Ekki verða öll vandamál leyst með auknum útgjöldum

Það þætti hreint magnað í hvaða landi sem væri, (nema kannski á Íslandi) að auka út­gjöld rík­is­sjóðs á milli ára um 8-9%. Fjár­laga­frum­varp nýrr­ar rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur ger­ir ráð fyr­ir að út­gjöld A-hluta rík­is­sjóðs, án fjár­magns­kostnaðar, verði liðlega 64 millj­örðum hærri á kom­andi ári en fjár­lög yf­ir­stand­andi árs og tæp­lega 53 millj­örðum hærri en áætl­un ger­ir ráð fyr­ir.

Útgjöld til nær allra mála­sviða aukast sam­kvæmt frum­varp­inu fyr­ir utan fjár­magns­kostnað sem lækk­ar enda hef­ur veru­leg­ar ár­ang­ur náðst við lækk­un skulda á síðustu árum og rík­is­sjóður nýt­ur hag­stæðari láns­kjara. Heild­ar­hækk­un fram­laga til heil­brigðismála nem­ur ríf­lega 21 millj­arði króna. Fram­lög til mennta-, menn­ing­ar- og íþrótta­mála aukast um 5,5 millj­arða, til sam­göngu- og fjar­skipta­mála um 3,6 millj­arða og til um­hverf­is­mála hækka fram­lög rík­is­sjóðs um 1,7 millj­arða frá fjár­lög­um 2017 til 2018.

Þannig má lengi telja. Á alla eðli­lega (og sann­gjarna) mæli­kv­arða er illa hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar sé sann­kallað út­gjalda­frum­varp. En stjórn­ar­andstaðan styðst við önn­ur viðmið ef marka má fyrstu umræðu um frum­varpið síðastliðinn föstu­dag. Það er eig­in­lega allt ómögu­legt og sagt nauðsyn­legt að auka út­gjöld rík­is­ins miklu meira en lagt hef­ur verið til.

Áhyggj­ur af umræðunni

Dr. Ásgeir Jóns­son, dós­ent og deild­ar­for­seti hag­fræðideild­ar Há­skóla Íslands, er áhyggju­full­ur. Hann var í fróðlegu viðtali við Kristján Kristjáns­son á Sprengisandi Bylgj­unn­ar á sunnu­dag­inn og sagði um orðræðuna:

„Það sem maður hef­ur aðallega áhyggj­ur af í umræðunni er að það virðist – eins og stjórn­ar­andstaðan tal­ar á þing­inu – að hún átti sig ekki á hvernig rík­is­fjár­mál virka. Að það þurfi að eyða meiri pen­ing­um. Ef við för­um að þenja út rík­is­sjóð á þess­um tíma­punkti í hagsveifl­unni, þá erum við að fá þenslu, vaxta­hækk­an­ir frá Seðlabank­an­um og verðbólgu. Það skipt­ir mjög miklu máli að ríkið vinni á móti hagsveifl­unni.“

Ásgeir Jóns­son gagn­rýndi skort á for­gangs­röðun þegar kæmi að út­gjöld­um rík­is­ins og að ekki væru til mæli­kv­arðar á ár­ang­ur og gæði op­in­berr­ar þjón­ustu. Hvernig skil­grein­um við t.d. gott heil­brigðis­kerfi? Við styðjumst ekki við góða mæli­kv­arða, eins og Ásgeir benti á:

„Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum mikl­um pen­ing­um í heil­brigðismál. Það er öm­ur­leg­ur mæli­kv­arði, vegna þess að það eru til lönd sem eyða mikl­um pen­ing­um í sín heil­brigðis­kerfi, eins og Banda­rík­in, en eru samt með öm­ur­legt kerfi.“

Vond­ur mæli­kv­arði

Svo virðist sem eini mæli­kv­arðinn á op­in­bera þjón­ustu sem marg­ir þing­menn og þrýsti­hóp­ar styðjast við sé hversu mikl­um pen­ing­um varið er í hana. Með slík­an mæli­kv­arða að vopni er stöðugt kraf­ist hærri út­gjalda – því hærri því betra. Gæði þjón­ust­unn­ar verða auka­atriði.

