Úr hlekkjum hugarfarsins

Allt dag­legt líf okk­ar er markað af hinu op­in­bera – ríki og sveit­ar­fé­lög­um. Við keyr­um öll um göt­ur og vegi sem lagðir hafa verið fyr­ir al­manna­fé, losn­um við skólp í gegn­um sam­eig­in­leg hol­ræsi, fáum vatn og raf­magn frá op­in­ber­um aðilum. Flest­ir koma í þenn­an heim á fæðing­ar­deild­um sjúkra­húsa og ganga mennta­veg­inn á kostnað sam­fé­lags­ins. Stór hluti þjóðar­inn­ar er í vinnu hjá hinu op­in­bera, þúsund­ir vinna við að þjón­usta op­in­bera aðila og aðrir eiga mikið und­ir rík­inu komið, allt frá verk­tak­an­um sem tek­ur að sér vega­gerð, til heild­sal­ans sem sel­ur rík­is­fyr­ir­tæki skrif­stofu­vör­ur, frá bak­ar­an­um sem trygg­ir að starfs­menn op­in­berra stofn­ana fái brauð, til tón­list­ar­manns­ins sem held­ur tón­leika fyr­ir troðfullu húsi, sem byggt var fyr­ir reikn­ing skatt­greiðenda.

Marg­ir búa í hús­næði í eigu hins op­in­bera eða hafa náð að eign­ast íbúð í skjóli niður­greiddra vaxta eða beinna styrkja í gegn­um skatt­kerfið. Öðrum er gert ókleift að eign­ast íbúð. Skort­stefna stærsta sveit­ar­fé­lags­ins keyr­ir upp fast­eigna­verð sem smit­ast út í allt efna­hags­lífið. Ríkið er leiðandi í verðmynd­un á ýms­um vör­um og þjón­ustu eða brengl­ar sam­keppni með ýms­um regl­um og af­skipt­um, boðum og bönn­um. Með marg­vís­leg­um hætti – stund­um lævís­um – er reynt að hafa áhrif á hegðun al­menn­ings.

Öll njót­um við aðstoðar hins op­in­bera; þegar veik­indi steðja að, at­vinnu­leysi, slys, fá­tækt, ör­orka eða þegar farið er á eft­ir­laun. Við greiðum skatta, ef ekki af tekj­um þá óbeint þegar keypt er í mat­inn, bens­ín sett á bíl­inn eða keypt stíla­bók fyr­ir börn­in í grunn­skóla.

Rík­i­s­væðing ná­ungakær­leik­ans

Óhætt er að full­yrða að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti okk­ar Íslend­inga lít­ur svo á að í gildi sé sátt­máli. Við erum sam­mála um að standa sam­eig­in­lega að öfl­ugu heil­brigðis­kerfi þar sem all­ir fá nauðsyn­lega þjón­ustu án til­lits til efna­hags eða bú­setu. Við höf­um heitið því að aðstoða þá sem minna mega sín til sjálfs­hjálp­ar og stuðla að mann­legri reisn okk­ar allra. Og við vilj­um tryggja jafn­ræði borg­ar­anna.

Í grá­myglu hvers­dags­ins leiða hins veg­ar fæst­ir hug­ann að hlut­verki og skyld­um rík­is­ins eða sveit­ar­fé­lags­ins. Við göng­um út frá því sem vísu að allt liggi skýrt fyr­ir og staðinn sé vörður um sátt­mál­ann. Af og til verðum við pirruð vegna frétta um að vafa­sama ráðstöf­un op­in­berra fjár­muna en erum yf­ir­leitt fljót að kom­ast yfir erg­elsið.

Þegar stjórn­mála­menn með stuðningi og oft­ar ekki eft­ir ráðlegg­ing­um emb­ætt­is­manna og sér­fræðinga ákveða að auka út­gjöld, er lík­legra en ekki að við fögn­um, ekki síst ef fjár­mun­irn­ir eru eyrna­merkt­ir til mennta­mála, heil­brigðismála eða annarra vel­ferðar­mála. Fæst­ir velta því fyr­ir sér hvort fjár­mun­um sé vel varið – hvort þeir nýt­ist með skyn­sam­leg­um hætti og hvort sú þjón­usta sem greitt er fyr­ir muni batna. Mæli­kv­arðarn­ir hafa brengl­ast. Op­in­ber þjón­usta er mæld á stiku út­gjalda en gæði þeirr­ar þjón­ustu sem veitt er fyr­ir sam­eig­in­lega fjár­muni er auka­atriði. Kannski er þetta vegna þess að við vilj­um kaupa okk­ur frá vanda­mál­un­um, – ætl­umst til þess að ríki og sveit­ar­fé­lög leysi flest vanda­mál, ekki síst þau sem ná­granni okk­ar glím­ir við. Af­leiðing­in er ekki aðeins sú að við hætt­um að hafa áhyggj­ur af því hvort fjár­mun­um hins op­in­bera er varið með hag­kvæm­um hætti, held­ur einnig að við verðum ónæm­ari fyr­ir erfiðleik­um ná­ung­ans. Við lít­um svo á að með skött­um og gjöld­um get­um við „keypt“ okk­ur frá bág­ind­um sam­ferðafólks­ins.

