Á flótta undan 334 milljörðum

Katrín Jak­obs­dótt­ir og Vinstri græn­ir eru á harðahlaup­um und­an eig­in stefnu í skatta­mál­um. Þetta kom vel í ljós í leiðtogaum­ræðum í Rík­is­sjón­varp­inu síðastliðið sunnu­dags­kvöld (8. október).

Í maí var ljóst að VG vildi breyta fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára og auka skatt­heimtu um alls 334 millj­arða eða nær eina millj­ón á hvert manns­barn. Um leið var stefn­an sett á að auka út­gjöld rík­is­sjóðs um 295 millj­arða. Í umræðum á þingi um fjár­mála­áætl­un fór ekk­ert á milli mála. Vinstri græn­ir vildu stór­hækka skatta og auka út­gjöld gríðarlega.

Í aðdrag­anda kosn­inga vill formaður Vinstri grænna sem minnst ræða um skatta­hug­mynd­ir flokks­ins og gef­ur út þá yf­ir­lýs­ingu að skatt­ar verði ekki hækkaðir á al­menn­ing en það verði „hliðrað“ til í skatt­kerf­inu. Það er erfitt að fá út­skýr­ing­ar á því í hverju „hliðrun­in“ er fólg­in og hvernig eigi að afla auk­inna skatt­tekna.

Bjarna Bene­dikts­syni, for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins, varð lítið ágengt þegar hann gekk á eft­ir svör­um. Hann benti á að Vinstri græn­ir vildu fara „í 53 millj­arða tekjuráðstaf­an­ir á næsta ári sem myndu síðan vaxa upp í 75 millj­arða á ári“. Þetta er álíka mikið og öll fyr­ir­tæk­in á land­inu borga á ári í tekju­skatt.

Svör Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur gerðu lítið til að hjálpa kjós­end­um að átta sig hvernig sækja ætti aukn­ar tekj­ur:

„Já, já, við höf­um auðvitað sett fram hug­mynd­ir um það hvernig mætti afla þess­ara tekna með sann­gjarn­ari hætti en gert er und­ir þeirri stefnu sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur rekið, þannig að það legg­ist t.a.m. í gegn­um gjöld á auðlind­um, t.a.m. í gegn­um há­tekju­skatta eða ein­hvers­kon­ar stór­eigna­skatta – horf­um bara á mis­skipt­ing­una í ís­lensku sam­fé­lagi – það eru hér rík­ustu 10% sem eiga 2/​3 af öll­um eign­um. Við skul­um líka átta okk­ur á því að við þurf­um auðvitað að fara var­lega, það er eng­inn að tala hér um að ráðast í ein­hverja gríðarlega þenslu í rík­is­fjár­mál­um. Við erum að tala um það að horfa til lengri tíma.“

Í ljósi sög­unn­ar

Fyrst formaður Vinstri grænna vill ekki eða get­ur ekki gefið kjós­end­um skýra mynd af því hvað felst í áform­um flokks­ins í skatta­mál­um er aðeins ein leið til: Að leita aft­ur til sög­unn­ar.Árið 2008 var tekju­skatts­pró­sent­an 22,75% og meðal­útsvar 12,97%. Rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri grænna – „nor­ræna vel­ferðar­stjórn­in“ 2009-2013 – koll­varpaði kerf­inu, hækkaði skatt­pró­sent­ur og tók upp þrjú þrep. Árið 2013 var skatt­pró­sent­an í staðgreiðslu eft­ir­far­andi:

 • 22,90% af tekj­um 0 – 241.475 kr. + 14,42% meðal­útsvar: Alls 37,32%
 • 25,80% af tekj­um 241.476 – 739.509 kr. + 14,42% meðal­útsvar: Alls 40,22%
 • 31,80% af tekj­um yfir 739.509 kr. + 14,42% meðal­útsvar: Alls 46,22%

Þannig var tekju­skatt­s­kerfið gert flókn­ara og dýr­ara jafnt fyr­ir rík­is­sjóð sem skatt­greiðend­ur. Launa­fólk með meðal­tekj­ur var sér­stak­lega hart leikið.

List­inn er enn lengri

Ekki var það nægj­an­legt fyr­ir vinstri stjórn­ina að hækka tekju­skatt:

