Þetta snýst allt um samkeppnishæfni

Ein frum­skylda stjórn­valda á hverj­um tíma er að verja sam­keppn­is­hæfni lands­ins. Tryggja að ís­lensk fyr­ir­tæki og launa­fólk verði ekki und­ir í harðri alþjóðlegri sam­keppni. Það er þess vegna sem ég hef hamrað aft­ur og aft­ur á mik­il­vægi þess að allt reglu­verk sam­fé­lags­ins sé ein­falt, gegn­sætt og sann­gjarnt. Þess vegna hef ég ít­rekað bent á nauðsyn þess að þegar tekn­ar eru ákv­arðanir um skatta og gjöld sé hugað að sam­keppn­is­hæfni lands­ins. Og þess vegna hef ég lagt áherslu á að allt skipu­lag – allt frá heil­brigðis­kerf­inu, til raf­orku­kerf­is­ins, frá land­búnaði til sjáv­ar­út­vegs, frá skipu­lagi pen­inga­mála til mennta­kerf­is­ins – geti annaðhvort gefið okk­ur for­skot eða dregið úr sam­keppn­is­hæfni lands og þjóðar.

Um það verður vart deilt að sam­keppn­is­staða ís­lensks at­vinnu­lífs hef­ur orðið lak­ari á und­an­förn­um miss­er­um. Um leið og ís­lensk­ur al­menn­ing­ur hef­ur notið sterkr­ar stöðu krón­unn­ar hef­ur staða fyr­ir­tækja í alþjóðlegri sam­keppni versnað. Á sama tíma hef­ur launa­kostnaður hækkað veru­lega. En miklu fleiri þætt­ir hafa áhrif á sam­keppn­is­stöðuna en launa­kostnaður eða gengi krón­unn­ar.

Um­hverfi sem ís­lensk fyr­ir­tæki og ís­lensk heim­ili búa við þegar kem­ur að vöxt­um veg­ur þar þungt. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur seg­ir að rík­is­stjórn­in ætli að vinna að „frek­ari skil­virkni í fjár­mála­kerf­inu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neyt­enda“. Á veg­um stjórn­valda hef­ur verið unnið að sér­stakri Hvít­bók um framtíðar­sýn fyr­ir fjár­mála­kerfið á Íslandi og verður hún lögð fyr­ir Alþingi til um­fjöll­un­ar áður en stefnu­mark­andi ákv­arðanir verða tekn­ar um fjár­mála­kerfið. Jafn­framt hef­ur verið unnið að end­ur­skoðun pen­inga­stefn­unn­ar og þess reglu­verks sem gild­ir um Seðlabank­ann. Ég hef verið talsmaður þess að með nýj­um lög­um um Seðlabank­ann verði bank­an­um gert skylt að taka mið af því við vaxta­ákv­arðanir að vaxtamun­ur milli Íslands og helstu sam­keppn­islanda sé ekki óeðli­lega hár. Með öðrum orðum: Seðlabank­inn á ekki aðeins að horfa til verðbólgu­mark­miða og geng­is­stöðug­leika.

Vaxtamun­ur milli Íslands og helstu viðskiptalanda hef­ur í lang­an tíma verið óeðli­lega mik­ill og hann dreg­ur úr sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra fyr­ir­tækja og legg­ur byrðar á heim­il­in.

Hóf­semd eða „getu­leysi“

Ekki má gleyma um­hverf­inu sem ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um er búið þegar kem­ur að skatt­kerf­inu. Sam­keppn­is­hæfni ræðst ekki síst af þeim ákvörðunum sem Alþingi tek­ur um álagn­ingu skatta og gjalda.

Þegar gengið er til þeirra verka, á næstu vik­um, að smíða um­gjörð um inn­heimtu veiðigjalda – álagn­ingu auðlinda­gjalda á sjáv­ar­út­veg – verður að hafa það að leiðarljósi að skerða ekki sam­keppn­is­hæfni sjáv­ar­út­vegs­ins sem er í harðri sam­keppni við rík­is­styrkt­an sjáv­ar­út­veg um all­an heim. Og það er vegna þessa sem við get­um aldrei leyft okk­ur að leggja hærri virðis­auka­skatt á ferðaþjón­ustu hér á landi en í helstu sam­keppn­islönd­um okk­ar.

Hækk­un skatta á ein­stak­linga skerðir einnig sam­keppn­is­stöðu Íslands, ekki síst gagn­vart þeim sem hafa alþjóðlega mennt­un; heil­brigðis­starfs­fólki, verk­fræðing­um, iðnaðarmönn­um og þannig má lengi telja. Það er ekki eft­ir­sókn­ar­vert fyr­ir vel menntaða sér­fræðilækna að flytja heim til Íslands í óvin­veitt skattaum­hverfi. Ekki frek­ar en fyr­ir hjúkr­un­ar­fræðinga sem eru eft­ir­sótt­ir um all­an heim. Öflugt heil­brigðis­kerfi verður ekki byggt upp án þess­ara starfs­stétta. Fjár­fest­ing í innviðum krefst verk­fræðinga, tækni- og iðnaðarmanna. Vinnu­afl er orðið óháð landa­mær­um.

