Að afla hugsjónum fylgis og brautargengis

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn get­ur end­ur­heimt stöðu sína sem kjöl­festa og leiðandi afl í ís­lensk­um stjórn­mál­um með því að end­ur­nýja traust og trúnað við launþega og at­vinnu­rek­end­ur. Sú end­ur­nýj­un verður hins veg­ar ekki nema for­ystu­menn flokks­ins viður­kenni af ein­lægni að þeir sofnuðu á verðinum og und­ir for­ystu flokks­ins náði ríkið að þenj­ast út. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn þarf einnig að horf­ast í augu við þá staðreynd að, sem stjórn­mála­flokk­ur gleymdi hann úr hvaða jarðvegi stefna hans og hug­sjón­ir eru sprottn­ar. Ekki vegna þess að al­menn­ir flokks­menn hafi rifið upp ræt­urn­ar, held­ur gleymdi flokk­ur­inn, sem stofn­un, fortíð sinni og sögu. Engu skipt­ir hvort um ein­stak­ling, stjórn­mála­hreyf­ingu eða þjóð er að ræða; ef fortíðin, sag­an og menn­ing­in eru graf­in í kistu gleymsk­unn­ar, tek­ur rotn­un­in við. Hægt í fyrstu, en síðan stöðugt og hratt, uns ekk­ert er eft­ir annað en mold­in.“

Þannig hljóðaði inn­gang­ur að ít­ar­legri grein sem ég skrifaði sum­arið 2011 og birt var í tíma­rit­inu Þjóðmál­um und­ir fyr­ir­sögn­inni; Mani­festo hægri manns. Þar hélt ég því fram að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn yrði að leita aft­ur til fortíðar – finna ræt­urn­ar að nýju – um leið og sýn til framtíðar væri mótuð. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn eigi að nýju að verða regn­hlíf allra þeirra sem vilja tak­marka völd rík­is­ins, tryggja frelsi borg­ar­anna, standa vörð um öfl­ugt vel­ferðar­kerfi og vera gæslu­menn menn­ing­ar og sögu lands­ins.

Til­lag­an var í sjálfu sér ein­föld:

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur at­vinnu­rek­enda, flokk­ur launa­manna, flokk­ur bænda, flokk­ur þeirra sem þurfa á sam­hjálp að halda, flokk­ur unga fólks­ins og þeirra sem eldri eru. En fyrst og fremst á Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur millistétt­ar­inn­ar – hins venju­lega Íslend­ings.“

Hugað að rót­un­um

Stjórn­mála­maður sem vill hafa áhrif og hrinda hug­mynd­um sín­um í fram­kvæmd þarf að vega það og meta hvernig best og skyn­sam­leg­ast sé að standa að verki. Aðstæður eru mis­mun­andi og það er ekki alltaf sjálf­gefið að best sé að afla hug­sjón­um fylg­is og vinna þeim braut­ar­gengi með því að taka þátt í rík­is­stjórn. Á stund­um er ár­ang­urs­rík­ara – að minnsta kosti til lengri tíma litið – að standa utan rík­is­stjórn­ar og gefa sér tíma til að huga að rót­un­um, sjálf­stæðis­stefn­unni sem er sprott­in úr ís­lensk­um jarðvegi og mótuð í takt við nýja tíma.

Þegar grein­in í Þjóðmál var skrifuð fyr­ir sex árum, voru aðstæður allt aðrar en í dag, jafnt í stjórn­mál­um sem efna­hags­mál­um. Vinstri stjórn­in sem var við völd var staðráðin í að um­bylta ís­lensku sam­fé­lagi og það var sótt sér­stak­lega að millistétt­inni. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafði að nokkru náð aft­ur vopn­um sín­um í öfl­ugri stjórn­ar­and­stöðu en ekki tek­ist að end­ur­heimta póli­tískt sjálfs­traust sem fæst með öfl­ugri hug­mynda­bar­áttu. Ég hélt því fram að á ár­un­um fyr­ir hrun fjár­mála­kerf­is­ins hefði flokk­ur­inn orðið sinnu­laus, hætt að tefla fram hug­mynd­um. Við sjálf­stæðis­menn hefðum misst þrótt­inn til að móta nýj­ar hug­mynd­ir. En verst hafi verið að við vor­um til­bú­in til að samþykkja í stað þess að gagn­rýna. Aðferðafræði tæknikrata náði yf­ir­hönd­inni. Hug­mynda­fræðileg bar­átta varð und­ir og þess í stað var sest niður, mál­in rædd yfir teikni­borði tæknikrat­ans og kom­ist að niður­stöðu á grund­velli sam­fé­lags­verk­fræði, hags­muna­mats og hag­kvæmni.

