Brotinn pottur í Reykjavík

Rök standa til þess að fyr­ir­sögn­in sé röng eða að minnsta kosti vill­andi. Rétt­ara væri að skrifa und­ir orðunum „Marg­brotn­ir pott­ar í Reykja­vík“. Það skipt­ir litlu hvert litið er.

Ekki get­ur meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar kvartað yfir tekju­leysi til að sinna þeim verk­efn­um sem borg­ar­bú­ar eiga kröfu til að leyst séu með sóma­sam­leg­um hætti. Frá því að Dag­ur B. Eggerts­son tók við völd­um í Ráðhúsi Reykja­vík­ur árið 2010 – fyrst með Jón Gn­arr sér við hlið – hafa tekj­ur borg­ar­sjóðs hækkað um 27,4 millj­arða króna að raun­v­irði eða 37,5%. Með öðrum orðum: Tekj­ur borg­ar­sjóðs voru 224 þúsund krón­um hærri á hvern borg­ar­búa (allt frá ómálga börn­um til eldri borg­ara) á síðasta ári en 2010. Þetta jafn­gild­ir liðlega 896 þúsund krón­um á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu.

Hærri tekj­ur skila engu

Þessi mikla hækk­un tekna hef­ur skilað litlu í þjón­ustu við íbúa. Sam­göng­ur eru í ólestri, seina­gang­ur ein­kenn­ir stjórn­sýslu, skól­ar glíma við mann­eklu, þjón­usta við eldri borg­ara er skor­in niður, óstjórn ein­kenn­ir skipu­lags­mál með til­heyr­andi lóðaskorti, upp­lýs­ing­um er haldið frá borg­ar­bú­um og gam­alt slag­orð um að hrein borg sé fög­ur borg er fyr­ir löngu gleymt og grafið. Eng­inn ber ábyrgð – ekki kjörn­ir full­trú­ar og allra síst borg­ar­stjóri. Það verður stöðugt erfiðara að and­mæla Birni Bjarna­syni, fyrr­ver­andi ráðherra, sem seg­ir að á síðustu árum hafi borg­ar­stjórn­arembættið breyst í einskon­ar tertu­skraut. Borg­ar­stjóra fell­ur að minnsta kosti bet­ur að klippa á borða, láta taka mynd­ir af sér við dekkja­skipti, fella jóla­tré í Heiðmörk og mála stétt­ina fyr­ir fram­an Mennta­skól­ann í Reykja­vík en að sinna stjórn­sýslu borg­ar­inn­ar og axla ábyrgð á því hvernig til tekst og því sem úr­skeiðis fer.

Í lok síðasta árs námu heild­ar­skuld­ir A- og B-hluta borg­ar­sjóðs yfir 290 millj­örðum króna. Þetta jafn­gild­ir tæp­um 9,5 millj­ón­um króna á hverja fjöl­skyldu. Sem hlut­fall af heild­ar­tekj­um námu skuld­irn­ar 186,7%. Reykja­vík­ur­borg held­ur fjár­hags­legu sjálfræði í skjóli sér­staks bráðabirgðaákvæðis í sveit­ar­stjórn­ar­lög­um. Höfuðborg­in er eitt skuld­sett­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins.

Ræður ekki við ein­föld verk­efni

Þrátt fyr­ir veru­lega hækk­un tekna hef­ur borg­in ekki fjár­hags­lega burði til að tak­ast á við ein­föld verk­efni. Að fjar­lægja dekkjak­url af spar­kvöll­um var erfitt og kallað var eft­ir fjár­hags­legri aðstoð rík­is­ins. Ekki virðast vera mögu­leik­ar á að borg­in greiði kostnað vegna náms­gagna fyr­ir grunn­skóla­börn líkt og mörg önn­ur sveit­ar­fé­lög gera. Kostnaður­inn er tal­inn vera 4-6 þúsund krón­ur á nem­anda eða 0,3% af ár­leg­um meðal­rekstr­ar­kostnaði á grunn­skóla­nem­anda sam­kvæmt út­reikn­ing­um Hag­stof­unn­ar.

Önnur mál eru mik­il­væg­ari en grunn­skól­ar, nem­end­ur þeirra og kenn­ar­ar. Til að fela metnaðarleysið í skóla­mál­um vill meiri­hlut­inn ekki gera op­in­ber­ar niður­stöður úr PISA-könn­un­um. Pírat­ar, Sam­fylk­ing, Vinstri græn­ir og Björt framtíð felldu til­lögu Kjart­ans Magnús­son­ar, borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins, um að upp­lýs­ing­ar um ár­ang­ur hvers skóla yrðu send­ar til viðkom­andi skóla­stjórn­enda, sem myndu kynna þær fyr­ir skólaráðum sín­um og stjórn for­eldra­fé­lags í því skyni að hvetja til upp­lýstra umræðna um kennslu­hætti og náms­ár­ang­ur.

