Matvara og eldsneyti í höndum lífeyrissjóða

„Íslensku líf­eyr­is­sjóðirn­ir eru því mjög stór­ir þátt­tak­end­ur á inn­lend­um skulda- og hluta­bréfa­markaði og er ábyrgð þeirra mik­il gagn­vart at­vinnu­líf­inu og stöðug­leika á inn­lend­um fjár­mála­markaði.“

Skila­boðin sem koma fram í árs­skýrslu Fjár­mála­eft­ir­lits­ins [FME] eru skýr og ekki til­efn­is­laus. Eign­ir líf­eyr­is­sjóðanna hafa orðið stöðugt fyr­ir­ferðameiri á inn­lend­um fjár­mála­markaði á und­an­förn­um árum eða um 75% af heild.

Á síðustu árum hef­ur vægi skráðra inn­lendra hluta­bréfa í eigna­safni líf­eyr­is­sjóðanna auk­ist veru­lega. FME tel­ur að bein og óbein hlut­deild sjóðanna, í gegn­um sjóði og fé­lög, nemi ná­lægt 45%. Margt bend­ir til að um van­mat sé að ræða. Í áður­nefndri árs­skýrslu kem­ur fram að líf­eyr­is­sjóðirn­ir hafi „aukið við fjár­fest­ing­ar í inn­lend­um fjár­mála­gern­ing­um til fjár­mögn­un­ar á sam­lags­hluta­fé­lög­um og öðrum fé­lög­um vegna meðal ann­ars fast­eigna­verk­efna af ýmsu tagi og flokk­ast þau sem önn­ur verðbréf“.

Fjar­lægð og gild­is­mat

Fátt bend­ir til ann­ars en að um­svif líf­eyr­is­sjóðanna á ís­lensk­um fjár­mála­markaði auk­ist enn frek­ar á kom­andi árum, jafn­vel þótt þeir beini fjár­mun­um í rík­ara mæli í er­lend­ar eign­ir, sem er skyn­sam­legt. Á síðasta ári nam nettó inn­flæði í líf­eyr­is­sjóðina um 60 millj­örðum króna (iðgjöld ásamt aukafram­lög­um að frá­dregn­um út­greidd­um líf­eyri). Iðgjöld hækka í skref­um í 15,5% og því mun nettó­inn­flæði í sjóðina aukast um 20-30 millj­arða á ári, sam­kvæmt mati FME.

Líkt og kom fram í grein minni í liðinni viku hef­ur hlut­deild ís­lenskra heim­ila í skráðum fé­lög­um ekki verið minni í að minnsta kosti 15 ár eða aðeins um 4% af markaðsvirði. Þegar farið er yfir hlut­hafal­ista skráðra hluta­fé­laga vek­ur at­hygli (og áhyggj­ur) að ein­stak­ling­ar og fjár­fest­inga­fé­lög í eigu þeirra, eru lítið áber­andi í hópi stærstu hlut­hafa. Engu er lík­ara en að einkaaðilar forðist að fjár­festa í skráðum fé­lög­um. Fjar­lægðin milli raun­veru­legra eig­enda og stjórn­enda viðkom­andi fyr­ir­tækja verður meiri og tengsl­in veik­ari. Aðhaldið að stjórn­end­um verður kannski ekki minna en það verður með öðrum hætti og sag­an sýn­ir að gild­is­matið sem fylgt er í rekstri mót­ast mjög af þeirri fjar­lægð sem er á milli raun­veru­legra eig­enda (þeirra sem eiga fjár­hags­legra hags­muna að gæta) og stjórn­ar og stjórn­enda fyr­ir­tækja. Eft­ir því sem fjar­lægðin er meiri er erfiðara fyr­ir raun­veru­lega eig­end­ur að hafa áhrif á störf og stefnu fyr­ir­tæk­is­ins. Þetta seg­ir sig sjálft.

Smá­sala í hönd­um líf­eyr­is­sjóða

Um það verður ekki deilt að stjórn­end­um líf­eyr­is­sjóðanna var mik­ill vandi á hönd­um eft­ir fjár­málakrepp­una. Sú skylda hvíl­ir á þeirra herðum að ávaxta fjár­muni sjóðanna og fram til þess að fjár­magns­höft­um var aflétt var ekki um auðugan garð að gresja. Inn­lend­ir fjár­mála­gjörn­ing­ar voru það sem bauðst. Það var óhjá­kvæmi­legt að líf­eyr­is­sjóðirn­ir yrðu virk­ir þátt­tak­end­ur í kaup­um á skráðum hluta­bréf­um og raun­ar nauðsyn­legt til að renna stoðum und­ir hluta­bréfa­markaðinn að nýju.

Vand­inn sem hef­ur hins veg­ar skap­ast er að líf­eyr­is­sjóðirn­ir eru allt um lykj­andi og ráðandi hlut­haf­ar í fyr­ir­tækj­um sem eru keppi­naut­ar. Þetta á til dæm­is við um smá­sölu­versl­un.

Þrjú fyr­ir­tæki á smá­sölu­markaði eru skráð í Kaup­höll­inni; N1, Hag­ar og Skelj­ung­ur. Meiri­hluti hluta­fjár þess­ara þriggja fyr­ir­tækja er í eigu líf­eyr­is­sjóðanna með bein­um eða óbein­um hætti. (Nýherji er skráð hluta­fé­lag sem er að hluta á neyt­enda­markaði en er þó fyrst og síðast upp­lýs­inga­fyr­ir­tæki, með starf­semi hér á landi og í öðrum lönd­um).

