Skattgreiðandinn á ekki marga vini

Við af­greiðslu fjár­laga fyr­ir yf­ir­stand­andi ár kom ber­lega í ljós að al­menn­ing­ur – skatt­greiðend­ur – á ekki marga vini á Alþingi. Aðstæður voru í flestu óvenju­leg­ar. Ekki hafði tek­ist að mynda rík­is­stjórn eft­ir kosn­ing­arn­ar í lok októ­ber og reyndi tölu­vert á sam­starfs­vilja þing­manna. Að óbreytt­um lög­um var ljóst að tekju­skatt­ur al­menn­ings myndi lækka á nýju ári, milliþrepið falla niður og lægra þrepið lækka enn frek­ar.

Í aðdrag­anda kosn­inga 28. októ­ber næst­kom­andi hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn gefið fyr­ir­heit um að lækka tekju­skatt ein­stak­linga í 35%. Frá 2013, þegar Bjarni Bene­dikts­son sett­ist í stól fjár­málaráðherra, hef­ur tekju­skatt­ur ein­stak­linga verið lækkaður veru­lega.

Vinstri græn­ir boða gríðarleg­ar hækk­an­ir skatta, eins og ég hef áður vakið at­hygli á hér á þess­um stað. Í þeim efn­um hafa þeir vinn­ing­inn í harðri sam­keppni við Sam­fylk­ing­una. Vinstri græn­ir forðast hins veg­ar eins og heit­an eld­inn að upp­lýsa kjós­end­ur um hvernig ætl­un­in er að standa að skatta­hækk­un­um.

Í liðinni viku rifjaði ég upp hvernig skatt­kerf­inu var um­bylt í tíð vinstri stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar og Vinstri grænna 2009 til 2013. Vinstri græn­ir töldu sig hafa unnið sinn stærsta hug­mynda­fræðilega sig­ur og ætla sér enn stærri sigra í anda „you-ain’t-seen-not­hing-yet“ að lokn­um kosn­ing­um.

Meiri­hluti fyr­ir skatta­hækk­un­um

Í des­em­ber síðastliðnum lögðu Vinstri græn­ir fram rót­tæk­ar til­lög­ur um hækk­un skatta. Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður flokks­ins, var flutn­ings­maður. Þar var lagt til að hætt yrði við að fella niður milliþrep í tekju­skatti ein­stak­linga, eign­ar­skatt­ur yrði lagður á að nýju, kol­efn­is­gjöld hækkuð og syk­ur­skatt­ur lagður á. Þá vildu Vinstri græn­ir inn­leiða þrepa­skipt­an fjár­magn­s­tekju­skatt með 20% og 25% þrep­um.

Pírat­ar gáfu lítið eft­ir í skatta­mál­um. Smári McCart­hy vildi hætta við eða fresta niður­fell­ingu milliþreps og lækk­un skatt­pró­sentu í neðsta þrep­inu.

Hug­mynda­fræði Vinstri grænna og Pírata í skatta­mál­um mætti góðum skiln­ingi hjá tals­mönn­um annarra flokka en Sjálf­stæðis­flokks­ins. Bene­dikt Jó­hann­es­son, þáver­andi formaður Viðreisn­ar, til­kynnti að hann og fé­lag­ar hans myndu greiða at­kvæði gegn breyt­inga­til­lög­um Katrín­ar Jak­obs­dótt­ir, þar sem þær væru viðamikl­ar og mik­il­vægt væri að þær fengju um­fjöll­un í nefnd­um, en til þess hefði ekki unn­ist tími. Hann tók hins veg­ar fram að þessi afstaða þing­manna Viðreisn­ar segði „þó ekk­ert um af­stöðu þing­flokks­ins til ákveðinna þátta, held­ur erum við hér að mót­mæla þess­um vinnu­brögðum“.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og þá starf­andi for­sæt­is­ráðherra, var ekki frá­hverf­ur hærri skött­um og gjöld­um. Tíma­pressa virt­ist helst standa í vegi fyr­ir því að Fram­sókn­ar­menn legðu Vinstri græn­um lið, en Katrín lagði breyt­ing­ar­til­lög­urn­ar fram 21. des­em­ber. Til­lög­urn­ar væru „sum­ar hverj­ar ágæt­ar, sem við Fram­sókn­ar­menn aðhyll­umst mjög“. Ótt­arr Proppé, formaður Bjartr­ar framtíðar, tók svipaða af­stöðu. Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar, lýsti yfir stuðningi við eign­ar­skatt­inn og sagði rétt að „breiðu bök­in“ bæru þyngri byrðar. Hann kvartaði hins veg­ar yfir því að til­lög­ur Vinstri grænna ætti eft­ir að út­færa. Vegna þessa sátu Sam­fylk­ing­ar hjá.

