Sjálfstæði atvinnurekandinn er lífseigur

Í upp­hafi eru eft­ir­far­andi full­yrðing­ar:

  • Báknið virðist upp­tekn­ara af því að koma bönd­um á fram­taks­mann­inn en tryggja aukna sam­keppni og stuðla að frjó­um jarðvegi fyr­ir nýj­ung­ar og ný­sköp­un.
  • Ríki og sveit­ar­fé­lög leggja steina í göt­ur einkafram­taks­ins.
  • Með skipu­leg­um hætti hafa rík­is­fyr­ir­tæki sótt að einka­rekstri og grafið und­an sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­an­um.
  • Er­lend­ir auðmenn og Hollywood-stjörn­ur njóta meiri vel­vild­ar stjórn­valda en ís­lenski fram­taksmaður­inn.

Öflug millistétt og sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur eru burðarás­ar allra vel­ferðarsam­fé­laga. Fáir stjórn­mála­menn gerðu sér bet­ur grein fyr­ir þessu en Eyj­ólf­ur Kon­ráð Jóns­son (1928-1997), þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Ey­kon hafði skýra sýn á stefnu og hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins. Á fundi Varðar árið 1977 lagði hann áherslu á að hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins í at­vinnu­mál­um væri að „inn­leiða meira frjáls­ræði, minni rík­is­af­skipti, öfl­ugra einkafram­tak, minni rík­is­um­svif“. Að skapa svig­rúm til at­hafna og frelsi fyr­ir fram­taks­menn­ina voru og eru skyld­ur sem sjálf­stæðis­menn hafi axlað:

„Hlut­verk flokka og stjórn­mála­manna er ekki að fyr­ir­skipa hvað eina og skipu­leggja allt. Það er hlut­verk þeirra, sem beina aðild eiga að at­vinnu­rekstri. Þeim ber að sjá um sam­keppn­ina og arðsem­ina.“

Litla Ísland – jarðveg­ur nýrr­ar hugs­un­ar

Hag­stof­an tók sam­an, að beiðni Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, fróðleg­ar upp­lýs­ing­ar um ís­lenskt at­vinnu­líf, fjölda fyr­ir­tækja, fjölda starfs­manna og launa­greiðslur á ár­un­um 2010-2016. Upp­lýs­ing­arn­ar voru kynnt­ar á Smáþingi Litla Íslands fyrr í þess­um mánuði og ná yfir alla launa­greiðend­ur að und­an­skild­um stofn­un­um rík­is og sveit­ar­fé­laga, líf­eyr­is­sjóðum og fé­laga­sam­tök­um. Hafi ein­hver haft efa­semd­ir um mik­il­vægi lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja fyr­ir ís­lenskt at­vinnu- og efna­hags­líf, ættu þær efa­semd­ir að heyra sög­unni til.

  • 99,7% fyr­ir­tækja á Íslandi eru lít­il (49 eða færri starfs­menn) og meðal­stór fyr­ir­tæki (50-249 starfs­menn).
  • Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki höfðu 71% starfs­manna í at­vinnu­líf­inu í vinnu árið 2016.
  • Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki greiddu 66% heild­ar­launa í at­vinnu­líf­inu árið 2016.

Starfs­mönn­um í at­vinnu­líf­inu fjölgaði um 27 þúsund frá 2010 til 2016, þar af fjölgaði starfs­mönn­um lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja um 20.700. Liðlega 45% fjölg­un­ar­inn­ar eða 12.200 voru hjá ör­fyr­ir­tækj­um (færri en 10 starfs­menn) og litl­um fyr­ir­tækj­um.

Af þess­um töl­um má sjá að drif­kraft­ar efna­hags­lífs­ins – góðær­is­ins sem við Íslend­ing­ar höf­um notið – hafa verið lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki. Enda eru það göm­ul sann­indi og ný að fram­taksmaður­inn er aflvaki fram­fara og bættra lífs­kjara. Hann kem­ur auga á tæki­fær­in, býður nýja vöru og þjón­ustu og skap­ar ný störf. Með nýrri hugs­un og oft bylt­ing­ar­kennd­um aðferðum ógn­ar fram­taksmaður­inn hinum stóru.