Gam­alt kjör­orð og ný rík­is­stjórn

Ég var (og er enn) sann­færður um að nauðsyn­legt væri fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að segja tækni­leg­um krat­isma stríð á hend­ur og taka völd­in af sam­fé­lags­verk­fræðing­um. Hefja hug­mynda­fræðilega bar­áttu aft­ur til vegs og virðing­ar, berj­ast fyr­ir heil­brigðu þjóðfé­lagi und­ir gömlu kjör­orði okk­ar – Gjör rétt, þol ei órétt – sem vís­ar til þess að við vilj­um að sann­girni og virðing sé í öll­um sam­skipt­um.

Hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins er að taka málstað kaup­manns­ins á horn­inu, dugnaðarforks­ins sem hef­ur komið á fót litlu iðnfyr­ir­tæki, fram­taks­manns­ins sem hef­ur lagt allt und­ir við að byggja upp þjón­ustu við ferðamenn, hug­vits­manns­ins sem býður nýj­ar og betri lausn­ir. „Gjör rétt, þol ei órétt, vís­ar til þess að við sjálf­stæðis­menn vilj­um byggja upp frjálst viðskipta­líf þar sem heiðarleg og sann­gjörn sam­keppni fær að njóta sín,“ sagði í Þjóðmála­grein­inni og nokkru síðar:

„Gjör rétt, þol ei órétt, vís­ar ekki aðeins til þess lof­orðs okk­ar sjálf­stæðismanna að tryggja hér heil­brigt og kraft­mikið at­vinnu­líf. Þetta er lof­orð um að tryggja sam­fé­lag sam­hjálp­ar og ná­ungakær­leika. Sam­fé­lag þar sem þeir sem minnst mega sín eiga öfl­uga tals­menn – harða bar­áttu­menn fyr­ir vel­ferðarþjóðfé­lagi sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn átti öðrum frem­ur þátt í að byggja upp. En um leið vilj­um við koma bönd­um á ríkið og hið op­in­bera. Við sjálf­stæðis­menn eig­um aldrei að sætta okk­ur við þann órétt að hið op­in­bera seil­ist æ dýpra í vasa skatt­greiðenda.“

Þegar þetta er ritað ligg­ur fyr­ir ein­læg­ur ásetn­ing­ur for­ystu­manna Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks að mynda nýja rík­is­stjórn. Síðar í dag munu flokks­stofn­an­ir fara yfir mál­efna­samn­ing og verka­skipt­ingu flokk­anna.

Fyr­ir okk­ur Sjálf­stæðis­menn skipt­ir mestu að störf og stefna nýrr­ar rík­is­stjórn­ar taki mið af ein­kunn­ar­orðum flokks­ins. Að rík­is­stjórn­in verði rík­is­stjórn hins venju­lega Íslend­ings – kenn­ar­ans, sjó­manns­ins, bónd­ans, iðnaðar­manns­ins, verka­kon­unn­ar, hjúkr­un­ar­fræðings­ins, litla at­vinnu­rek­and­ans. Að bak­bein ís­lensks sam­fé­lags – millistétt­in – skynji að rík­is­stjórn­in ætl­ar að standa vörð um lífs­kjör og sækja fram. Við þurf­um að sann­fær­ast um að með þátt­töku í rík­is­stjórn náum við ár­angri og höf­um tæki­færi til að tryggja fram­gang hug­sjóna okk­ar.

Share