 • Heim­ild til frá­drátt­ar iðgjalda frá tekju­skatts­stofni vegna viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaðar var lækkuð um helm­ing; fór úr 4% í 2%.
 • Fjár­magn­s­tekju­skatt­ur ein­stak­linga var hækkaður í áföng­um árin 2010 og 2011, fyrst úr 10% í 18% og síðan í 20%.
 • Auðlegðarskatt­ur lagður á árið 2009 og átti að vera til þriggja ára. Skatt­ur­inn var í upp­hafi 1,25% á eign­ir ein­stak­linga yfir 90 millj­ón­ir króna að frá­dregn­um skuld­um en 120 millj­ón­ir hjá hjón­um/​sam­býl­is­fólki. Auðlegðarskatt­ur­inn var fram­lengd­ur til árs­loka 2014 og skatt­hlut­fallið hækkað í 1,50%. Frí­mörk eigna voru lækkuð úr 90 millj­ón­um í 75 millj­ón­ir hjá ein­stak­ling­um og úr 120 millj­ón­um í 100 millj­ón­ir hjá hjón­um. Nýtt þrep var inn­leitt þannig að á hreina eign ein­stak­lings um­fram 150 millj­ón­ir króna og hreina eign hjóna um­fram 200 millj­ón­ir leggst 2% skatt­ur.
 • Al­menna virðis­auka­skattþrepið var hækkað úr 24,5% í 25,5%.
 • Ol­íu­gjald var hækkað um 1,65 krón­ur á lítra og bens­íngjald hækkað um 2,5 krón­ur.
 • Bif­reiðagjöld voru hækkuð um 0,85 krón­ur fyr­ir hvert kíló af eig­in þyngd bif­reiðar allt að 1.000 kíló og um 1,15 krón­ur á hvert kíló af eig­in þyngd bif­reiðar um­fram það að 3.000 kg og um 2,82 kr. af hverju byrjuðu tonni af eig­in þyngd bif­reiðar um­fram 3.000 kg.
 • Hlut­fall erfðafjárskatts hækkaði úr 5% í 10% auk hækk­un­ar á fríeigna­mörk­um.

Auðvitað er of­an­greind­ur listi ekki tæm­andi og ógetið skatta­hækk­ana á fyr­ir­tæki. List­inn gef­ur hins veg­ar góða inn­sýn í það við hverju er að bú­ast ef vinstri stjórn tek­ur við völd­um að lokn­um kosn­ing­um. Ekki mun standa á Sam­fylk­ing­unni að tryggja fram­gang skatta­hækk­ana. Pírat­ar verða ör­ugg­lega til­bún­ir enda líta þeir á heim­ili og fyr­ir­tæki sem „hlaðborð“ fyr­ir rík­is­sjóð.

Hægt en ör­ugg­lega

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið í rík­is­stjórn frá 2013 og frá þeim tíma hafa verið tek­in mark­viss skref í átt að lægri skött­um. En verk­efn­inu er langt í frá lokið og enn er eft­ir að lag­færa margt í skatt­kerf­inu sem vinstri stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri grænna eyðilagði með nær 200 laga­breyt­ing­um. Skatt­ar á fyr­ir­tæki voru hækkaðir, skatt­ar á launa­fólk einnig og inn­leidd­ur margþrepa tekju­skatt­ur sem verst fór með millistétt­ina. Trygg­inga­gjaldið var hækkað í 7% og loks í 8,65%. Eldra fólk varð sér­stak­lega fyr­ir barðinu á því þegar lagður var á auðlegðarskatt­ur – eigna­upp­töku­skatt­ur – þar sem ein­stak­ling­ar urðu að sæta því að greiða jafn­vel hærri skatta en nam tekj­um. Auðlegðarskatt­ur­inn lagðist einnig þungt á sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­ur sem neydd­ust til að ganga veru­lega á eigið fé eða stofna til skulda til að standa und­ir skatt­greiðslum.For­ystu­menn stjórn­mála­flokka eru kannski ekki til­bún­ir til að leggja öll spil­in á borðið. Þeir koma sér und­an því að svara óþægi­leg­um spurn­ing­um, líkt og formaður Vinstri grænna síðastliðinn sunnu­dag um skatta. Sag­an kenn­ir hins veg­ar hvar kjós­end­ur hafa Vinstri græna líkt og sag­an sýn­ir hvernig Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill tryggja að hóf­semd­ar sé gætt í op­in­ber­um álög­um.

Það er vissu­lega hægt að gagn­rýna okk­ur í Sjálf­stæðis­flokkn­um fyr­ir að hafa ekki gengið rösk­leg­ar til verka, en gert hef­ur verið, við að létta álög­um af ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um. En margt hef­ur verið gert:

 • Neðra þrep tekju­skatts ein­stak­linga var lækkað.
 • Milliþrep tekju­skatts var af­numið.
 • Al­menn vöru­gjöld voru felld niður.
 • Efra þrep virðis­auka­skatts lækkaði úr 25,5% í 24%.
 • Toll­ar felld­ir niður af flest­um vör­um.
 • Trygg­inga­gjald lækkað úr 7,69% í 6,85%.
 • Skatta­afslátt­ur vegna hluta­bréfa­kaupa tengdra ný­sköp­un gef­inn.
 • Skatt­leysi sér­eign­ar­sparnaðar vegna íbúðakaupa.
 • Þak á kostnað sjúk­linga með greiðsluþátt­töku­kerfi.

Þegar litið er til reynsl­unn­ar eru þeir val­kost­ir sem kjós­end­ur standa frammi fyr­ir skýr­ir. Öllum er ljóst að skatt­ar og álög­ur hækka ef rík­is­stjórn vinstri flokk­anna tek­ur við völd­um að lokn­um kosn­ing­um. Eina fyr­ir­staðan er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn.

Share