Framtaksmaðurinn – sjálfstæði atvinnurekandinn – í öndvegi

Hvað eiga fram­taksmaður­inn, frum­kvöðull­inn og sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn sam­eig­in­legt? Þeir eru all­ir drif­kraft­ar efna­hags­lífs­ins, aflvaki fram­fara og bættra lífs­kjara. Oft­ar en ekki sam­ein­ast þeir all­ir í ein­um og sama ein­stak­lingn­um. Með nýrri hugs­un kem­ur hann auga á tæki­fær­in og með nýj­um aðferðum býður hann nýja vöru og þjón­ustu, skap­ar störf og eyk­ur lífs­gæði al­menn­ings með bein­um og óbein­um hætti.

Þjóðfé­lög sem ýta und­ir sjálf­stætt fram­tak ein­stak­linga, með hag­stæðri um­gjörð skatta, ein­földu reglu­verki og þrótt­miklu mennta­kerfi, eru sam­fé­lög vel­meg­un­ar og vel­ferðar. Það er því ein af frum­skyld­um stjórn­valda á hverj­um tíma að huga vel að um­hverfi sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans – tryggja að til sé frjór jarðveg­ur svo frum­kvöðull­inn þríf­ist og dafni.

Flest­ir sem hafa komið að rekstri fyr­ir­tækja hafa kynnst flóknu kerfi hins op­in­bera og íþyngj­andi regl­um. Í stað þess að styðja við sjálf­stæðan at­vinnu­rekst­ur hef­ur báknið komið upp hindr­un­um í formi hárra skatta og op­in­bers eft­ir­lits með til­heyr­andi gjöld­um. Þannig er dregið úr fram­taks­semi. Dregið er úr virkri sam­keppni með því að fram­taks­mönn­um er gert erfiðara fyr­ir að hasla sér völl þar sem stór­fyr­ir­tæki eru fyr­ir. Báknið verður vörn hinna stóru. At­vinnu­lífið verður fá­breytt­ara og af­leiðing­in er stöðnun. Neyt­end­ur og þjóðfé­lagið allt bera kostnaðinn.

End­ur­skoðun nauðsyn­leg

Þegar þetta er skrifað ligg­ur ekk­ert fyr­ir um nýja rík­is­stjórn. „Stóru mál­in“ svo­kölluðu eru viðfangs­efni þeirra stjórn­mála­flokka sem reynt hafa og munu reyna mynd­un rík­is­stjórn­ar; heil­brigðismál, mennta­kerfið, sam­göng­ur. Upp­bygg­ing og nauðsyn­leg innviðafjár­fest­ing hljóm­ar í öll­um frétta­tím­um. Verið er að velta fyr­ir sér „tekju­grunni“ rík­is­sjóðs (hækk­un skatta) og hvernig hægt er að styrkja hag aldraðra og ör­yrkja. Minna er rætt um starfs­um­hverfi fyr­ir­tækja. Hug­mynd­ir um hvernig sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins verði auk­in eru ekki áber­andi. Hvernig byggt er und­ir ein­yrkja, sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­ur og frum­kvöðlana virðist ekki vekja mik­inn áhuga stjórn­mála­manna og enn síður fjöl­miðla.

Ný rík­is­stjórn, sem ætl­ar að tjalda til lengri tíma en einn­ar næt­ur, kemst hins veg­ar ekki hjá því að end­ur­skoða sí­fellt flókn­ara reglu­verk at­vinnu­lífs­ins. Mark­miðið er að gera það ein­fald­ara að stunda at­vinnu­rekst­ur, búa til frjó­an jarðveg fyr­ir ný fyr­ir­tæki sem leggja grunn að bætt­um lífs­kjör­um og störf­um framtíðar­inn­ar. Verk­efn­in eru mörg, sum eru flók­in en önn­ur ein­föld. Tón­inn við end­ur­skoðun­ina er hægt að slá með því að end­ur­skoða trygg­inga­gjaldið.

Þung­ur baggi

Trygg­inga­gjaldið er þung­ur baggi á at­vinnu­rekst­ur. Gjaldið vinn­ur sér­stak­lega gegn litl­um fyr­ir­tækj­um og get­ur hamlað mögu­leik­um þeirra til vaxt­ar. Halda má því fram að 15 manna fyr­ir­tæki sé í raun með sextánda starfs­mann­inn (skatt­mann) á launa­skrá.