Það er í raun merki­legt að tek­ist hafi að af­nema milliþrepið, lækka lægra þrepið og um leið koma í veg fyr­ir hækk­un annarra skatta. Yf­ir­lýs­ing­ar flestra for­ystu­manna þeirra stjórn­mála­flokka sem eiga sæti á Alþingi gáfu ekki til­efni til bjart­sýni.

Löng­un í hærri skatta

Auðvitað kem­ur það eng­um á óvart að vinst­ris­innaðir stjórn­mála­menn séu í hjarta sínu á móti því að skatt­ar séu lækkaðir. Löng­un þeirra stend­ur til þess að seil­ast dýpra í vasa skatt­greiðenda. Lægri skatt­ar eru í huga vinstri manna „af­sal“ rík­is­ins á tekj­um. Þeir eru áhuga­sam­ari um að auka milli­færsl­ur og flækja skatt­kerfið með háum jaðarskött­um. Slíkt kerfi trygg­ir að meðalmaður­inn öðlast aldrei skiln­ing á rétti sín­um. Tor­skilið milli­færslu­kerfi með margþrepa tekju­skatti og jaðarskött­um, fel­ur skatta­hækk­an­ir ágæt­lega og varn­ir skatt­greiðenda gegn aukn­um álög­um hverfa hægt og bít­andi.

Rök­semd­ir vinstri manna gegn lækk­un skatta eru marg­vís­leg­ar allt eft­ir hent­ug­leik­um. Skatta­lækk­un er aðeins fyr­ir þá efna­meiri, lækk­un er á röng­um tíma og gerð með röng­um hætti, skatta­lækk­un veld­ur ofþenslu (enda verja stjórn­mála-/​emb­ætt­is­menn fjár­mun­um með skyn­sam­legri hætti en ein­stak­ling­ar), lægri skatt­ar vega að rót­um vel­ferðar­kerf­is­ins og skatta­lækk­un er í raun skatta­hækk­un því tekj­ur rík­is­ins hafa auk­ist við fyrri skatta­lækk­an­ir.

Rök­semd­irn­ar eru marg­ar og marg­breyti­leg­ar eft­ir aðstæðum. Það er sem sagt aldrei rétt að lækka álög­ur á al­menn­ing.

Sí­breyti­leg­ar leik­regl­ur

Á ár­un­um 2008 til 2015 voru gerðar 176 breyt­ing­ar á skatt­kerf­inu. Meg­inþorri breyt­ing­anna voru skatta­hækk­an­ir eða 132 en 44 skatta­lækk­an­ir voru gerðar og þær voru flest­ar á ár­inu 2014, und­ir for­ystu Bjarna Bene­dikts­son­ar sem fjár­málaráðherra.

Ef marka má skoðanakann­an­ir eru meiri lík­ur en minni á því að vinstri stjórn taki við völd­um að lokn­um kosn­ing­um. Þá geta lands­menn gengið að því vísu að skatt­ar og aðrar álög­ur munu hækka á nýju ári. Breyt­ing­ar á skatta­lög­um verða í for­gangi um leið og öðrum leik­regl­um sam­fé­lags­ins verður breytt. Sótt verður að fyr­ir­tækj­um og ekki síður að millistétt­inni. Eldri borg­ar­ar verða enn á ný skot­skífa skatt­manns. Af­leiðing­arn­ar eru okk­ur öll­um kunn­ar.

Gegn þessu stend­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að því er virðist einn.

Share