Kynslóðaskipti gerð auðveldari

Haraldur Benediktsson hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt en tilgangurinn er að kynslóðaskipti í íslensku atvinnulífi. Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir standa einnig að frumvarpinu.

Nái frumvarpið fram að ganga verður heimilt að dreifa skattskyldum söluhagnaði þar sem hluti söluandvirðis er greiddur með skuldaviðurkenningu á allt að 20 ár, eftir afborgunartíma skuldaviðurkenninga. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er nú heimilt að dreifa söluhagnaði á allt að sjö ár við þessar aðstæður.

Kynslóðaskipti á fyrirtækjum og bújörðum í rekstri reynast tíðum erfið og margs þarf að gæta við yfirfærslu verðmætanna, til að mynda réttinda annarra erfingja en þeirra sem við þeim taka. Algengt er að stofnandi fjölskyldufyrirtækis vilji selja einhverjum í fjölskyldunni fyrirtæki sitt eftir langan rekstur. Oftar en ekki er viðkomandi reiðubúinn til að aðstoða við fjármögnun kaupanna, t.d. með því að taka við greiðslu, að hluta eða öllu leyti, í formi skuldaviðurkenningar. Slík fjármögnun er oft forsenda þess að sá er tekur við rekstrinum hafi til þess bolmagn. Um leið eru réttindi annarra erfingja tryggð enda viðkomandi eign seld á sanngjörnu markaðsverði en ekki undirverði líkt og oft vill verða til að tryggja kynslóðaskiptin. Erfingjar standa því betur að vígi og einnig ríkissjóður. Með útgáfu skuldaviðurkenningar frá kaupanda eignast seljandi í raun ígildi eftirlaunasjóðs sem tryggir honum tekjur. Andist viðkomandi áður en greiðslum lýkur er eftirstöðvum skuldabréfsins skipt upp á milli erfingja í samræmi við lög og erfðaskrá ef við á.

Sjá frumvarpið hér.

Share