Ég hef ít­rekað haldið því fram að skatt­ar á launa­greiðslur séu vond aðgerð við að fjár­magna út­gjöld rík­is­ins. Dregið er úr um­svif­um fyr­ir­tækja, laun starfs­manna verða lægri og störf­in færri. Tekju­skatt­ur fyr­ir­tækja verður lægri og hið sama á við um tekju­skatt ein­stak­linga. Útsvar­s­tekj­ur sveit­ar­fé­laga verða einnig lægri en ella.

Í mars síðastliðnum benti Bene­dikt Jó­hann­es­son fjár­málaráðherra á at­hygl­is­verða staðreynd, sem skoðun á heild­arálög­um fyr­ir­tækja árið 2016, leiddi í ljós: Trygg­inga­gjaldið er meira en 90% álagðra gjalda hjá minnstu fyr­ir­tækj­un­um. Hlut­fallið lækk­ar niður í 40% hjá stærsta tí­und­ar­hluta ís­lenskra fyr­ir­tækja.

Í svari við fyr­ir­spurn um trygg­inga­gjaldið tók ráðherra fram að of­an­greind­ur mæli­kv­arði væri ekki ein­hlít­ur en gæfi ákveðna vís­bend­ingu: „Þegar rýnt er nán­ar í árs­reikn­ing ein­stakra fyr­ir­tækja sést að hjá smærri fyr­ir­tækj­un­um er launa­kostnaður­inn lang­stærsti kostnaðarliður­inn, en hjá þeim stærri veg­ur ann­ar rekstr­ar­kostnaður, eins og stjórn­ar­kostnaður, markaðs- og aug­lýs­inga­kostnaður og ýmis skrif­stofu­kostnaður, hlut­falls­lega mun þyngra en laun­in.“

Mik­il­væg­ur tekju­stofn

Árið 2000 var trygg­inga­gjaldið 5,23% en fór hæst í 8,65% árið 2010 í vinstri stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri grænna. Á síðustu árum hef­ur tek­ist að lækka gjaldið sem er nú 6,85%. Trygg­inga­gjaldið er mik­il­væg­ari skatt­stofn fyr­ir rík­is­sjóð en tekju­skatt­ur fyr­ir­tækja. Sem hlut­fall af heild­ar­tekj­um var gjaldið 11,4% á síðasta ári. Alda­móta­árið var hlut­deild þess 8,8%.

Um alda­mót­in var trygg­inga­gjaldið sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu um 2,8%. Á síðasta ári var hlut­fallið rétt um 3,5% en í heild skilaði trygg­inga­gjaldið 85,4 millj­örðum króna í rík­iskass­ann. Í frum­varpi til fjár­laga 2018, sem lagt var fram í sept­em­ber (og ekki var af­greitt), er áætlað að tekj­ur rík­is­ins af trygg­inga­gjaldi nemi 99,5 millj­örðum eða liðlega 3,6% af áætlaðri lands­fram­leiðslu á kom­andi ári. Ef hlut­fallið yrði það sama og á síðasta ári yrði að lækka gjaldið um nær 4,3 millj­arða króna. Ef gengið væri út frá því að hlut­fall trygg­inga­gjalds­ins af lands­fram­leiðslu væri það sama á kom­andi ári og alda­móta­árið, yrðu tekj­ur rík­is­ins 76,4 millj­arðar eða 23 millj­örðum lægri en gengið var út frá í frum­varp­inu.

En jafn­vel þótt trygg­inga­gjaldið sé mik­il­væg­ur tekju­stofn verður ekki hjá því kom­ist að end­ur­skoða gjaldið. Raun­ar hafa flest­ir stjórn­mála­flokk­ar sýnt því skiln­ing og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur heitið því að halda áfram að lækka gjaldið, fái hann til þess stuðning. Ein­föld lækk­un er nauðsyn­leg en það verður einnig að skoða hvort rétt sé og skyn­sam­legt að breyta álagn­ingu þess og taka meira mið af því hve vægi þess í heild­arálagn­ingu op­in­berra gjalda er mis­jafnt eft­ir eðli og stærð fyr­ir­tækja. Til­gang­ur­inn er að styðja við frum­kvæði og virkja kraft ný­sköp­un­ar.

Það væri ekki ónýtt fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf til langr­ar framtíðar ef ný rík­is­stjórn tæki af­stöðu með sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­an­um, frum­kvöðlin­um og fram­taks­mann­in­um á næstu fjór­um árum.

Share