Í lok síðasta árs námu heildareignir lífeyrissjóðanna 3.514 milljörðum króna, eða um 145% af vergri landsframleiðslu. Á næstu árum munu eignirnar vaxa enn frekar og verða á næstu áratugum þreföld landsframleiðsla. Í einfaldleika má segja að lífeyrissjóðirnir verði þrisvar sinnum stærri en íslenska hagkerfið.
Það skiptir miklu fyrir allt launafólk að vel takist til við að ávaxta þessa gríðarlegur fjármuni. Þeir sem gera þá kröfu að lífeyrissjóðirnir taki þátt í ýmsum svokölluðum samfélagslegum verkefnum eru um leið að krefjast þess að fetað verði inn á braut þar sem lífeyrisréttindi verði lakari en ella vegna lægri ávöxtunar.
Í umhverfi fjármagnshafta var það langt í frá einfalt fyrir lífeyrissjóðina að tryggja góða ávöxtun iðgjalda. Það er ekki síst þess vegna sem sjóðirnir hafa tekið sér stöðu í mörgum íslenskum fyrirtækjum, lagt fjármuni í framtaks- og fjárfestingasjóði sem m.a. hafa verið atkvæðamiklir á fasteignamarkaði, jafnt í íbúðum og atvinnuhúsnæði. Umsvif fjársterkra aðila á fasteignamarkaði undanfarin ár hafa örugglega átt þátt í að ýta upp fasteignaverði þótt líklegt sé að skortur á byggingalóðum í höfuðborginni skipti mestu.
Heimilin horfin
Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu 15. júní síðastliðinn að bein hlutabréfaeign íslenskra heimila í skráðum félögum næmi alls um 49 milljörðum króna. Þetta er aðeins 4% af markaðsvirði skráðra fyrirtækja. Hlutfallið hefur ekki verið lægra í að minnsta kosti fimmtán ár.
Fréttablaðið hefur það eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, að það sé „ákveðið heilbrigðismerki“ að almenningur sé virkur í fjárfestingum á hlutabréfamarkaði. Þess vegna er minni bein hlutabréfaeign áhyggjuefni. Það kemur þeim er þetta skrifar ekki á óvart að Páll skuli nálgast viðfangsefnið með þeim hætti sem hann gerir enda hefur hann betri skilning en margir aðrir á að „við séum ennþá á þeim stað að þurfa að byggja upp traust gagnvart markaðinum“.
Draumur Eykons
Eykon – Eyjólfur Konráð Jónsson – átti sér þann draum að til yrðu öflug almenningshlutafélög – hann barðist fyrir því sem hann kallaði auðstjórn almennings. Í bókinni „Alþýða og athafnalíf“, sem kom út árið 1968, setti Eykon fram hugmyndir um að almenningur yrði virkur þátttakandi í íslensku atvinnulífi – að launafólk yrði eigendur fyrirtækja en ekki aðeins starfsmenn. Um leið tók hann málstað sjálfstæða atvinnurekandans. Eykon taldi nauðsynlegt að örva sem „allra flesta til þess að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur, hvort heldur þeir taka sér fyrir hendur að reka trillubát eða iðjuver“.
Fréttin um minnkandi hlut heimilanna í skráðum hlutafélögum hefði örugglega valdið Eykon vonbrigðum.
