Uppstokkun og einföldun skattkerfisins

Það er rétt sem seg­ir í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur að launa­hækk­an­ir und­an­far­inna ára, hækk­un á líf­eyr­is­fram­lagi at­vinnu­rek­enda og sterkt gengi, hafa „dregið úr sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins, einkum út­flutn­ings­greina“. Ein­mitt þess vegna er að talið mik­il­vægt að styrkja sam­keppn­is­stöðu fyr­ir­tækja sam­hliða því að bæta kjör al­menn­ings í kjara­samn­ing­um. Til að styðja við far­sæla niður­stöðu kjara­samn­inga er lögð áhersla á tvennt í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar: Ann­ars veg­ar að lækka neðra þrep tekju­skatts og hins veg­ar að lækka trygg­inga­gjald.

Í yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar 27. fe­brú­ar, í tengsl­um við mat á kjara­samn­ing­um á al­menn­um vinnu­markaði, er gengið nokkuð lengra í fyr­ir­heit­um um lækk­un tekju­skatts. Það kem­ur til greina að stokka upp spil­in. Orðrétt seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni:

„Haf­in verður end­ur­skoðun á tekju­skatt­s­kerf­inu með áherslu á lækk­un skatt­byrði og mögu­leg­ar breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­afslátt­ar og sam­spili við bóta­kerfi sem ætlað er að styðja við tekju­lægri hópa (lág­tekj­ur og lægri milli­tekj­ur). Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heild­stætt kerfi er taki jafnt til stuðnings hins op­in­bera við barna­fjöl­skyld­ur og stuðnings vegna hús­næðis­kostnaðar, hvort held­ur er fyr­ir íbúðar­eig­end­ur eða leigj­end­ur. Þessi vinna verður und­ir for­ystu fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is í sam­starfi við sam­tök launþega í því skyni að sem breiðust samstaða geti náðst um áhersl­ur og end­an­leg­ar breyt­ing­ar. Ætl­un­in er að ljúka þess­ari vinnu á haust­mánuðum 2018 áður en fjár­lög árs­ins 2019 verða af­greidd.“

Skatt­kerfið skorið upp

Þrepa­skipt tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga með per­sónu­afslætti og tekju­tengd­um vaxta-, hús­næðis- og barna­bót­um vinn­ur, ólíkt því sem marg­ir halda, gegn launa­fólki sem lægstu tekj­urn­ar hef­ur. Ég hef leitt að því rök að jaðarskatt­ar auki launamun­inn frem­ur en að þeir jafni kjör­in. Verst er að fólk fest­ist í gildru jaðarskatta – því er refsað í hvert sinn sem það nær fram kjara­bót­um í viðræðum við at­vinnu­rek­end­ur.

Hversu mikið er eft­ir í launaum­slag­inu eft­ir að skatt­ar og iðgjöld í líf­eyr­is­sjóði hafa verið greidd, skipt­ir launa­mann­inn meira máli en hversu há laun­in eru í krónu­tölu. Ráðstöf­un­ar­tekj­ur ráða af­kom­unni en ekki laun fyr­ir skatta og gjöld. En fleira spil­ar hér inn í. Hvernig sam­spil launaþró­un­ar og barna-, vaxta- og hús­næðis­bóta er háttað hef­ur veru­leg áhrif. Tekju- og eigna­teng­ing­ar þess­ara bóta­flokka eru með þeim hætti að þeim sem síst skyldi er refsað um leið og hag­ur þeirra vænkast. Jaðarskatt­ar éta oft upp all­an ábat­ann og á stund­um gott bet­ur. Þeir sem standa sterk­ast að vígi á vinnu­markaði eiga hins veg­ar mögu­leika á að fá bætt­an „skaða“ sem háir jaðarskatt­ar og/​eða hækk­un tekju­skatts valda. Þrepa­skipt tekju­skatt­s­kerfi eyk­ur vand­ann enn frek­ar – ref­sigleði skatt­kerf­is­ins magn­ast.

Það er með hliðsjón af þess­um inn­byggðu göll­um sem ég hef í mörg ár bar­ist fyr­ir því að inn­leidd­ur sé flatur tekju­skatt­ur – ein al­menn skatt­pró­senta. Í janú­ar síðastliðnum lagði ég til að sam­hliða flatri tekju­skatts­pró­sentu yrði per­sónu­afslætt­in­um breytt til að lag­færa brota­löm í kerf­inu. Fyr­ir þann sem er á lág­marks­laun­um skipt­ir per­sónu­afslátt­ur­inn meira máli en fyr­ir þann sem hef­ur á aðra millj­ón á mánuði. En þegar per­sónu­afslátt­ur­inn hækk­ar, þá geng­ur hækk­un­in upp all­an tekju­stig­ann – lág­launamaður­inn fær sömu krónu­tölu­hækk­un og sá sem hærri laun­in hef­ur. Ein­mitt þess vegna er það gríðarlega „dýrt“ fyr­ir rík­is­sjóð í hvert skipti sem per­sónu­afslátt­ur­inn hækk­ar.

