Ríkisútvarpið á hrós skilið en Dagur B. er týndur

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona Ríkisútvarpsins, á hrós skilið fyrir ítarlega og góða umfjöllun um mengun sjávar og fjöru vegna bilunar í skólphreinsistöð við Faxaskjól. Það er með hreinum ólíkindum að almenningur hafi ekki verið látinn vita af biluninni.  Í tíu daga var skólpi dælt út eins og ekkert væri eðlilegra – 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæddi á hverri sekúndu út í sjó.

Það er með ólíkindum að engar viðvaranir hafi verið gefnar. María Sigrún lét ekki eina frétt nægja heldur fylgdi fast eftir og mættu margir fjölmiðlamenn taka hana sér til fyrirmyndar.

Í hádegisfréttum upplýsti Alma Ómarsdóttir, samverkakona Maríu Sigrúnar, að búið sé að gera við dælustöðina til bráðabirgða en óvíst sé hvenær endanlegri viðgerð lýkur. Og ekki er hægt að halda því fram að borgaryfirvöld og stofnanir borgarinnar hafi tekið sig taki við að miðla upplýsingum til íbúa því Alma segir í frétt sinni:

„Enn hefur ekki verið greint frá biluninni á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, en nú rétt fyrir fréttir var greint frá niðurstöðu sýnatökunnar á vefnum. Engin tilkynning er um bilunina á vef Reykjavíkurborgar og Orkuveita Reykjavíkur greindi ekki frá henni fyrr en eftir að fjallað var um málið í fréttum RÚV.“

Sigurður Sigurðarson segir á bloggsíðu sinni að það sé stórmál þegar skólphreinsistöð bili. Hann vekur hins vegar athygli á að fjölmiðlar hafi rætt við heilbrigðiseftirlit og Orkuveituna sem ber ábyrgð á fráveitumálum, en að borgarstjóri sé týndur. „Hann [Dagur B. Eggertsson] er eins og hinir Samfylkingarmennirnir sem hverfa þegar eitthvað bjátar á,“ skrifar Sigurður og sömu sögu sé að segja um aðra í meirihluta borgarstjórnar – „þeir eru týndir“.

Sigurður bætir við:

„Fyrir einhverjar stórfurðulegar raðtilviljanir ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast.

  • Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
  • Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
  • Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri eins og aðrir huldumenn, hvergi sjáanlegur.
  • Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
  • Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
  • Fleira má nefna, af nógu er að taka.

Út af fyrir sig er það sniðugt „PR stunt“ að vera bara í góðu málunum, setja embættismenn í þau vondu. Það gerði Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson fylgir sömu stefnu. Á meðan gróa njólar á umferðagötu, saur og dömubindi nema land í Nauthólsvík.“

 

Share