Diego Delso, delso.photo, License CC-BY-SA

Erum við að pissa í sauðskinnsskóinn?

Hægt er að deila um margt þegar kem­ur að land­búnaði – ekki síst sauðfjár­rækt. Auðvelt er að gagn­rýna land­búnaðarráðherra fyr­ir að bregðast seint og illa við þegar for­ráðamenn bænda reyndu á fyrstu mánuðum árs­ins að vara við að al­var­leg­ir erfiðleik­ar væru framund­an í sauðfjár­rækt. Að sama skapi má færa fyr­ir því rök að til­lög­ur ráðherr­ans til lausn­ar vand­an­um séu gam­aldags og eigi frem­ur skylt við að pissa í skó­inn en að styrkja heil­brigðar und­ir­stöður byggðar og land­búnaðar. Afurðastöðvar, sem eru flest­ar í eigu bænda sjálfra, verða einnig að horf­ast í augu við gagn­rýni um að vöruþróun hafi ekki verið sinnt – að and­vara­leysi hafi valdið því að lamba­kjötið hafi orðið „und­ir“ í sam­keppni við annað kjöt. Bænd­ur þurfa að velta því fyr­ir sér hvernig standi á því að þeir hafi tekið þátt í því með stjórn­völd­um að byggja upp kerfi í sauðfjár­rækt, þar sem þeir njóta í litlu auk­inn­ar fram­leiðni og neyt­end­ur upp­lifa stöðnun. Það hef­ur tek­ist mun bet­ur til í mjólk­ur­fram­leiðslu og -iðnaði. Marg­ir í bænda­stétt hljóta að líta í eig­in barm og spyrja af hverju þeir hafa skil­greint sig sem launa­menn en ekki sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­ur sem eru burðarstólp­ar sinna sam­fé­laga. Þetta viðhorf hef­ur litað öll sam­skipti við stjórn­völd.

Um allt þetta og fleira er hægt að halda lang­ar ræður og deila lengi. En um eitt verður ekki deilt: Staða ís­lenskra sauðfjár­bænda er al­var­leg og marg­ir horfa fram á þrot – jafn­vel þeir bænd­ur sem eru til fyr­ir­mynd­ar og reka hag­kvæm­ustu búin kunna að neyðast til að bregða búi. Stoðir mann­lífs í mörg­um byggðum veikj­ast – jafn­vel hrynja. Vera kann að hug­mynd­ir um 20% fækk­un sauðfjár séu reist­ar á traust­um upp­lýs­ing­um en til­lög­ur ráðherra um hvernig þeirri fækk­un skuli náð fela í sér þá hættu að það verði frem­ur yngri bænd­ur en þeir eldri sem hætta sauðfjár­bú­skap, hag­kvæm­ari bú hætti en þau sem óhag­stæðari eru haldi áfram. Ekk­ert í til­lög­un­um gef­ur til­efni til þess að bænd­ur geti gert sér von­ir um að hag­ur þeirra batni á kom­andi árum.

Fari allt á versta veg eru lík­ur á því að sauðfjár­fram­leiðsla hér á landi verði óhag­kvæm­ari og dýr­ari en áður. All­ir tapa, neyt­end­ur jafnt sem bænd­ur, versl­un­in og slát­ur­leyf­is­haf­ar.

Staðið vörð um eig­in mat­væla­fram­leiðslu

All­ar sjálf­stæðar þjóðir standa vörð um eig­in mat­væla­fram­leiðslu, með ein­um eða öðrum hætti. Sag­an hef­ur kennt þjóðum heims þá hörðu lex­íu að tryggja nægj­an­legt fram­boð á mat­væl­um. Þetta á ekki aðeins við á tím­um ófriðar, held­ur einnig þegar glímt er við nátt­úru­ham­far­ir og efna­hags­leg­ar þreng­ing­ar, líkt við Íslend­ing­ar kynnt­umst ágæt­lega í kjöl­far fjár­málakrepp­unn­ar 2008. Í ná­inni framtíð verður það sam­eig­in­leg áskor­un okk­ar að tryggja ekki aðeins aðgang að mat­væl­um á hag­stæðu verði fyr­ir neyt­end­ur held­ur ekki síður að það sem er á boðstól­um stand­ist kröf­ur um heil­næmi, sem aft­ur mun hafa veru­leg áhrif á það hvernig okk­ur tekst að standa und­ir heil­brigðis­kerf­inu og fjár­mögn­un þess.

