hér að skattheimta verði aukin. Vandi ríkissjóðs liggur ekki í tekjum. (Forseti hringir.) Hann er auðvitað á útgjaldahliðinni, herra forseti.

Share