Skert samkeppnisstaða vegna lífeyrissjóða

Umsvif lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi er mikil en 6. febrúar vaktri ég athygli á þeirri hættu sem er samfara fjárfestingum sjóðanna: Samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja getur orðið verri en ella.

„Herra forseti. Nýlega skilaði starfshópur um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífsins mjög merkilegri skýrslu. Ég vil vekja athygli þingheims á þeirri skýrslu og hvet alla þingmenn til að kynna sér efni hennar.

Við vorum með nefndarmenn sem gesti í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun í u.þ.b. klukkutíma og tókst ekki að klára viðfangsefnið. Ég ætla bara að benda á eitt atriði í skýrslunni, umfang lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu og fjárfestingar þeirra sem eru, þegar kemur að atvinnulífinu, fyrst og fremst bundin í skráðum félögum sem eru upp til hópa stærstu félögin á Íslandi. Sú fjárfestingarstefna, jafn góð og hún getur annars verið, hefur hins vegar neikvæðar afleiðingar þegar kemur að stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er alveg ljóst að fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna gerir það að verkum að samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja er ekki eins og hún væri annars vegna þess að aðgangur þeirra er ekki sá sami og stóru fyrirtækjanna þegar kemur að áhættufé. Það er áhyggjuefni. Við þurfum að hafa það í huga og ræða það sérstaklega því að það var akkúrat það sem gerðist í aðdraganda fjármálahrunsins.

Að lokum, herra forseti, vil ég óska þér til hamingju með daginn. Mér skilst að í dag séu 19 ár frá því að hæstv. forseti stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Ég vil óska þingmönnum VG innilega til hamingju með daginn.”

Share