Kraf­an um frjáls­an inn­flutn­ing land­búnaðar­vara er eðli­leg en sú krafa verður að byggj­ast á þeim sann­gjörnu skil­yrðum að inn­lend­ir fram­leiðend­ur (bænd­ur) standi á jafn­ræðis­grunni gagn­vart er­lend­um aðilum. Þetta á t.d. við um niður­greiðslur í fram­leiðslu­land­inu, notk­un sýkla­lyfja, kröf­ur um aðbúnað dýra, nýt­ingu lands og kröf­ur um holl­ustu­hætti á öll­um stig­um fram­leiðslunn­ar. Að þessu leyti sker land­búnaður sig ekki frá öðrum at­vinnu­rekstri. Ein grunn­skylda stjórn­valda er að tryggja að ís­lensk fyr­ir­tæki standi jafn­fæt­is er­lend­um keppi­naut­um, hvort held­ur er á inn­an­lands­markaði eða á er­lend­um mörkuðum.

Alþing­is­mönn­um hafa und­an­farna daga borist fjöl­marg­ar álykt­an­ir sveit­ar­stjórna vegna hruns í af­komu sauðfjár­bænda. Þær álykt­an­ir og áhyggj­ur sem sveit­ar­stjórn­ar­menn láta þar í ljós eru til vitn­is um mik­il­vægi land­búnaðar, þá sér­stak­lega sauðfjár­rækt­ar­inn­ar, sem burðarás í byggðum um land allt. Það eru því al­manna­hags­mun­ir að þess­ari fornu at­vinnu­grein sé sköpuð heil­brigð og sterk um­gjörð.

Kjöt­fjallið verður bara stærra

Ég er sam­mála land­búnaðarráðherra í efa­semd­um um að rétt sé að inn­leiða svo­kallaða út­flutn­ings­skyldu. Hug­mynd­ir bænda og slát­ur­leyf­is­hafa um slíka skyldu, sem eru þó án nokk­urs kostnaðar fyr­ir rík­is­sjóð, eru óskyn­sam­leg­ar og kunna að reyn­ast skaðleg­ar fyr­ir bænd­ur ekki síður en neyt­end­ur. En að sam­keppn­is­lög komi í veg fyr­ir að bænd­ur og afurðastöðvar hafi sam­starf um markaðssetn­ingu á er­lend­um mörkuðum, er ekki til marks um að lög verndi ís­lenska neyt­end­ur, held­ur þvert á móti – þau leiða til hærra verðs og lak­ari gæða.

Hug­mynd­in um tíma­bundna sveiflu­jöfn­un til að tryggja nægj­an­legt fram­boð á inn­an­lands­markaði, er hins veg­ar skilj­an­leg við nú­ver­andi aðstæður. Hug­mynd­ir ráðherra um að greiða sér­stakt sláturálag á ær, auka enn vand­ann þar sem birgðir munu a.m.k. tvö­fald­ast. Með öðrum orðum – fækk­un sauðfjár mun eðli máls sam­kvæmt auka birgðavanda sem tek­ist hef­ur ágæt­lega að glíma við síðustu mánuði. Kjöt­fjallið verður stærra en við höf­um séð áður og ókleift ef ekki tekst að selja ær- og lamba­kjöt til annarra landa.