Fyrr eða síðar lend­um við í ógöng­um og þess vegna er mik­il­vægt að taka upp ný vinnu­brögð – inn­leiða ár­ang­urs­mæli­kv­arða á öll­um mál­efna­sviðum rík­is­út­gjalda. Ríkið – fyr­ir hönd skatt­greiðenda – þarf að gera skýr­ari og meiri kröf­ur til að tryggja gæði mennt­un­ar, heil­brigðisþjón­ustu og annarr­ar op­in­berr­ar þjón­ustu.

Ég hef oft reynt að vekja at­hygli á því hve mæli­kv­arðinn sem er notaður sé vit­laus. Í umræðum um fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar sem sprakk með nokkr­um hvelli um miðjan sept­em­ber síðastliðnum, hélt ég því fram að ákvörðun um út­gjöld rík­is­ins sner­ist ekki síst um að nýta fjár­muni með skyn­sam­leg­um hætti, hvernig við for­gangs­röðum, byggj­um upp kerfi og skipu­leggj­um þjón­ust­una. Þar sagði ég að lítt væri hugað að því hvernig tekj­ur rík­is­ins og sam­eig­in­leg­ar eign­ir nýt­ast í hin sam­eig­in­legu verk­efni. „Af­leiðing­in er sú að rík­is­rekst­ur­inn þenst út og verður óhag­kvæm­ari með hverju ár­inu sem líður. Til að leysa vand­ann er þægi­legra að grípa til ráðstaf­ana til að auka tekj­ur, hækka skatta og finna nýja tekju­stofna.“

Líkt og hróp­and­inn í eyðimörk­inni

Rök­semd­ir mín­ar í umræðum um frum­varp til fjár­laga, sem aldrei náði fram að ganga, eru í takt við það sem ég hef skrifað hér á síður Morg­un­blaðsins. Í októ­ber á liðnu ári full­yrti ég að flest­ir viður­kenndu að auka yrði út­gjöld til heil­brigðismála. En um leið og fram­lög­in yrðu auk­in væri nauðsyn­legt að viður­kenna að fjár­mun­um væri víða sóað:

„Eitt stærsta verk­efni á sviði heil­brigðismála á kom­andi árum verður að tryggja góða nýt­ingu fjár­muna – að skatt­greiðend­ur fái það sem greitt er fyr­ir; öfl­uga og góða heil­brigðisþjón­ustu. Þar skipt­ir skipu­lag kerf­is­ins mestu og um það er deilt.“

Síðar í sömu grein sagði:

„Al­menn­ing­ur treyst­ir því að kjörn­ir full­trú­ar standi vörð um horn­steina sam­fé­lags­ins, en ger­ir þá eðli­legu kröfu að ríki og sveit­ar­fé­lög fari vel með sam­eig­in­lega fjár­muni.“

Það skal játað að í þess­um efn­um hef­ur mér oft liðið eins og hróp­and­an­um í eyðimörk­inni. Kraf­an um stöðugt auk­in út­gjöld er há­vær. Trú­in á að hægt sé að leysa flest vanda­mál með því að auka út­gjöld­in er sterk. Og hvernig má annað vera þegar stuðst er við mæli­kv­arða þar sem allt er metið út frá því hversu mikl­ir fjár­mun­ir sett­ir eru í mála­flokka?

Af­leiðing­in er ekki aðeins sú að gæði þjón­ust­unn­ar sem við greiðum sam­eig­in­lega fyr­ir, er verri en hún gæti verið, held­ur einnig að stöðugt er farið dýpra í vasa launa­fólks.

Auðvitað er eitt­hvað sér­kenni­legt og öf­ug­snúið við það að þing­menn leiði hug­ann að því að þyngja byrðar sem launa­fólk og fyr­ir­tæki þurfa að bera, áður en þeir eru bún­ir að tryggja að þeir fjár­mun­ir sem þegar eru greidd­ir í rík­iskass­ann nýt­ist með hag­kvæm­um hætti. Það er sann­gjörn krafa frá skatt­greiðend­um að fram­kvæmda- og lög­gjaf­ar­valdið gangi úr skugga um að þeir gríðarlegu fjár­mun­ir sem renna til sam­eig­in­legra verk­efna – í heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið, stjórn­sýsl­una o.s.frv. – séu nýtt­ir af skyn­semi þannig að þjón­ust­an sé í sam­ræmi við það sem greitt er fyr­ir og sann­gjarnt er að krefjast.

Share