Útgjaldaboginn spenntur til hins ýtrasta

Gangi fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar eft­ir verða út­gjöld rík­is­sjóðs, án fjár­magns­kostnaðar, um 132 millj­örðum króna hærri árið 2023 en þau voru sam­kvæmt fjár­lög­um á liðnu ári. Þetta er hækk­un um tæp 20% á föstu verðlagi 2018. Aukn­ing út­gjalda jafn­gild­ir um 1,5 millj­ón­um króna á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu.

Ef lýsa á þróun rík­is­fjár­mála síðustu ár með einu orði, þá er orðið „út­gjaldaþensla“ ágætt. Það er sama á hvaða liði út­gjalda rík­is­ins er litið, – nær allt hef­ur hækkað og held­ur áfram að hækka á kom­andi árum.

Í janú­ar síðastliðnum benti ég á að fyrstu fjár­lög rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur væru sann­ar­lega  fjár­lög út­gjalda, en með fyr­ir­heit­um um að á kom­andi árum verði álög­ur á fyr­ir­tæki og al­menn­ing lækkaðar. Í fjár­mála­áætl­un sem lögð hef­ur verið fram er því heitið að tekju­skatt­ur ein­stak­linga lækki sem og trygg­inga­gjald. Auðvitað þarf í þess­um efn­um að stíga fast­ar til jarðar, en það er sér­stak­lega ánægju­legt að ætl­un­in er að hefja heild­ar­end­ur­skoðun á tekju­skatt­s­kerf­inu og þar verður meðal ann­ars skoðað hvort rétt sé að inn­leiða breytt­an per­sónu­afslátt, með svipuðum hætti og ég hef talað fyr­ir hér á síðum Morg­un­blaðsins. Þá yrði per­sónu­afslátt­ur­inn hækkaður veru­lega og færi stig­lækk­andi eft­ir því sem tekj­ur eru hærri. Hugs­an­legt er að ónýtt­ur per­sónu­afslátt­ur­inn verði að ein­hverju leyti greidd­ur út. Þannig tekju­skatt­s­kerfi hvet­ur fólk til vinnu og refs­ar því ekki fyr­ir að bæta sinn hag og eyk­ur „á sama tíma ráðstöf­un­ar­tekj­ur tekju­lágra meira en annarra, án þess þó að fá­tækt­ar­gildr­ur skap­ist,“ eins og seg­ir í fjár­mála­áætl­un­inni.

Eins og bú­ast mátti við er fjár­mála­áætl­un­in von­laus í huga stjórn­ar­and­stöðunn­ar.

96 millj­arða hækk­un

Í fjár­mála­áætl­un­inni er lagt til að fram­lög til sjúkra­húsþjón­ustu, heil­brigðisþjón­usta utan sjúkra­húsa, hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­ar og lyf og lækn­inga­vara, hækki um rúm­lega 56,4 millj­arða króna frá 2017 til 2023 eða liðlega 29% að raun­v­irði. Útgjöld til heil­brigðismála verða um 249 millj­arðar króna árið 2023 gangi áætl­un­in eft­ir.

Fram­lög vegna aldraðra, ör­yrkja og mál­efna fatlaðra verða liðlega 34,7 millj­örðum hærri að raun­gildi í lok fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar en fjár­lög liðins árs gera ráð fyr­ir. Alls nema fram­lög­in rúm­lega 162 millj­örðum árið 2023. Í þessu sam­bandi er vert að hafa í huga að fram­lög til líf­eyr­is­greiðslna aldraðra hækkuðu um nær 69% að raun­v­irði frá 2013 til 2017 eða um rúm­lega 27 millj­arða á verðlagi síðasta árs. Heild­ar­greiðslur til ör­yrkja hækkuðu um 32% eða 12,6 millj­arða að raun­v­irði.

Í heild verða út­gjöld til vel­ferðar­mála 96,3 millj­örðum króna hærri árið 2023 en á síðasta ári. Þetta er hækk­un um 26% eða tölu­vert meira en önn­ur út­gjöld.

Þessi mikla aukn­ing út­gjalda til vel­ferðar­mála kem­ur í kjöl­far ára þar sem út­gjöld hækkuðu gríðarlega.

