Ó, þetta er indælt (nútíma)-frjálslyndi

For­ystu­menn þriggja flokka, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Viðreisn­ar, komu sam­an til fund­ar síðastliðinn föstu­dag til að kanna grund­völl þess að flokk­arn­ir taki hönd­um sam­an í rík­is­stjórn og til vara í stjórn­ar­and­stöðu. Logi Már Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, full­yrti í sam­tali við mbl.is að á þess­um „þriggja flokka fundi voru kom­in sam­an frjáls­lyndu öfl­in í ís­lensk­um stjórn­mál­um“.

Í kokka­bók­um for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar eru því aðeins þrír flokk­ar af átta, sem eiga full­trúa á Alþingi, frjáls­lynd­ir. Sam­an­lagt fylgi hinna „frjáls­lyndu“ afla er aðeins 28% sem er litlu meira en fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins. Í viðtali við Vísi full­yrti Logi Már að flokk­arn­ir ættu það all­ir sam­eig­in­legt að líta til framtíðar fyr­ir utan að vera frjáls­lynd­ir.

Fund­ur þríflokks­ins var hald­inn til að fá vinstri græna og fram­sókn­ar­menn til að reyna aft­ur mynd­un vinstri­stjórn­ar. Þá þegar hafði Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, til­kynnt að flokk­ur­inn setti ekki þjóðar­at­kvæðagreiðslu um Evr­ópu­sam­bandið sem skil­yrði fyr­ir þátt­töku í rík­is­stjórn. Yf­ir­lýs­ing­in er lík­lega í takt við frjáls­lyndi flokks sem var stofnaður til að berj­ast fyr­ir aðild Íslands að ríkja­banda­lagi. ESB-sinn­ar í Sjálf­stæðis­flokkn­um stofnuðu Viðreisn vegna þess að rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks efndi ekki til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um áfram­hald á aðild­ar­viðræðum. Helsti hug­mynda­fræðing­ur Viðreisn­ar og fyrr­ver­andi formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sakaði gamla fé­laga sína í Sjálf­stæðis­flokkn­um um „ein stærstu svik sem gerð hafa verið í ís­lensk­um stjórn­mál­um“ ef ekki yrði af þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Engu skipti þótt lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hefði í aðdrag­anda kosn­inga 2013 samþykkt skýra álykt­un um að aðild­ar­viðræðunum við ESB skyldi hætt og þær ekki hafn­ar að nýju nema með samþykki þjóðar­inn­ar.

Nokkr­um dög­um áður en Viðreisn pakkaði sam­an sínu helsta bar­áttu­máli niður í skúffu lýsti Logi Már Ein­ars­son því yfir að Sam­fylk­ing­in setti það held­ur ekki sem skil­yrði að þjóðar­at­kvæðagreiðsla yrði hald­in. „Nei, við setj­um ekki bein­lín­is skil­yrði, við mun­um auðvitað setja á dag­skrá gott sam­starf við Evr­ópu­sam­bandið,“ sagði hann í viðtali við frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins, áður en gerð var form­leg til­raun til að koma á lagg­irn­ar vinstri­stjórn. Sú til­raun mistókst.

ESB-flokk­arn­ir tveir, sem vilja svo gjarn­an kenna sig við frjáls­lyndi, eru þannig reiðubún­ir til að fórna helsta bar­áttu­mál­inu fyr­ir sæti við rík­is­stjórn­ar­borðið. Ásak­an­ir um „stærstu svik“ í ís­lensk­um stjórn­mál­um hljómuðu af minna til­efni.

Merk­ing­ar­laus­ir merkimiðar

Frjáls­lynd­ir, víðsýn­ir og umb­urðarlynd­ir. Þrjú já­kvæð orð sem stjórn­mála­menn eru gjarn­ir að skreyta sig með. Merk­ing orðanna er hins veg­ar litlu meiri eða dýpri en inni­halds­laus­ir fras­ar sem hafa tekið yfir póli­tíska orðræðu.