Fras­ar án merk­inga

Allt tal um gagn­sæi og opið lýðræðis­legt ferli er inn­an­tómt – fras­ar án merk­inga. Þess vegna ákvað meiri­hlut­inn að taka ekki þátt í ár­legri þjón­ustu­könn­un sveit­ar­fé­laga, eft­ir að borg­in hafði fengið fall­ein­kunn í sam­an­b­urði við önn­ur sveit­ar­fé­lög. Ráðning­ar í æðstu embætti á veg­um borg­ar­inn­ar eiga lítið skylt við opna stjórn­sýslu og gagn­sæi. Ekki frek­ar en þegar því var haldið leyndu fyr­ir íbú­um að óhreinsað skólp flæddi í sjó­inn við Faxa­skjól – tug­ir þúsunda lítra á hverri mín­útu. Ekki var haft fyr­ir því að til­kynna, lög­um sam­kvæmt, um „meng­un­ar­slys“, þegar þúsund­ir tonna af aur úr inntak­slóni virkj­un­ar menguðu Anda­kílsá. Orka nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæki Orku­veitu Reykja­vík­ur, á Anda­kíls­ár­virkj­un.

Stefna skorts­ins

Þeir eru víða brotnu pott­arn­ir í Reykja­vík. Sam­kvæmt frétt­um Morg­un­blaðsins eru verk­tak­ar að gef­ast upp á sam­skipt­um við borg­ar­yf­ir­völd. Stjórn­sýsla embætt­is bygg­ing­ar­full­trúa ein­kenn­ist af seina­gangi, þar sem mál­in eru flækt og allt stöðugum breyt­ing­um háð, í stað þess að fylgt sé skýr­um og gagn­sæj­um verk­regl­um. Þeir tím­ar eru að baki að stjórn­sýsla borg­ar­inn­ar lagði metnað sinn í að leiðbeina og greiða úr er­ind­um borg­ara og fyr­ir­tækja.

Allt er þetta end­ur­spegl­un á skort­stefnu meiri­hlut­ans í skipu­lags­mál­um. Guðfinna Jó­hanna Guðmunds­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins, hef­ur dregið fram þá staðreynd að aðeins hafi verið út­hlutað lóðum und­ir fjór­tán fjöl­býl­is­hús á kjör­tíma­bil­inu og þar af átta á liðnu vori.

Tölu­leg­ar staðreynd­ir um stöðnun­ina í höfuðborg­inni eru slá­andi en á síðustu átta árum hafa aðeins verið byggðar 2.068 íbúðir í Reykja­vík og hafa ekki verið jafn fáar á jafn löngu tíma­bili frá því í seinna stríði. Á ár­un­um 1937-1944 voru byggðar 2.042 íbúðir í Reykja­vík en þá var meðal­fjöldi íbúa um 40 þúsund.

Sama kynn­ing­in í mörg ár

Sig­urður Brynj­ar Páls­son, for­stjóri BYKO, hélt því fram í viðtali við Viðskipta­blaðið í liðnum mánuði að ástandið í hús­næðismál­um hefði ekki átt að koma nein­um á óvart. Á ár­un­um 2009-2014 hafi aðeins verið byggðar um 900 til 950 íbúðir á ári, en þörf­in hafi verið 1.500 til 1.800 íbúðir. Sig­urður Brynj­ar seg­ir það „galið“ hvernig haldið hafi verið á mál­um:

„Mér finnst ég hafa séð sömu kynn­ing­una hjá borg­ar­stjór­an­um í all­mörg ár. Nú er kom­inn tími til að hætta að tala og fara að fram­kvæma.“

Fyr­ir síðustu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar gaf Dag­ur B. Eggerts­son stór lof­orð um 3.000 nýj­ar leigu­íbúðir. Nokkr­um mánuðum eft­ir kosn­ing­ar kynnti hann sem borg­ar­stjóri áætlan­ir sem gerðu ráð fyr­ir að á næstu árum yrðu byggðar allt að sex þúsund íbúðir. Lof­orðin og áætlan­irn­ar hafa reynst inn­an­tóm. Borg­ar­stjóri kenn­ir bönk­um og verk­tök­um um neyðarástand í hús­næðismál­um, enda tel­ur hann sig ábyrgðarlaus­an á skort­stefn­unni sem fylgt hef­ur verið.

Röng stefna Reykja­vík­ur­borg­ar í skipu­lags­mál­um er langt í frá að vera einka­mál meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar. Af­leiðing­arn­ar bitna á flest­um lands­mönn­um með bein­um eða óbein­um hætti. Kostnaður­inn er bor­inn af ein­stak­ling­um og fjöl­skyld­um í formi hærra fast­eigna­verðs sem hitt­ir íbúðar­eig­end­ur aft­ur með hærri fast­eigna­gjöld­um að ekki sé talað um þau áhrif sem hærra fast­eigna­verð hef­ur á kaup­mátt launa og skulda­stöðu heim­ila.

Mér er til efs að minni­hluti í borg­ar­stjórn hafi haft betri tæki­færi í aðdrag­anda kosn­inga til að fella sitj­andi meiri­hluta. Tæki­fær­in verða hins veg­ar ekki nýtt án framtíðar­sýn­ar sem hugn­ast borg­ar­bú­um, jafnt þeim sem sitja fast­ir í um­ferðartepp­um, eiga sér þann draum að eign­ast íbúð og vilja góða skóla fyr­ir börn­in og þeim sem gera þá ein­földu kröfu að kjörn­ir full­trú­ar hlusti og taki mark á ósk­um íbú­anna.

Share