415 milljóna braggi

Þeir eru fáir sem skilja hvernig hægt er að endurbyggja gamlan bragga og eyða 415 milljónum króna af fé almennings í ævintýrið. En svona er farið með fjármuni Reykvíkinga.

Hrafnar Óðins – Huginn og Muninn – gera þetta að umtalsefni í dálki sínum í Viðskiptablaðinu. Þar er bent á að endurbæturnar á bragga við Nauthólsvík, sem nýtur verndar í deiliskipulagi borgarinnar, hafi átt að kosta 158 milljónir króna. Framúrkeyrslan er því 2,6-sinnum áætlun. Og hrafnarnir skrifa:

„Einhvers staðar í ferlinu öllu jókst kostnaðurinn því um litlar 257 milljónir og þegar reikningurinn hækkaði og hækkaði lagði borgarráð bara blessun sína yfir það. Hvernig getur svona lagað gerst? Innkauparáð borgarinnar er víst að skoða það og bíða hrafnarnir spenntir eftir niðurstöðunni enda líklega dýrasti braggi í heimi.“

Tveimur dögum eftir að fréttir bárust af þessari umframkeyrslu var Dagur B. Eggertsson í viðtali á Rás 1. Hrafnarnir benda á að þá hafi tekist gott tækifæri til að óska eftir skýringum borgarstjórna hvað hafi farið úrskeiðis. En það var ekki gert – ekki einu orði:

„Borgarstjórinn lofsamaði aftur á móti húsnæðisuppbygginguna í borginni, sem kemur svona þremur árum of seint og notaði tækifærið til að gagnrýna minnihlutann. Þá hafnaði hann í beinni útsendingu tillögu Miðflokksins um að gerð yrði óháð úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur. Þetta er „hofmóður“ sem hrafnarnir kunna ekki við.“

 

Share