Heng­ingaról og fá­tækt­ar­gildra

Fyr­ir bænd­ur sem á und­an­förn­um árum hafa verið að hasla sér völl í sauðfjár­rækt og lagt allt sitt und­ir, er lítið í fyr­ir­liggj­andi til­lög­um sem gef­ur þeim von um að bjart­ari tím­ar séu framund­an. Það er eitt að ganga í gegn­um erfið ár en annað að sjá ekk­ert birta til í framtíðinni. Lækk­un ásetn­ings­hlut­falls skipt­ir auðvitað máli og létt­ir und­ir hjá mörg­um. Sér­stak­ar „greiðslur vegna kjara­skerðing­ar“ gera hins veg­ar lítið. End­ur­fjármögn­un og leng­ing lána breyt­ir engu ef af­kom­an breyt­ist ekki í framtíðinni – aðeins er lengt í heng­ingaról­inni. Sem sagt; við erum að pissa í skó­inn – sauðskinn­skó­inn að þessu sinni.

Ég ótt­ast að verið sé að leggja upp í veg­ferð sem get­ur endað illa. Verið sé að búa til fá­tækt­ar­gildr­ur til sveita í stað þess að styrkja stoðir und­ir sjálf­stæðan at­vinnu­rekst­ur.

Í byrj­un þessa árs tók gildi nýr bú­vöru­samn­ing­ur. Vandi sauðfjár­bænda verður ekki rak­inn til hans. En hitt virðist aug­ljóst að samn­ing­ur­inn er gallaður, þjón­ar hvorki bænd­um né neyt­end­um. Samn­ing­ur­inn býður ekki upp á mik­il tæki­færi fyr­ir bænd­ur til að byggja upp arðvæn­leg bú, sem þó ætti að vera keppikefli fyr­ir sam­fé­lagið. Stuðning­ur við bú­skap er í litlu bund­inn við hag­kvæmni, en ýtir und­ir aukna fram­leiðslu, óháð kostnaði, fram­legð og eft­ir­spurn.

Ég átti þess kost að sitja fjöl­menn­an fund hún­vetnskra og skag­firskra bænda á Blönduósi fyr­ir nokkru, þar sem fjallað var um vanda sauðfjár­bú­skap­ar. Umræður voru hrein­skiln­is­leg­ar og bænd­ur raun­særri en marg­ir aðrir sem standa frammi fyr­ir mikl­um erfiðleik­um. Það blas­ir við að sauðfjár­bænd­um fækk­ar á kom­andi árum, þó ekki væri nema vegna þess að ungt fólk tek­ur ekki við búrekstri og eldri bænd­ur hætta. Bænd­ur gera sér grein fyr­ir þessu bet­ur en aðrir. Þess­ar breyt­ing­ar skapa hins veg­ar tæki­færi til að auka hag­kvæmni enn frek­ar og styrkja fjár­hags­stöðu og af­komu þeirra bænda sem halda áfram bú­skap. Hag­kvæmni í sauðfjár­rækt fer hins veg­ar fyr­ir lítið ef hagræðing næst ekki við slátrun og úr­vinnslu afurðanna.

Til­lög­ur um nýtt kerfi

Því hef­ur verið haldið fram að það sé ekki skyn­sam­legt fyr­ir stjórn­mála­mann að koma fram með til­lög­ur í „heit­um póli­tísk­um mál­um“. En án hug­mynda kom­umst við ekk­ert áfram en spól­um í sama far­inu uns yfir lýk­ur.

Ég hef hægt og bít­andi kom­ist að þeirri niður­stöðu að rétt sé að inn­leiða kvóta­kerfi – bein­greiðslur – í sauðfjár­rækt, ekki ósvipað og gild­ir í mjólk­ur­fram­leiðslu. Aug­ljóst er að hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum og kjötvinnsl­um, sam­hliða öfl­ugri vöruþróun.