Því miður er skiln­ing­ur á nauðsyn þess að gæta hóf­semd­ar í álög­um á fyr­ir­tæki og ein­stak­linga tak­markaður. Við sem vilj­um koma bönd­um á skattagleði hins op­in­bera erum sakaðir um „getu­leysi“ til að afla tekna. Hinir skattaglöðu setj­ast niður og reikna „nettó­eft­ir­gjöf tekna“ vegna þess að skatt­ar eru ekki háir og þeir vilja og brigsla öðrum um að „af­sala“ rík­is­sjóði tekj­um með því að hækka ekki skatta eða aðrar álög­ur.

Orka, sam­keppn­is­hæfni og nátt­úru­vernd

Ísland er ey­land, langt frá öðrum mörkuðum. Flutn­ings­kostnaður og annað óhagræði sem fylg­ir fjar­lægðinni ger­ir það að verk­um að sam­keppn­is­hæfni lands­ins er lak­ari en ella. Þetta á jafnt við um út­flutn­ing sem inn­flutn­ing. En það er líka margt sem spil­ar með okk­ur – við höf­um for­skot í ýmsu á aðrar þjóðir. Aðgang­ur að hreinni og hlut­falls­lega ódýrri orku eyk­ur sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins og styrk­ir ímynd lands­ins sem perlu nátt­úru og hrein­leika. Ein dýr­mæt­asta auðlind okk­ar Íslend­inga er hrein orka.

Skipu­lag raf­orku­mála er spurn­ing um sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs og þar með lífs­kjara al­menn­ings. Þess vegna get­um við aldrei gengið fram með þeim hætti að við af­söl­um okk­ur full­um yf­ir­ráðum yfir orku­auðlind­um – fall­vötn­un­um og jarðvarma. Þegar Alþingi tek­ur til umræðu hvort rétt sé að aflétta stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara vegna þriðju orku­til­skip­un­ar­inn­ar – viðauka við EES-samn­ing­inn – vega þess­ir þætt­ir þyngst í mín­um huga.

Yf­ir­ráð yfir skipu­lagi auðlinda sem tryggja okk­ur hreina orku skipta ekki síður máli þegar við tök­umst á við áskor­an­ir í lofts­lags­mál­um og nátt­úru­vernd. Það vill oft gleym­ast að nátt­úru­vernd get­ur verið ágæt­lega arðbær og skyn­sam­leg frá sjón­ar­hóli hag­fræðinn­ar. Eitt besta dæmið um samþætt­ingu nátt­úru­vernd­ar og arðbærr­ar nýt­ing­ar nátt­úru­auðlind­ar er fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið. Hreint vatn og heil­næm mat­væli verða aldrei að fullu met­in til fjár.

Metnaðarfull aðgerðaáætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar í lofts­lags­mál­um, sem kynnt var síðastliðinn mánu­dag, væri ófram­kvæm­an­leg ef við hefðum ekki aðgang að orku­auðlind­um okk­ar og fulla sjálf­stjórn um nýt­ingu þeirra.

Sam­keppn­is­hæfni um starfs­fólk

Líkt og á flest­um sviðum er skipu­lag heil­brigðisþjón­ust­unn­ar ekki aðeins spurn­ing um hvort okk­ur tekst að upp­fylla lof­orð um að tryggja öll­um nauðsyn­lega þjón­ustu óháð efna­hag, held­ur ekki síður spurn­ing um sam­keppn­is­hæfni lands­ins um sér­menntað vinnu­afl.

Fá­breytni í rekstr­ar­formi inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins leiðir ekki aðeins til lak­ari og dýr­ari þjón­ustu held­ur dreg­ur hún úr sam­keppn­is­hæfni Íslands – ekki síst í að laða til lands­ins að nýju hæfi­leika­ríkt starfs­fólk, sem hef­ur sótt aukna mennt­un og þekk­ingu til annarra landa.

Það er ekki hlut­verk mitt og get­ur ekki verið hlut­verk annarra þing­manna að leggja steina í göt­ur einkafram­taks­ins. Verk­efnið er miklu frem­ur að fjölga val­mögu­leik­um al­menn­ings og stuðla að hag­kvæmri nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna um leið og öll­um er tryggð ör­ugg og góð heil­brigðisþjón­usta. Hið sama á við í mennta­kerf­inu.

Allt sem hér er sagt skipt­ir hins veg­ar litlu ef opið aðgengi að er­lend­um mörkuðum er ekki tryggt, sam­hliða eðli­leg­um og sann­gjörn­um aðgangi er­lendra aðila að ís­lensk­um markaði. EES-samn­ing­ur­inn, með öll­um sín­um kost­um og göll­um, hef­ur tryggt Íslandi ör­ugg­an og nauðsyn­leg­an aðgang að mik­il­væg­um mörkuðum. Gagn­kvæm­ir fríversl­un­ar­samn­ing­ar við önn­ur ríki hafa reynst okk­ur vel og byggt und­ir bætt lífs­kjör.

Íslensk stjórn­völd, fyr­ir­tæki og al­menn­ing­ur þurfa að vera vak­andi við að gæta hags­muna þjóðar­inn­ar með ná­inni sam­vinnu við aðrar þjóðir. Mark­miðið er að fjölga val­kost­um þjóðar en ekki fækka þeim.

Share