Sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gerir góðlátlegt grín að Samfylkingunni í Morgunblaðsgrein á laugardag, um leið og hann setur fram harða gagnrýni á það hvernig stjórnmál eru að þróast. Til sé að vera sjálfsmyndarstjórnmál, sem virði að vettugi staðreyndir og leiði til takmörkunar á tjáningarfrelsi.

Sigmundur rifjar upp að fyrr í sumar hafi hann verið í útvarpsviðtali ásamt þingmanni Samfylkingarinnar. Tilefnið var uppákoma sem varð á Þingvöllum þegar hátíðarfundur Alþingis var haldinn í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins:

„Þingmanni Samfylkingarinnar þótti hann hafa farið illa út úr samtali okkar um málið í útvarpsþætti og brást við á fyrirsjáanlegan hátt.  Ekki með því að skýra málið betur heldur með skrifum sem snerust eingöngu um persónuníð um manninn sem hafði leyft sér að vera ósammála. Slíkt er lýsandi fyrir stjórnmálamenn og flokka sem aðhyllast svokallaðan póstmódernisma í stjórnmálum. Stefnu sem gengur út frá því að allt sé afstætt og staðreyndir séu ekki til. Fyrir vikið hafna póstmódernistarnir skynsemishyggju eða leitinni að hinni rökréttu niðurstöðu.“

Og Sigmundur Davíð skrifar áfram:

„Í staðinn kemur það sem ég hef kallað stimpilstjórnmál og hefur nú verið þýtt á íslensku sem sjálfsmyndarstjórnmál (e. identity politics). Slík stjórnmál ganga út á að skilgreina alla fyrst og fremst sem hluta af tilteknum hópum fremur en sem einstaklinga. Réttur manna er svo mismikill eftir því hvaða hópum þeir tilheyra.

Slíkum viðskilnaði við raunveruleikann fylgja óhjákvæmilega verulegar takmarkanir á tjáningarfrelsi og sú hugmynd að nauðsynlegt sé að þagga niður í þeim sem ekki tilheyra réttum hópi eða jafnvel útskúfa þá.

Eins og í allri öfgapólitík, sama hvaða nöfnum hún nefnist, myndast svo tilhneiging til að þrengja mörk hins leyfilega og leita sífellt nýrra hluta til að fordæma og fleiri fórnarlamba. Hinir áköfustu leggja sig alla fram við að sýna að þeir séu sannir í trúnni, haldi sig innan markanna og vilji helst þrengja þau. Þ.e. séu betri en aðrir.“

Í lok greinarinnar segir Sigmundur Davíð að mikilvægt sé „að stjórnmál fari aftur að snúast um staðreyndir og lausnir. Það er besta leiðin til að bæta samfélögin og besta leiðin til að hjálpa fólki í neyð. Sjálfsmyndarstjórnmál snúast ekki um neitt nema sjálfsmynd þeirra sem þau stunda.“

Share