Rétt er að viður­kenna að hug­mynd­irn­ar eru ekki full­mótaðar og ekki er ég að finna upp hjólið. Mark­miðið er hins veg­ar skýrt; að skjóta styrk­ari stoðum und­ir land­búnaðinn og gera bænd­um kleift að horfa til langr­ar framtíðar, en ekki frá einni slát­urtíð til annarr­ar:

  • Sett er greiðslu­mark fyr­ir bein­greiðslur, þ.e. það heild­ar­magn fram­leiðslu sem rétt á á bein­greiðslum. Gæðastýr­inga­greiðslum er hætt. Bein­greiðslur miðast við ákveðið lág­marks­bú – a.m.k. 100 kind­ur og bundn­ar því skil­yrði að öll fram­leiðsla sé sam­kvæmt viður­kennd­um gæða stöðlum – m.a. er varðar vel­ferð dýra og ábyrga meðferð á landi, heil­næmi og heil­brigði fram­leiðslunn­ar.
  • Greiðslu­mark­inu er í upp­hafi skipt niður á ein­stök bú/​bænd­ur sam­kvæmt sann­gjarnri reglu (t.d. hlut­deild í fram­leiðslu und­an­geng­in þrjú ár).
  • Hand­haf­ar greiðslu­marks eiga rétt á bein­greiðslum á hverja ein­ingu fram­leiðslunn­ar upp að greiðslu­marki sínu.
  • Greiðslu­mark hvers árs er nokkuð und­ir áætlaðri inn­an­lands­eft­ir­spurn – t.d. 95%.
  • Fram­leiðsla um­fram greiðslu­mark er heim­il en nýt­ur ekki bein­greiðslna. Fyr­ir fram­leiðslu um­fram greiðslu­mark fá bænd­ur það verð sem slát­ur­leyf­is­haf­ar og/​eða aðrir kaup­end­ur eru til­bún­ir að greiða. Verðið verður því lægra sem meira er fram­leitt um­fram greiðslu­markið. Að sama skapi verður verðið hærra eft­ir því sem eft­ir­spurn er meiri, ekki síst ef vel tekst til á er­lend­um mörkuðum.
  • Greiðslu­mark bænda er fram­selj­an­legt bæði var­an­lega og til skamms tíma. Þá get­ur verið rétt að setja inn ákvæði um að eng­inn bóndi (sauðfjár­bú) geti farið yfir ákveðna hlut­deild af heild­ar­greiðslu­marki, (lík­lega und­ir 1%).
  • Kerfið er til langs tíma (15-25 ár).
  • Lögð er sú skylda á slát­ur­leyf­is­hafa að sjá um söfn­un og slátrun fyr­ir bænd­ur og miðist skyld­an a.m.k. við greiðslu­mark. (Svipuð skylda og í mjólk­inni en þarf að út­færa sam­hliða því sem unnið er að hagræðingu í slátrun.)

Sam­hliða kerf­is­breyt­ing­um í sauðfjár­rækt á að inn­leiða sér­staka aðlög­un­ar­samn­inga vegna nýrr­ar starf­semi til sveita. Með þeim verði rudd braut fyr­ir bænd­ur til að byggja upp nýja bú­grein eða hasla sér völl á öðrum sviðum. Aðlög­un­ar­samn­ing­ar til búhátta­breyt­inga og ný­sköp­un­ar, sem gerðir eru við ábú­end­ur jarða, eru til ákveðins ára­fjölda (5-7 ár) og háðir því skil­yrði að rekst­ur­inn tryggi byggðafestu og bú­setu á viðkom­andi jörð. Þá verði sér­stak­lega litið til þess með hvaða hætti bænd­ur hafi fjár­hags­leg­an hvata til að taka þátt í kol­efn­is­bind­ingu og öðrum verk­efn­um á sviði lofts­lags­mála og dragi úr þörf Íslend­inga til að kaupa los­un­ar­heim­ild­ir í gegn­um viðskipta­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins.

Share