338 millj­arðar í innviði

Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt áherslu á fjár­fest­ingu í innviðum og sú áhersla kem­ur fram í fjár­mála­áætl­un­inni. Svig­rúmið hef­ur enda auk­ist á und­an­förn­um árum þar sem tek­ist hef­ur að lækka skuld­ir rík­is­ins veru­lega og lækka þar með vaxta­kostnað um tugi millj­arða á ári. Fjár­fest­ing­ar aukast um 13 millj­arða á næsta ári og ná há­marki árið 2021 en alls er gert ráð fyr­ir að fjár­fest­ing­ar nemi 338 millj­örðum króna á fimm árum áætl­un­ar­inn­ar eða að meðaltali tæp­lega 68 millj­örðum á ári.

Svo koma út­gjalda­sinn­arn­ir og krefjast hærri út­gjalda. Þeir eru alltaf til­bún­ir að mæta á upp­boðsmarkað stjórn­mál­anna og bjóða bet­ur en all­ir aðrir. Í huga þeirra er út­gjaldaþensl­an ekki nægi­lega mik­il – það þarf að gefa meira í og auðvitað verður að láta af þeim vonda sið að ríkið „af­sali“ sér tekj­um með því að launa­fólk haldi meiru eft­ir í launaum­slag­inu. Til­lög­ur um lækk­un skatta er sagðar merki um „getu­leysi“ rík­is­stjórn­ar­inn­ar við að afla tekna og fjár­málaráðherra sit­ur und­ir ásök­un­um um að „gefa eft­ir“ millj­arða. „Tekju­leiðirn­ar eru ekki nýtt­ar,“ er mantra þeirra sem hæst láta á upp­boðstorgi stjórn­mál­anna.

Mæli­kv­arðinn á op­in­bera þjón­ustu sem marg­ir þing­menn og þrýsti­hóp­ar styðjast við sé hversu mikl­um pen­ing­um varið er í hana. Stöðugt kraf­ist hærri út­gjalda – gæði þjón­ust­unn­ar eru auka­atriði.

Virka brems­urn­ar ekki?

Það skal viður­kennt að það er oft erfitt að standa á brems­unni þegar kem­ur að út­gjöld­um rík­is­ins. Á stund­um er líkt og brems­urn­ar virki ekki. Ég er sann­færður um að á næstu árum verður að end­ur­skoða rekst­ur rík­is­ins frá grunni. Við stönd­um frammi fyr­ir því að straum­línu­laga ríkið, gera aukn­ar kröf­ur til þjón­ustu sem við kaup­um sam­eig­in­lega, auka skil­virkni og ný­sköp­un í op­in­ber­um rekstri. Fyrst og síðast verðum við að horf­ast í augu við að sam­eig­in­leg­um fjár­mun­um er víða sóað á sama tíma og það vant­ar pen­inga í annað og við búum í sann­kölluðu háskattalandi.

Við Íslend­ing­ar höf­um flest­ir notið góðæris á síðustu árum. Hag­vöxt­ur var 3,6% á síðasta ári og 7,5% árið á und­an. Ef þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar geng­ur eft­ir mun lands­fram­leiðslan halda áfram að vaxa fram til árs­ins 2023, þótt kraft­ur­inn verði ekki sá sami og síðustu þrjú ár. Íslend­ing­ar hafa þar með fengið að njóta 13 ára hag­vaxt­ar­skeiðs.

En nú eins og svo oft áður er langt í frá sjálf­gefið að þjóðhags­spá­in gangi eft­ir enda óvissuþætt­ir fjöl­marg­ir. Kjara­samn­ing­ar geta sett strik í reikn­ing­inn og alþjóðleg þróun efna­hags­mála hef­ur áhrif. Íslenskt sam­fé­lag hef­ur alltaf verið viðkvæmt fyr­ir efna­hags­legri stöðu helstu viðskiptalanda. Þar eru blik­ur á lofti.

Bogi út­gjalda er spennt­ur til hins ýtr­asta í fyr­ir­liggj­andi fjár­mála­áætl­un. En það kem­ur ekki í veg fyr­ir að kröf­ur um auk­in út­gjöld verða há­vær­ar á kom­andi vik­um. Nái út­gjalda­sinn­ar fram vilja sín­um mun bog­inn að lok­um brotna.

Share