Áskoranir ríkisstjórnar: Útgjaldavandi og nýting eigna

Fyrst, nokkr­ar tölu­leg­ar staðreynd­ir:

  • Skatt­tekj­ur rík­is­ins á síðasta ári voru nær 229 millj­örðum hærri að raun­v­irði en árið 2000.
  • Tekju­skatt­ur ein­stak­linga var liðlega 58 millj­örðum hærri 2016 en 2000 á föstu verðlagi.
  • Virðis­auka­skatt­ur skilaði rík­is­sjóði að raun­v­irði tæp­lega 48 millj­örðum meira í kass­ann á liðnu ári en alda­móta­árið.
  • Aðrar tekj­ur (vaxta­tekj­ur, arðgreiðslur, neyslu- og leyf­is­gjöld o.fl.) voru tæp­lega 27 millj­örðum hærri að raun­v­irði.
  • Vaxta­kostnaður rík­is­ins var 37 millj­örðum krón­um hærri 2016 en árið 2000 á föstu verðlagi. Þetta er svipuð fjár­hæð og rann til allr­ar heilsu­gæslu á land­inu á síðasta ári. Hækk­un­in jafn­gild­ir nær öll­um tekj­um rík­is­ins af fjár­magn­s­tekju­skatti.
  • Vaxta­kostnaður rík­is­sjóðs á síðasta ári nam rúm­um 70 millj­örðum króna eða 45,5% af tekju­skatti ein­stak­linga.
  • Gjöld rík­is­sjóðs fyr­ir utan vexti og sér­staka gjald­færslu líf­eyr­is­skuld­bind­inga, voru um 220 millj­örðum hærri að raun­v­irði á liðnu ári en sex­tán árum áður.

Þegar horft er á þess­ar tölu­legu upp­lýs­ing­ar er erfitt að halda því fram að rík­is­sjóður glími við tekju­vanda og því sé nauðsyn­legt að leita leiða til að auka tekj­urn­ar og ekki síst með aukn­um álög­um. Þvert á móti. Gríðarleg aukn­ing tekna það sem af er öld­inni er vís­bend­ing um að ríkið gæti slakað á skattaklónni, ef annað væri með felldu. Mik­il raun­aukn­ing út­gjalda, þung vaxta­byrði, ásamt sam­setn­ingu eigna og skulda, renna stoðum und­ir þá full­yrðingu að rekst­ur rík­is­ins sé óhag­kvæm­ari en áður – ekki sé verið að nýta sam­eig­in­lega fjár­muni lands­manna eins og best verður á kosið.

Að leysa vand­ann „þægi­lega“

Í þessu ljósi er und­ar­legt að hve mikl­um tíma fjár­veit­inga­valdið – Alþingi – ver á hverju ári í að gera breyt­ing­ar á ýms­um skött­um og gjöld­um, í stað þess að beina at­hygl­inni að því hvernig tekj­ur og eign­ir nýt­ast í sam­eig­in­leg verk­efni. Af­leiðing­in er sú að rík­is­rekst­ur­inn þenst út og verður óhag­kvæm­ari. Til að leysa vand­ann er „þægi­legra“ að grípa til ráðstaf­ana til að auka tekj­ur og halda áfram að nýta eign­ir með óarðbær­um hætti.

Í fé­lagi við Brynj­ar Ní­els­son og Har­ald Bene­dikts­son lagði ég í janú­ar síðastliðnum fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um sölu rík­is­eigna, lækk­un skulda rík­is­sjóðs og fjár­fest­ingu í innviðum. Til­lag­an náði ekki fram að ganga en í grein­ar­gerð var meðal ann­ars bent á að með nokk­urri ein­föld­un megi segja að Íslend­ing­ar standi frammi fyr­ir tveim­ur kost­um:

„Ann­ars veg­ar get­ur ríkið áfram átt fyr­ir­tæki, hús, jarðir og fleira og búið við þung­ar vaxta­greiðslur á kom­andi árum með til­heyr­andi lak­ari þjón­ustu og hærri skött­um. Hins veg­ar er hægt að selja hluta eigna rík­is­ins og greiða niður skuld­ir. Þar með lækka vaxta­greiðslur og fjár­mun­ina sem spar­ast má nýta til að byggja upp heil­brigðis-, mennta- og sam­göngu­kerfi og lækka skatta.“

Í grein­ar­gerðinni er því haldið fram að lækk­un skulda rík­is­ins sé eitt brýn­asta verk­efni sam­tím­ans og mik­il­væg for­senda bættra lífs­kjara. Það sé ekki eft­ir­sókn­ar­vert fyr­ir al­menn­ing að eiga hlut í bönk­um eða öðrum fyr­ir­tækj­um, í gegn­um sam­eig­in­legt eign­ar­hald rík­is­ins ef greitt er fyr­ir eign­ar­haldið í formi verri lífs­kjara, með hærri skött­um og verri þjón­ustu hins op­in­bera.