Sann­girni sett til hliðar

Ég hef áður bent á hvernig stór­fyr­ir­tæk­in sóttu að sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­an­um, litlu og meðal­stóru fyr­ir­tækj­un­um á ár­un­um fyr­ir fall fjár­mála­kerf­is­ins. Í krafti stærðar en þó fyrst og fremst greiðs aðgangs að láns- og áhættu­fjár­magni náðu fyr­ir­tækja­sam­steyp­ur ótrú­leg­um ítök­um í ís­lensku at­vinnu­lífi. Þrengt var að litl­um sjálf­stæðum keppi­naut­um og þeir oft kæfðir og hrakt­ir úr af markaði. Eft­ir hrun var skuld­sett­um stór­fyr­ir­tækj­um bjargað eins og ég benti meðal ann­ars á í grein hér í Morg­un­blaðinu í júní 2011:

„Hver viðskipta­sam­steyp­an á fæt­ur ann­arri hef­ur fengið nýtt líf. Skuld­ir hafa verið af­skrifaðar, skuld­um breytt í hluta­fé og það sem stóð eft­ir verið skuld­breytt. Hinir hóf­sömu keppi­naut­ar standa eft­ir og skilja ekki af hverju þeim er refsað fyr­ir að hafa farið gæti­lega og gætt skyn­semi í rekstri.“

Jafn­ræði og sann­girni voru sett til hliðar á fyrstu ár­un­um eft­ir fjár­málakrepp­una. En fram­taksmaður­inn er líf­seig­ur eins og fyrr­nefnd­ar töl­ur Hag­stof­unn­ar sýna. Við get­um aðeins látið okk­ur dreyma um hversu öfl­ugra og fjöl­breytt­ara ís­lenskt at­vinnu­líf væri ef sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn hefði setið við sama borð og stór­fyr­ir­tæk­in á síðustu árum.

Sterkt bak­bein

Þrengt hef­ur verið að litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um með ýms­um öðrum hætti. Rík­is­fyr­ir­tæki herða sókn­ina og lög­gjaf­inn hef­ur hannað um­gjörð rík­is­rekstr­ar með ohf-væðingu, þannig að þau telja sér rétt og skylt að sækja inn á sam­keppn­ismarkaði. Op­in­ber hluta­fé­lög eru lík­ari lokuðum einka­fyr­ir­tækj­um en hefðbundn­um rík­is­fyr­ir­tækj­um. Fyr­ir­tæki í eigu rík­is­ins eru kom­in í sam­keppni við sendi­bíla­stöðvar og ein­yrkja, hafa haslað sér völl í vöru­flutn­ing­um og vöru­hýs­ingu, sinna prentþjón­ustu, reka versl­un með snyrti­vör­ur, und­ir­föt og leik­föng, svo dæmi séu nefnd. Á síðustu árum hafa flest­ar tak­mark­an­ir á rekstri rík­is­fyr­ir­tækja verið af­numd­ar og þau fært sig í aukn­um mæli inn á verksvið einka­fyr­ir­tækja.

Til að bæta gráu ofan á svart létt­ir eft­ir­litsiðnaður­inn ekki und­ir með litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um. Á stund­um er engu lík­ara en að báknið hafi það frem­ur að leiðarljósi að koma bönd­um á fram­taks­mann­inn en að stuðla að heil­brigðu viðskipta­lífi og efla sam­keppni. Sí­fellt flókn­ari regl­ur og fjöl­breyti­leg gjöld íþyngja fyrst og síðast minni fyr­ir­tækj­um og geta komið í veg fyr­ir að fram­taks­menn nái að hasla sér völl á mörkuðum þar sem stór­ir aðilar sitja fyr­ir á fleti. Þannig er búin til vernd fyr­ir þá stóru og dregið er úr sam­keppni á kostnað neyt­enda.

Á sama tíma og sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur horfa upp á skatt­fríðindi Hollywood-stjarna standa þeir í ströngu við að kom­ast yfir hindr­an­ir sem ríki og sveit­ar­fé­lög hafa búið til, allt frá sorp­hirðu til heil­brigðisþjón­ustu, frá fjöl­miðlun til ferðaþjón­ustu, frá versl­un til mennt­un­ar.

Með allt þetta í huga vinna sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur af­rek á hverj­um degi. Og það er magnað – þrátt fyr­ir allt – að til séu þúsund­ir ein­stak­linga sem stofna fyr­ir­tæki og leggja allt sitt und­ir til að skapa verðmæti og störf. Sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn er líf­seig­ur. Þess vegna er bak­bein ís­lensk at­vinnu­lífs sterkt og þess vegna höf­um við Íslend­ing­ar náð að byggja hér upp öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag.

Share