Lækkun erfðafjárskatts

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að erfðafjárskattur verði lækkaður með því að innleiða nýtt lægra 5%-þrep. Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður. Markmið er að við greiðslu á erfðafjárskatti verði tekið tillit til þess hvert er verðmæti eigna dánarbús.

Í fyrsta lagi er lagt til að erfðafjárskatturinn verði þrepaskiptur, annars vegar 5% af fyrstu 75 milljón króna af skattstofni dánarbús og hins vegar 10% af skattstofni dánarbús yfir 75 milljónum. Í öðru lagi er lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepa taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs.

Erfðafjárskattur er dæmi um skattlagningu við yfirfærslu eigna milli aðila. Önnur dæmi um slíka skattlagningu eru þinglýsingargjöld og stimpilgjöld. Þessi tegund skatta felur það í sér að skattskylda skapast við aðilaskipti að eignarréttindum, en þá er um að ræða tekju- eða eignaaukningu hjá móttakanda, þ.e. erfingja í tilviki erfðafjárskattsins.
Í greinargerð segir að við álagningu erfðafjárskatts sé nauðsynlegt að hafa í huga að um er að ræða skatt á tilfærslu fjármagns og verðmæta á milli kynslóða. Verðmætin sem mynda skattstofn erfðafjárskattsins hafa verið skattlögð áður, m.a. í formi tekjuskatta, fjármagnstekjuskatta og eignarskatta. Vegna þessa felur erfðafjárskattur í sér tvísköttun.

Með lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, var ákveðið að erfðafjárskattur skyldi vera 5% óháð skyldleika við arfleifanda að öðru leyti en því að maki eða sambúðarmaki er undanþeginn skattinum. Skatturinn var hins vegar hækkaður í 10% með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 164/2010. Hækkunin var hluti af umfangsmiklum aðgerðum til að afla ríkissjóði viðbótartekna í ljósi sérstakra og erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum. Frá þeim tíma hefur erfðafjárskattur verið óbreyttur 10%, þrátt fyrir að hagur ríkissjóðs hafi vænkast verulega samhliða gjörbreyttu efnahagsástandi.

Sjá frumvarpið hér.

Share