Rangur mælikvarði

Stjórnarandstaðan kvartar mjög yfir að ríkisstjórnin dæli ekki inn á Alþingi lagafrumvörpum. Margar ræður eru fluttar þar sem kvartar er undan að það vanti mál frá ríkisstjórninni. Ég nota annan mælikvarða á Alþingi en flestir aðrir.

Í umræðum um fundarstjórn forseta 21. febrúar sagði ég:

„Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að blanda mér mikið í þessa umræðu, en ég er búinn að hafa ánægju af henni vegna þess að hún minnir mig á það þegar menn bregða hér mælikvarða á störf þingsins og hreykja sér af því að vori hversu afkastamikið þingið hafi verið, það hafi verið afgreidd svo og svo mörg frumvörp og þingsályktunartillögur og fyrirspurnum svarað o.s.frv. og við hreykjum okkur af því hvað við höfum verið dugleg. Við gleymum því að til er annar mælikvarði sem almenningur þarf að styðjast við, hann er sá hvaða áhrif hafa lagasetningar á mitt daglega líf, á rekstur fyrirtækis míns o.s.frv, vegna þess að stærsti hlutinn af því sem við gerum hér er íþyngjandi fyrir einstaklinga, leggur á auknar byrðar fyrir einstaklinga.

Ég held að við ættum að taka töluvert ítarlega umræðu um hvernig við getum farið í að hreinsa aðeins til í lögum (Gripið fram í.) og að við myndum … (Gripið fram í.) — Ég held að það sé ekki mælikvarði (Forseti hringir.) á gott þing hversu mörg mál við leggjum fram, heldur hver þau eru og hvernig þau gagnast (Forseti hringir.) almenningi og fyrirtækjum í landinu. Svo einfalt er lífsviðhorf mitt, hv. þm. og félagi Logi Einarsson.“

Umræðan um fundarstjórn er hér.

Share