Með rökum er því haldið fram að lífeyrissjóðirnir séu fjöregg okkar Íslendinga. Ólíkt flestum öðrum þjóðum hefur okkur tekist að byggja upp öflugt lífeyrissjóðskerfi. Við höfum búið í haginn fyrir framtíðina í stað þess að ýta vandanum stöðugt á undan okkur. Ef litið er til OECD kemur í ljós að fáar þjóðir hafa sýnt meiri fyrirhyggju en við Íslendingar í lífeyrismálum. Staðan er góð í Hollandi og sterk í Danmörku.
Á komandi árum og áratugum þurfa margar þjóðir að takast á við gríðarlegan vanda til að fjármagna lífeyrisskuldbindingar, á sama tíma og flest bendir til að útgjöld hins opinbera aukist verulega, ekki síst vegna heilbrigðismála. Glíman við að standa við skuldbindingar gagnvart eldri borgurum verður erfið. Vandséð er hvernig sum lönd fara út úr þeirri glímu, að óbreyttu. Líkja má lífeyrisskuldbindingum margra landa, ekki síst Evrópulanda, þar sem meðalaldur fer stöðugt hækkandi, við tifandi tímasprengju.
Aðeins 22% erlendar eignir
Heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna námu 3.661 milljarði króna í lok maí síðastliðins samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabankans. Stærsti hluti eignanna er í samtryggingardeildum sjóðanna en rétt tæp 10% í séreignardeildum eða um 353 milljarðar króna. Erlendar eignir eru aðeins 22% – 789 milljarðar í lok maí. Innlendar eignir eru 2.872 milljarðar og af þeim eru innlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini tæplega 591 milljarður króna auk þess sem um 118 milljarðar eru bundnir í hlutdeildarfyrirtækjum.
Eins og fram kom, á þessum stað fyrir viku, áætlar Fjármálaeftirlitið að bein og óbein hlutdeild lífeyrissjóðanna af skráðum hlutabréfum sé um 45%. Stærstu smásölukeðjur landsins eru með beinum eða óbeinum hætti í meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna. Svipað er að segja um þrjú fasteignafélög og fjarskiptamarkaðinn, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir í nær öllum hlutafélögum sem eru skráð á innlendan hlutabréfamarkað. Fyrirtæki á samkeppnismarkaði eru oftar en ekki að mestu í eigu sömu sjóðanna. Hættan sem þetta samtvinnaða eignarhald skapar er augljós.
Önnur hætta sem fylgir auknum umsvifum lífeyrissjóðanna á innlendum hlutabréfamarkaði er hve langt er orðið á milli raunverulegra eigenda hlutabréfanna og stjórnenda fyrirtækjanna. Þessu til viðbótar koma ruðningsáhrif sem sjóðirnir hafa gagnvart einstaklingum og fjárfestingafélögum á þeirra vegum. Íslenskir einkaaðilar eru lítt áberandi í hópi stærstu hluthafa með örfáum undantekningum.
Forðast fjárfestingar í hlutabréfum
Að óbreyttu er sú hætta fyrir hendi að íslenskur hlutabréfamarkaður nái ekki að þróast með eðlilegum hætti ef stór hluti hans er í raun í eigu örfárra aðila – nokkurra stærstu lífeyrissjóðanna. Verðmyndun verður ekki eðlileg – markaðurinn verður grynnri en ella og því áhættusamari. Almenningur forðast þess vegna að taka þátt í hlutabréfaviðskiptum. Fjársterkir einkaaðilar sjá hag sínum betur borgið með því að ávaxta fjármuni í öðrum eignum, þar á meðal óskráðum hlutabréfum. Staðan á samkeppnismarkaði verður ójafnari, þar sem skráð stórfyrirtæki standa betur að vígi en þau sem minni eru, í krafti eignaraðildar lífeyrissjóðanna.
Það skiptir miklu um þróun hlutabréfamarkaðarins og fjármálamarkaðarins í heild sinni að vægi lífeyrissjóðanna minnki hlutfallslega á komandi árum og fleiri leikendur hasli sér þar völl. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir sjóðina sjálfa og eigendur þeirra.
Til að þetta gerist þarf margt að koma til en hér verður fyrst og fremst bent á tvennt.