Rökin fyrir „auðræði almennings“ sótti Eykon í íslenska þjóðarsál:
„En mergurinn málsins er sá, að íslenska þjóðin vill ekki, að örfáir auðmenn ráði yfir öllum hennar atvinnurekstri. Auðjöfnun er hér meiri en annars staðar, og þess vegna geta ekki fáir menn komið á fót öflugustu atvinnufyrirtækjunum, en hins vegar er fjármagn til í höndum fjöldans. Ef það er virkjað með sameiginlegu átaki í atvinnurekstri, má lyfta Grettistaki.“
Óhætt er að halda því fram að Eykon hafi verið langt á undan samtíð sinni hér á landi þegar hann hóf baráttu fyrir því að almenningur tæki beinan þátt í atvinnurekstri. Hann skrifaði í bók sína fyrir tæpri hálfri öld:
„Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum, heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Er þar átt við mikilvægi þess, að sem mestur hluti þjóðarauðsins dreifist meðal sem allra flestra borgara landsins, að auðlegð þjóðfélagsins safnist hvorki saman á hendur fárra einstaklinga né heldur ríkis og opinberra aðila. Þeir, sem þessa stefnu aðhyllast, telja þá þjóðfélagsþróun æskilegasta, að valdið, sem fylgir yfirráðum yfir fjármagni, dreifist sem mest á meðal landsmanna allra.“
Það var djúpstæð sannfæring Eykons að heilbrigð, lýðræðisleg þróun yrði aðeins ef sem allra „flestir einstaklingar séu fjárhagslega sjálfstæðir; þeir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum, en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins“:
„Þá muni sjálfstæði manna, öryggi, þroski, ábyrgðartilfinning og lífshamingja aukast, og þá muni framleiðsla og auðæfaöflun þjóðfélagsins einnig verða mest.“
Krafan um lýðræðisvæðingu
Þegar Eyjólfur Konráð Jónsson setti hugmyndir sínar fram fyrir nær hálfri öld var staðan hér á Íslandi allt önnur. Lífskjör hafa gjörbreyst. Fjárhagslegt sjálfstæði almennings, þrátt fyrir áföll, er allt annað og meira. Atvinnulífið er öflugra og fjölbreyttara. Menntun er meiri, tækifærin fleiri. Við eigum ekki flest undir embættis- og stjórnmálamönnum, líkt og áður, þó að slegið hafi í bakseglin eftir hrun viðskiptabankanna 2008. Og Eykon sá líklega aldrei fyrir sér að til yrðu lífeyrissjóðir með þann fjárhagslega styrk sem raun hefur orðið. Hann hefði örugglega fagnað uppbyggingu sjóðanna en um leið gert alvarlegar athugasemdir við hvernig skipulagi þeirra er háttað, jafnt er varðar áhrifaleysi almennra sjóðfélaga á störf og stefnu, og eins að launafólk hefði ekki frelsi til að velja eigin lífeyrissjóð.
Í mars síðastliðnum fjallaði ég um kröfuna um aukið lýðræði í lífeyrissjóðunum. Þar hélt ég því fram að krafan um að launafólk komi með beinum hætti að því að móta stefnu lífeyrissjóðanna og hafi áhrif á það hverjir veiti þeim forystu væri skýr. Samtök atvinnurekenda og forystumenn verkalýðsfélaga gætu ekki leyft sér að virða þá kröfu að vettugi. Slíkt leiddi aðeins til aukinnar tortryggni, vantrausts og óánægju. Forystumenn Samtaka atvinnulífsins (SA) svöruðu skrifunum með þjósti og yfirlæti.
Frelsi til að velja lífeyrissjóð og hafa áhrif á stefnu og störf sjóðanna hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Umsvif þeirra í íslensku efnahagslífi hafa aldrei verið meiri og því er valddreifing mikilvægari en áður og hlutfall iðgjalda af heildarlaunum launafólks fer hækkandi og verður 15,5%.
Starfshópur um hlutverk
Það verður forvitnilegt þegar starfshópur forsætisráðherra um hlutverk lífeyrissjóðanna í uppbyggingu atvinnulífs skilar af sér skýrslu og tillögum, en honum er meðal annars ætlað að horfa til eftirfarandi:
- Hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur felast í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum? Er æskilegt að setja reglur eða gera lagabreytingar um eignarhald og aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja til að draga úr áhættu sjóðanna og tryggja samkeppni á markaði?
- Hvert er vægi eigna lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í skráðum og óskráðum verðbréfum nú og fyrir áratug og hvernig er líklegt að það þróist á næstu árum og áratugum? Er þörf á að gera ráðstafanir til að draga úr vægi lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi?
- Hvernig hefur eignarhald fagfjárfesta í skráðum fyrirtækjum í nálægum ríkjum þróast? Getum við dregið lærdóm af umræðu innan annarra OECD-ríkja um áhættudreifingu og aðkomu lífeyris- og verðbréfasjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja?
Í næstu viku fjalla ég frekar um umsvif lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi, ágæti þess en einnig þær hættur sem eru því samfara.
You must be logged in to post a comment.