Í janúar síðastliðnum voru 25 ár frá því að Alþingi samþykkti lög um Evrópska efnahagssvæðið [EES] og tóku þau gildi í byrjun árs 1994. Um það verður vart deilt að við Íslendingar höfum notið góðs af samstarfi EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið á grunni EES, en um leið þurft að sætta okkur við ýmsa ókosti. Að nokkru höfum við greitt kostnaðinn af göllunum vegna eigin sinnuleysis en einnig vegna brotalama sem m.a. komu í ljós í regluverki ESB um fjármálamarkaði.
Lífskjör og efnahagur okkar Íslendinga byggist á tryggu aðgengi að erlendum mörkuðum og sanngjörnum aðgangi erlenda aðila að íslenskum markaði. Frelsi í viðskiptum við önnur lönd er forsenda góðra lífskjara og því hefur EES-samningurinn reynst okkur mikilvægur. Í samvinnu við aðrar vestrænar þjóðir og ekki síst með varnarsamningi við Bandaríkin og þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, hefur öryggi og frelsi landsins verið tryggt allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, hélt því fram í grein hér í Morgunblaðinu 20. apríl 2013 að EES-samningurinn hefði styrkt stöðu fyrirtækja og byndi hendur stjórnvalda og þrengdi „mikið svigrúm þeirra til að taka tillit til sértækra hagsmuna einstakra fyrirtækja í opinberum ákvörðunum“. Davíð Þór telur engan vafa leika á því að þetta hafi „leitt til stórkostlegra réttarbóta til handa öllum almenningi í landinu og aukið gegnsæi í starfsumhverfi fyrirtækja“.
En með þátttöku í EES höfum við þurft að „sætta“ okkur við áhrif Evrópusambandsins á íslenska laga- og reglugerðarsetningu, sem virðist aukast frá ári til árs. Bent hefur verið á að slíkt geti í mörgum tilfellum gengið gegn stjórnarskrá.
Vegið að grunnstoðum EES
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir á þingi í síðustu viku að tímabært væri að Alþingi tæki til skoðunar stöðu EFTA-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins þegar Evrópusambandið krefðist þess ítrekað að „við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að“. Með því sé verið að vega að grunnstoðum EES-samningsins. Um leið glími EFTA við þann vanda hversu fá ríki standi að baki stofnunum sambandsins.
Augljóst er að formaður Sjálfstæðisflokksins telur að Alþingi og stjórnvöld gefi EES-samstarfinu ekki nægjanlega athygli. Undir það skal tekið og á stundum virðist sem við afgreiðum EES-reglugerðir á færibandi, eftir takmarkaðan undirbúning og könnun.
Að nokkru erum við að súpa seyðið af þeirri ofurtrú sem eitraði íslenska utanríkisstefnu og leiddi til stöðnunar – ofurtrú á að lausn allra vandamála okkar fælist í aðild að Evrópusambandinu. Í stað þess að móta stefnu í utanríkisviðskiptum sem hefði það að markmiði að fjölga kostunum í samskiptum við aðrar þjóðir, var skipulega reynt að fækka þeim. „Stóra-lausnin“ átti að vera evra og Evrópusambandið.
Óskaniðurstaða
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, er á því að vandi EFTA-ríkjanna í samskiptum við Evrópusambandið sé „tregða af hálfu stjórnenda þessara ríkja [EFTA] til að láta reyna á sérstöðu þeirra“ á grunni EES. Síðastliðinn mánudag skrifaði Björn meðal annars á heimasíðu sína:
„Á meðan ESB-aðildarbröltið var stundað af hálfu íslenskra stjórnvalda hlóðust upp óafgreidd EES-mál innan stjórnkerfisins. Í raun hefur aldrei tekist að hrinda nægilega vel í framkvæmd sjálfstæðri stefnu íslenskra stjórnvalda í samskiptum við ESB á grundvelli EES-samningsins.
Hófsamleg niðurstaða í Brexit-viðræðunum þjónar hagsmunum EFTA-ríkjanna best. Verði viðurkennt meira svigrúm til að hafna innleiðingu ESB-reglna fellur það að helstu gagnrýninni á EES-fyrirkomulagið eins og það er nú – þetta svigrúm er þó einskis virði sé aldrei gerð tilraun til að nýta það og henni fylgt eftir á skipulegan hátt.“
Ég er sammála Birni um að „óskaniðurstaða“ okkar Íslendinga í Brexit sé að Bretar gangi til liðs við EFTA og að nýr EES-samningur verði gerður með aðild Breta og jafnvel einnig Svisslendinga. „Fyrir þessu einfalda og skýra markmiði ættu íslensk stjórnvöld að beita sér,“ skrifar Björn en þess má geta að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur hvatt Breta til að ganga til liðs við EFTA.
Sjálfstæð fastanefnd um EES
Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands sé „að sinna framkvæmd EES-samningsins vel“ og að Alþingi þurfi „að vera virkara á því sviði“.
Flestir geta verið sammála um nauðsyn þess að auka áhrif Íslands á fyrstu stigum tillagna um nýja Evrópulöggjöf. Í skýrslu utanríkisráðherra á síðasta ári, „Utanríkisþjónusta til framtíðar“, er bent á að huga þurfi að þremur meginþáttum í þessum efnum. Í fyrsta lagi verði íslensk stjórnvöld að vera ávallt á varðbergi gagnvart stefnumótun innan ESB. Í öðru lagi þurfi að efla skipulagt samráð við Alþingi, hagsmunaaðila og samstarfsríki Íslands í EFTA. Í þriðja lagi verði „að vinna með skipulegri hætti að því að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri í umræðu um stefnumótun Evrópusambandsins innan stofnana þess og gagnvart aðildarríkjunum og nýta þá möguleika sem Ísland hefur, m.a. á grundvelli EES-samningsins, til að taka virkan þátt í mótun löggjafar ESB“.
Við sem sitjum á Alþingi þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að hægt er að standa betur að verki þegar kemur að afgreiðslu EES-mála – þingsályktunartillögum og lagafrumvörpum. Sterk rök eru fyrir því að koma á fót sérstakri fastanefnd á vegum þingsins – EES-nefnd – sem hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd EES-samningsins, vinna ítarlegar greiningar á nýrri Evrópulöggjöf, jafnt á fyrstu stigum og áður en þær eru teknar upp hér á landi. Í störfum sínum hefði nefndin samráð við aðrar þingnefndir, eftir efni máls og við hagsmunaaðila. Með sérstakri fastanefnd um EES væri betur tryggt að staðinn væri vörður um sérstöðu Íslands.
Það væri við hæfi að ný fastanefnd tæki til starfa þegar þing kemur saman í september næstkomandi – fjórum mánuðum áður en haldið er upp á að aldarfjórðungur er liðinn frá gildistöku laga um Evrópska efnahagssvæðið. Eitt fyrsta verk nefndarinnar ætti að vera sjálfstæð og víðtæk úttekt á reynslunni af EES, ekki bara efnahagslega, heldur ekki síður stjórnsýslulega um leið og svarað er spurningum um hvernig fullveldi landsins verður best varið á komandi árum.