Fjárfesting í innviðum
Í fyrsta lagi: Stjórnvöld verða að skapa umhverfi sem gerir lífeyrissjóðunum kleift að ávaxta eignir sjóðsfélaga og tryggja sem hæstar eftirlaunagreiðslur og bestu samtryggingu. Með afnámi haftanna var stigið mikilvægt skref en það eitt og sér dugar ekki. Það verður að gefa lífeyrissjóðunum möguleika á því að taka beinan þátt í uppbyggingu hagrænna og samfélagslegra innviða.
Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi, sem standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Ekki verður deilt um jákvæð efnahagsleg áhrif sem skynsamleg uppbygging innviða hefur, að ekki sé minnst á samfélagsleg áhrif.
Varlega áætlað standa Íslendingar frammi fyrir a.m.k. 700 milljarða króna fjárfestingum í innviðum á komandi árum. Þetta jafngildir tæplega 30% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári. Útilokað er að ríkissjóður og sveitarfélög standi með beinum hætti undir þessum gríðarlegu fjárfestingum.
Lífeyrissjóðirnir geta leikið stórt hlutverk í fjármögnun innviða og það er margt sem vinnst með því. Hægt verður að ráðast í fjárfestingar sem annars yrðu ekki að veruleika fyrr en eftir mörg ár. Það gríðarlega fjármagn sem lífeyrissjóðirnir þurfa að ávaxta kemst í „arðbæra vinnu“. Þrýstingur á að beina fjármunum inn á hlutabréfamarkaðinn minnkar.
Aukinn hlutur einstaklinga í atvinnulífinu
Í öðru lagi: Stjórnvöld verða með virkum aðgerðum að auka beinan hlut einstaklinga/heimila í íslensku atvinnulífi. Með skattalegum aðgerðum er hægt að hvetja fyrirtæki til að gefa öllum starfsmönnum sínum kost á því að eignast hlut í viðkomandi fyrirtæki. Þá mælir flest með því að innleiða að nýju sérstakan skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa í viðurkenndum almenningshlutafélögum, líkt og gert var á árum áður. Þannig er ýtt undir að launafólk horfi á hlutabréf sem vænlegan kost.
En kannski er mikilvægasta skrefið fólgið í því að almenningsvæða bankana. Landsbanki og Íslandsbanki eru í eigu ríkisins og 13% hlutafjár í Arion banka. Ég hef lengi haldið því fram að rétt sé að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu þeirra á markað. Þær búsifjar sem einstaklingar urðu fyrir við fall bankanna 2008 verða a.m.k. að hluta til bættar. En um leið verður almenningur þátttakandi með beinum hætti á hlutabréfamarkaðinum og í íslensku atvinnulífi. Það er ekki svo lítils virði.
Tvöföldun eigna
Á næstu 15 árum tvöfaldast eignir lífeyrissjóðanna. Aukningin jafngildir yfir 80% af landsframleiðslu síðasta árs. Ætli lífeyrissjóðirnir að halda hlutfalli erlendra eigna óbreyttu þurfa þeir að fjárfesta fyrir um 750 milljarða. Flestir eru hins vegar á því að sjóðirnir þurfi að auka vægi erlendra eigna verulega, ekki síst til að tryggja áhættudreifingu. Ef markmiðið er að yfir 40% eigna séu erlendar eignir verða sjóðirnir að 3-4-falda fjárfestingu í öðrum löndum. En þrátt fyrir slíka aukningu þurfa sjóðirnir að finna farveg til ávöxtunar verulegra fjármuna hér á landi. Sá farvegur getur ekki orðið á hlutabréfamarkaði, nema því aðeins að flestum öðrum fjárfestum verði rutt til hliðar, með öllum þeim neikvæðu afleiðingum sem það hefur. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að stjórnvöld geri lífeyrissjóðunum kleift að fjármagna uppbyggingu innviða, s.s. samgangna og raforkudreifikerfis. Lífeyrissjóðirnir gætu einnig orðið leiðandi fjárfestar (kaupendur) í ýmsum eignum ríkisins, þar á meðal er Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Lífeyrissjóðirnir eru sameiginlegt fjöregg okkar Íslendinga. Sterk staða sjóðanna er ein ástæða þess að möguleikar okkar til sóknar í framtíðinni eru meiri en flestra annarra þjóða. En það eru áskoranir framundan. Íslenskt launafólk – eigendur sjóðanna – verður að fá tækifæri til að taka þátt í að mæta þeim áskorunum og móta stefnuna. Samhliða eiga stjórnvöld að taka höndum saman við sjóðina um uppbyggingu innviða.