Sjö af tíu stærstu hlut­höf­um N1 eru líf­eyr­is­sjóðir og eiga alls a.m.k. 53,4% hluta­fjár en auk þeirra eru bank­ar, verðbréfa­sjóðir og einn er­lend­ur fjár­fest­ing­ar­sjóður meðal 20 stærstu eig­enda N1 og eiga þeir alls 82,3%. Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna er stærsti hlut­haf­inn og Gildi er ann­ar stærsti. Alls eiga þess­ir tveir sjóðir 22,5% hluta­fjár.

Ný­lega var greint frá því að N1 hefði gert samn­ing um kaup á Festi, sem rek­ur meðal ann­ars Krón­una, In­ter­sport, Elko og Kjar­val. Gert er ráð fyr­ir að kaup­in gangi í gegn á næsta ári, en Sam­keppnis­eft­ir­litið á eft­ir að gefa sitt samþykki. Með bein­um eða óbein­um hætti er Festi í meiri­hluta­eigu líf­eyr­is­sjóða, en þó eru einka­fjár­fest­ar þar einnig stór­ir. Hlut­haf­ar í Festi fá hluta­bréf í N1 og ljóst er að hlut­ur líf­eyr­is­sjóðanna verður síst minni þegar upp verður staðið.

Sjö af tíu stærstu hlut­höf­um Haga eru líf­eyr­is­sjóðir og þar er Gildi stærst­ur. Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna kem­ur þar á eft­ir. Sam­tals eiga þess­ir tveir sjóðir liðlega 23% hluta­fjár. Það sem vek­ur óneit­an­lega at­hygli er að þess­ir tveir sjóðir eru jafn­framt tveir af stærstu hlut­höf­um í N1, sem eft­ir kaup­in á Festi, er einn helsti keppi­naut­ur Haga, sem aft­ur reka Bón­us, Hag­kaup, og fleiri versl­an­ir. Hag­ar hafa gert kaup­samn­ing um kaup á Lyfju og Olís, með fyr­ir­vara um samþykki Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins.

Sam­keppni og sam­tvinnað eign­ar­hald

N1 og Hag­ar eru (eða verða) keppi­naut­ar jafnt á sviði bens­ín­stöðva, mat­vöru og á fleiri sviðum smá­sölu. Þessa vegna er það eft­ir­tekt­ar­vert að nokkr­ir líf­eyr­is­sjóðir eiga hluti í báðum þess­um fyr­ir­tækj­um; Gildi, Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna, Stapi, LSR (A og B deild), Birta og Söfn­un­ar­sjóður líf­eyr­is­rétt­inda. Í N1 eiga þess­ir sjóðir alls liðlega 47% með bein­um hætti og í Hög­um tæp 50%. Sú spurn­ing er því áleit­in hvaða áhrif þetta sam­eig­in­lega eign­ar­hald hef­ur á sam­keppn­ismarkaði, ekki síst þegar og ef kaup N1 á Festi og kaup Haga á Lyfju og Olís ganga form­lega í gegn.

Fyr­ir neyt­end­ur – sem flest­ir eru síðan í raun eig­end­ur að þess­um fyr­ir­tækj­um í gegn­um líf­eyr­is­sjóði – er það a.m.k. áhyggju­efni hvernig sam­eig­in­legt eign­ar­hald á tveim­ur af stærstu fyr­ir­tækj­um á neyt­enda­markaði get­ur haft nei­kvæð áhrif á sam­keppni. Og ekki bæt­ir úr skák þegar horft er til þriðja fyr­ir­tæk­is­ins Skelj­ungs.

Beinn eign­ar­hlut­ur líf­eyr­is­sjóðanna í Skelj­ungi er liðlega 38% en stærsti hlut­haf­inn er sam­lags­hluta­fé­lagið SÍA II, sem er aft­ur að meiri­hluta í eigu líf­eyr­is­sjóða. Í maí síðastliðnum var til­kynnt að Skelj­ung­ur hefði í hyggju að kaupa Basko ehf. sem meðal ann­ars á og rek­ur 10-11 og Ice­land-versl­an­irn­ar, kaffi­hús und­ir merkj­um Dunk­in Donuts. Horn III – fram­taks­sjóður – sem er að stærst­um hluta í eigu líf­eyr­is­sjóða á 80% hluta­fjár í Basko, en Skelj­ung­ur greiðir kaup­verðið með eig­in hluta­bréf­um. Þannig mun eign­ar­hald líf­eyr­is­sjóðanna á Skelj­ungi þétt­ast og aukast, þegar kaup­in ganga í gegn. Þeir sex líf­eyr­is­sjóðir sem eiga hluti bæði í N1 og Hög­um, eru með bein­an eign­ar­hlut í Skelj­ungi – tæp 25%.

Með rök­um er því hægt að halda því fram að líf­eyr­is­sjóðirn­ir ráði eða geti ráðið stefnu stærstu fyr­ir­tækja á mik­il­vægu sviði smá­sölu ekki síst mat­vöru og eldsneyt­is. Það er um­hugs­un­ar­vert að Sam­keppnis­eft­ir­litið hafi ekki gert at­huga­semd við sam­tvinnað eign­ar­hald líf­eyr­is­sjóðanna á mik­il­væg­um neyt­enda­markaði eða vakið at­hygli á þeim hætt­um sem því kunni að vera sam­fara.

Eins og vikið verður að í kom­andi viku er staðan litlu skárri á öðrum sam­keppn­ismörkuðum, ef litið er til skráðra hluta­fé­laga.

Share