Ég hef haldið því fram að við séum að rík­i­s­væða ná­ungakær­leik­ann. Kraf­an er að hið op­in­bera grípi til sinna ráða í stað þess að við rétt­um fram hjálp­ar­hönd. Rík­i­s­væðing ná­ungakær­leik­ans hef­ur gert það að verk­um að við sætt­um okk­ur við að ríkið þenj­ist stöðugt út.

Hug­ar­fars­breyt­ing

Ég ótt­ast við séum hægt og bít­andi að missa sjón­ar af hlut­verki rík­is og sveit­ar­fé­laga. Við erum að fest­ast í gildru hug­ar­fars þar sem lausn flestra ef ekki allra vanda­mála sé að auka út­gjöld. Tor­tryggni í garð einkafram­taks­ins hef­ur náð að festa ræt­ur og talið best að ríkið ann­ist flest, jafn­vel þótt aðrir séu bet­ur til þess falln­ir, veiti betri og ódýr­ari þjón­ustu. Hægt og bít­andi er hætt að huga að því hvernig tak­mörkuðum fjár­mun­um er best varið til að tryggja að hægt sé að standa við sátt­mála sem við vilj­um halda í heiðri. Kerfið er hægt og bít­andi að grafa und­an sjálfu sér.

Þess vegna þurf­um við hug­ar­fars­breyt­ingu – ekki ósvipaða og átti sér stað í ís­lensku at­vinnu­lífi á síðustu tveim­ur ára­tug­um liðinn­ar ald­ar. Þá tókst að draga úr þátt­töku og áhrif­um rík­is­ins af at­vinnu­líf­inu.

Á fimm ára af­mæl­is­ráðstefnu Viðskipta­blaðsins árið 1999 gerði Davíð Odds­son, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, hug­ar­fars­breyt­ing­una að um­tals­efni. Þótt erfitt væri að mæla hana fyndu all­ir glöggt fyr­ir henni og ættu að vera stolt­ir:

„Nú dett­ur eng­um í hug að sitja á biðstof­um stjórn­mála­mann­anna til að verða sér úti um fé í gjaldþrota fyr­ir­tæki. Rík­is­valdið sér um að plægja ak­ur­inn, en fólki er látið eft­ir að sá og upp­skera. Nú kæm­ist eng­inn stjórn­mála­maður upp með að segja að al­menn efna­hagslög­mál eigi ekki við á Íslandi. Ekki frek­ar en að nokk­ur vís­indamaður með viti mundi halda því fram að þyngd­ar­lög­málið gilti ekki hér á landi. Nú bíða menn ekki leng­ur eft­ir efna­hagsaðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar, eða bráðabirgðalög­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar, eða geng­is­fell­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Fólk vill hvorki smáskammta­lækn­ing­ar né meint auka­verk­ana­laus töframeðul.“

Hug­ar­fars­breyt­ing­in sem Davíð Odds­son gerði að um­tals­efni fyr­ir tæp­um tveim­ur ára­tug­um varð til þess að eng­inn vildi leng­ur kann­ast við nauðsyn þess að ríkið fái eitt að stunda rekst­ur á út­varps- og sjón­varps­stöðvum. Fáum ef nokkr­um datt í hug að það væri eðli­legt að op­in­ber­ir aðilar krefðust sér­stakra skýr­inga á því í hvað frjáls borg­ari ætlaði að „eyða“ er­lend­um gjald­eyri sem hann keypti í banka. Ekki nokk­ur maður hafði skiln­ing á því að starfs­menn Seðlabank­ans sætu yfir greiðslu­korta­yf­ir­liti, (þeirra fáu sem höfðu leyfi til að nota kred­it­kort) og gerðu at­huga­semd­ir við eyðsluna.

Líkt og á síðustu öld verðum við Íslend­ing­ar að brjót­ast úr hlekkj­um hug­ar­fars­ins þó að ekki væri til ann­ars en að tryggja hag­kvæma nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna og styrkja þannig getu hins op­in­bera til að tryggja þá þjón­ustu sem við ætl­umst til. Við þurf­um að skera fit­una af rík­inu og rík­is­rekstr­in­um, inn­leiða sam­keppni þar sem við á og nýta hæfi­leika og getu ein­stak­linga til að veita ekki síðri og oft ódýr­ari þjón­ustu en ríkið sjálft. Ef við náum að greina á milli þess hver borg­ar og hver veit­ir þjón­ust­una og ger­um kröfu um hag­kvæma nýt­ingu fjár­muna, er að minnsta kosti hálf­ur sig­ur unn­inn.

Share