Umbreyt­ing eigna í sam­fé­lags­lega innviði

Ríkið hef­ur bundið hundruð millj­arða í ýms­um eign­um sem nýt­ast lítið eða ekki þegar kem­ur að grunn­skyld­um rík­is­ins; heil­brigðis­kerfi, al­manna­trygg­ing­um, sam­göng­um og lög­gæslu. Engu að síður á sér stað lít­il og mjög tak­mörkuð umræða um hvernig eign­ir nýt­ast lands­mönn­um best. Ég hef orðað þetta þannig að færa beri eigið fé sem er bundið í ákveðnum eign­um yfir í aðrar eign­ir sem við telj­um mik­il­væg­ari fyr­ir sam­fé­lagið. Þetta á t.d. við um Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar. En andstaðan er hörð við að losa gríðarlega fjár­muni sem eru fast­ir í flug­stöð og umbreyta í vegi, brýr, göng, hafn­ir og inn­an­lands­flug­velli.

Rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks náði mikl­um ár­angri við að lækka skuld­ir og skuld­bind­ing­ar rík­is­ins, og koma á jafn­vægi í rík­is­fjár­mál­um. En þrátt fyr­ir það er skuld­setn­ing mik­il og þung­ar vaxta­greiðslur á hverju ári hafa lam­andi áhrif á efna­hags­lífið, leiðir til hærri vaxta en ella og dreg­ur úr getu rík­is­ins til að veita þá þjón­ustu sem ætl­ast er til að það veiti. Á sama tíma og vaxta­greiðslur eru þriðji stærsti út­gjaldaliður rík­is­ins eru bundn­ir um og yfir 450 millj­arðar króna í fjár­mála­kerf­inu. Rík­is­rekstr­arsinn­ar mega ekki heyra á það minnst að það þjóni lands­mönn­um bet­ur að losa þessa fjár­muni, lækka skuld­ir og færa yfir í sam­fé­lags­lega innviði í heil­brigðis- og mennta­kerf­inu. Þeir láta sig hins veg­ar dreyma um eitt­hvað sem þeir kalla sam­fé­lags­banka.

Póli­tísk­ar og efna­hags­leg­ar ógöng­ur

Efna­hags­leg­ar aðstæður á Íslandi eru í flestu hag­stæðar. Reiknað er með að hag­vöxt­ur verði 6% á þessu ári og að vöxt­ur verði góður á því næsta. At­vinnu­leysi er hverf­andi eða 1% í júlí sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar. Hlut­fall at­vinnu­lausra hef­ur aldrei verið lægra frá því mæl­ing­ar hóf­ust árið 2003. Á tólf mánuðum til júlí síðastliðins hækkaði launa­vísi­tal­an um 7,2%. Á sama tíma var verðbólga hverf­andi. Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 1,8% en án hús­næðis lækkaði vísi­tal­an um 3,1%.

Hag­sæld­in er hins veg­ar ekki án áskor­ana. Kjara­samn­ing­ar verða ekki ein­fald­ir. Ekki er hægt að reikna með að ferðaþjón­ust­an verði sami aflvaki hag­vaxt­ar og hún hef­ur verið á síðustu árum. Ytra um­hverfi sjáv­ar­út­vegs er í mörgu óhag­stætt. Erfiðleik­ar í sauðfjár­rækt geta haft al­var­leg áhrif á fjöl­mörg byggðarlög. Nauðsyn­leg­ar og rétt­lát­ar breyt­ing­ar á trygg­inga­kerfi ör­yrkja hafa ekki verið gerðar og enn búa marg­ir eldri borg­ar­ar við þröng­an kost. Upp­bygg­ingu heil­brigðis­kerf­is­ins er langt í frá lokið. Öllum má vera ljóst að al­var­leg­ar brota­lam­ir eru í geðheil­brigðismál­um og rök standa til þess að upp­bygg­ing skóla­kerf­is­ins sé með þeim hætti að ungt fólk og sér­stak­lega dreng­ir, finni kröft­um sín­um ekki viðnám.

Rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Viðreisn­ar og Bjartr­ar framtíðar, stend­ur frammi fyr­ir þess­um áskor­un­um en auðvitað eru verk­efn­in fleiri.

Eft­ir tæp­an hálf­an mánuð kem­ur Alþingi sam­an. Við í þingliði rík­is­stjórn­ar­flokk­ana kom­umst ekki hjá því að hug­leiða og leita skýr­inga á því hvers vegna stuðning­ur við rík­is­stjórn­ina er ekki meiri en skoðanakann­an­ir benda til.

Sjálfsagt eru skýr­ing­arn­ar marg­ar og mis­mun­andi eft­ir stöðu hvers rík­is­stjórn­ar­flokks. En ætli ein­hver að finna viðspyrnu með aukn­um skött­um og þyngri álög­um á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki, mun viðkom­andi lenda í póli­tísk­um og efna­hags­leg­um ógöng­um.

Share