Svipaða sögu er að segja um hækk­un skattþrepa í sam­ræmi við hækk­un launa­vísi­tölu svo komið sé í veg fyr­ir að skatt­byrði (ekki síst milli­tekju­fólks) hækki. Þeir sem lök­ust hafa kjör­in njóta þeirr­ar hækk­un­ar lítt eða ekki, en hún get­ur skipt annað launa­fólk miklu.

Stig­lækk­andi per­sónu­afslátt­ur

Í Morg­un­blaðsgrein í janú­ar hélt ég því fram að flatur tekju­skatt­ur með stig­lækk­andi per­sónu­afslætti væri skyn­sam­leg­ur. Sam­hliða upp­stokk­un á tekju­tengdu bóta­kerfi virðist hag­kvæm­ara og rétt­lát­ara að ónýtt­ur per­sónu­afslátt­ur sé greidd­ur út. Breyt­ing­ar í þess­um anda gera skatt­kerfið bæði ein­fald­ara og rétt­lát­ara. Skatt­byrðin verður mis­jöfn. Þeir sem eru með laun und­ir skatt­leys­is­mörk­um greiða ekk­ert, (fá hugs­an­lega greidd­an út ónýtt­an per­sónu­afslátt og eru því með nei­kvæða skatt­byrði). Eft­ir því sem tekj­ur eru hærri því þyngri verður skatt­byrðin (raun­veru­leg skatt­pró­senta) þar sem per­sónu­afslátt­ur­inn lækk­ar eft­ir tekj­um. Við ákveðnar tekj­ur fell­ur per­sónu­afslátt­ur­inn út að fullu og þá verður skatt­pró­sent­an flöt – sú sama.

Ég fæ ekki bet­ur séð en að hug­mynd af þessu tagi falli vel að yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar frá því í fe­brú­ar. Kerf­is­breyt­ing af þessu tagi verður ekki gerð í and­stöðu við aðila vinnu­markaðar­ins, en því verður vart trúað að for­ystu­menn launþega­sam­taka taki ekki opn­um örm­um hug­mynd­um um upp­skurð skatt­kerf­is­ins, sem fel­ur í sér hækk­un ráðstöf­un­ar­tekna þeirra sem lægstu laun­in hafa.

Und­ir for­ystu Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra voru stig­in mörg mik­il­væg skref til að ein­falda skatt­kerfið á ár­un­um 2013 til 2016. Í upp­hafi síðasta árs féll milliþrep í tekju­skatti ein­stak­linga niður sem jók ráðstöf­un­ar­tekj­ur stórs hluta launa­fólks. Al­menn vöru­gjöld voru felld niður, toll­ar af fatnaði og skóm heyra sög­unni til. Kaup­mátt­ur heim­il­anna jókst. Efsta þrep virðis­auka­skatts­ins var lækkað úr 25,5% í 24% og hef­ur aldrei verið lægra. Neðra þrepið var hækkað sam­hliða því sem skatt­stofn­inn var breikkaður.

Trygg­inga­gjald hef­ur lækkað úr 8,65% árið 2011 í 6,85%. Trygg­inga­gjaldið er ekki annað en skatt­ur á laun og störf. Rík­is­stjórn­in hef­ur gefið fyr­ir­heit um frek­ari lækk­un gjalds­ins enda er það enn mun hærra en það var árið 2008; 5,34%. Þegar tek­in er ákvörðun um lækk­un trygg­inga­gjalds skipt­ir miklu að sú lækk­un komi fyrst og fremst litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um til góða, enda þung­ur baggi.

Verk­efn­in í skatta­mál­um eru fjöl­mörg, þótt þar vegi þyngst ein­föld­un á tekju­skatt­s­kerfi og lækk­un trygg­inga­gjalds. Fjöl­mörg gjöld eru lögð á fyr­ir­tæki og ein­stak­linga, sem eru frem­ur til óþurft­ar og gefa tak­markaðar tekj­ur. Ýmis er hægt að fella þau niður eða sam­eina. Allt til að gera lífið bæri­legra og von­andi sann­gjarn­ara.

Share