Þeir sem eru dug­mest­ir við að kenna sig við umb­urðarlyndi eru oft­ar en ekki fremst­ir í flokki þeirra sem ráðast á þá sem eru á önd­verðum meiði – setja fram aðrar skoðanir en þær sem eru hinum umb­urðarlyndu þókn­an­leg­ar. Í víðsýni og hleypi­dóma­leysi eru póli­tísk­ir and­stæðing­ar brenni­merkt­ir. Sam­starf er úti­lokað við stjórn­mála­flokka sem njóta stuðnings tuga þúsunda kjós­enda, jafn­vel marg­falt fleiri en styðja þá sem kalla sig umb­urðarlynda. Umb­urðarlyndi er gagn­vart þeim sem eru sömu skoðunar – „rang­ar skoðanir“ njóta hvorki skiln­ings né þol­in­mæði.

Þannig hef­ur merk­ingu orða verið snúið á haus.

Frjáls­lynd­ur stjórn­mála­maður berst ekki leng­ur fyr­ir rétt­ind­um ein­stak­linga og auknu at­hafna­frelsi. Ný-frjáls­lyndi er lítið annað en fal­leg­ur bún­ing­ur stjórn­lynd­is.

Und­ir gunn­fána frjáls­lynd­is á að seil­ast dýpra í vasa skatt­greiðenda og út­deilda pen­ing­um. Að auka um­svif hins op­in­bera og taka sí­fellt stærri hluta tekna launa­fólks er merki um nú­tíma­lega frjáls­lynda hug­mynda­fræði.

Tals­menn bákns­ins

Þeir dag­ar eru liðnir þegar frjáls­lynd­ir stjórn­mála­menn tóku sér stöðu við hlið sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans – börðust fyr­ir auknu at­hafna­frelsi og ein­földu reglu­verki. Ný-frjáls­lyndi kall­ar á að frelsi sé tak­markað með fjölþætt­um lög­um og regl­um. Nú­tíma­leg­ir frjáls­lynd­ir stjórn­mála­menn eru sann­færðir um nauðsyn þess að byggja upp öfl­ugt eft­ir­lits­bákn með til­heyr­andi gjöld­um á at­vinnu­lífið. Fram­taks­mönn­um er gert erfiðara fyr­ir og stór­fyr­ir­tæk­in lifa góðu lífi í skjóli bákns­ins og sí­fellt flókn­ari leik­reglna.

Við sem vilj­um brjóta upp kerfið, ein­falda reglu­verkið og styðja við fram­taks­mann­inn – sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ann – erum sagðir til­heyra kerf­is­flokki. Þeir sem eru mest upp­tekn­ir af því að fá viður­kenn­ingu fyr­ir frjáls­lyndi og boða í tíma og ótíma kerf­is­breyt­ing­ar eru í raun helstu tals­menn bákns­ins.

Nú­tíma­legt frjáls­lyndi neit­ar að eiga sam­leið með þeim sem vilja auka frelsi ein­stak­linga og tak­marka af­skipti rík­is­ins.

Æðsta stig nú­tíma frjáls­lynd­is (því ekki má vera gam­aldags) er að berj­ast fyr­ir aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu og leggja áherslu á þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­viðræður fyr­ir kosn­ing­ar. Í anda ný-frjáls­lynd­is er hins veg­ar eðli­legt að leggja kosn­inga­mál­in til hliðar að lokn­um kosn­ing­um til að gera leiðina inn í rík­is­stjórn greiðari. Slíkt er merki um umb­urðarlyndi og víðsýni.

Stjórn­mála­menn sem berj­ast fyr­ir frjáls­um og opum alþjóðaviðskipt­um geta ekki leng­ur kennt sig við frjáls­lyndi. Að standa vörð um rétt þjóðar að gera sjálf­stæða samn­inga um opin viðskipti við lönd, sem standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins, er ekki í takt við ný­tísku­legt frjáls­lyndi. Af­nám tolla og al­mennra vöru­gjalda, sem ýtt hef­ur und­ir auk­in alþjóðleg viðskipti, lækkað vöru­verð og inn­leitt aukna sam­keppni í smá­sölu er sam­kvæmt skil­grein­ingu nú­tíma­stjórn­mála­manna aðeins aðferðafræði gam­aldags frjáls­lynd­is.

Share