Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja

Ég hef ítrekað reynt að draga fram nauðsyn þess samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sé varin. Þar geta þingmenn lagt sitt af mörkum. Í umræðum um störf þingsins 31. jananúar sagði ég:

„Herra forseti. Flestir þeirra sem sitja í þessum sal hafa kannski gert sér grein fyrir að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er ekki eins og við hefðum viljað að hún væri. Hún hefur orðið lakari á undanförnum missirum. Við voru áminnt hressilega í gær þegar þær leiðu fréttir bárust að prentsmiðjan Oddi hefði sagt upp 86 starfsmönnum. Um er að ræða starfsemi gamalla og gróinna fyrirtækja, Kassagerðarinnar og Plastprents. Forráðamenn Odda skýra það m.a. með sterku gengi íslensku krónunnar og launahækkunum á Íslandi umfram það sem gerist í samkeppnislöndunum.

Það er vert að hafa það í huga. En auðvitað spila fleiri þættir inn í samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja en launakostnaður. Það er t.d. það umhverfi sem íslensk fyrirtæki og í raun íslensk heimili búa við þegar kemur að vöxtum. Ég hef ítrekað haldið því fram að nauðsynlegt sé við endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands að sett verði alveg sérstakt ákvæði um að peningastefnunefnd skuli taka mið af því við vaxtaákvarðanir að vaxtamunur milli Íslands og helstu samkeppnislanda sé ekki óeðlilega hár. Hann er óeðlilega hár núna og dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja vegna þessa. Seðlabankinn er með beinum hætti að gera samkeppnishæfnina lakari.

Og við megum ekki gleyma umhverfinu sem við búum íslenskum fyrirtækjum þegar kemur að skattumhverfinu, því að við höfum dálítið um það að segja. Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja ræðst ekki síst af þeim ákvörðunum sem teknar eru um skatta og gjöld í þessum sal.”

Share