Styrmir: Prósentur duga ekki

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, bendir á hið augljósa í pistli á heimasíðu sinni: Vandi sjúklinga verður ekki leystur með því að vísa í prósentur.

Tilefni skrifa hans er grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið í dag miðvikudag, þar sem borin eru saman tekjur og útgjöld ríkissjóðs árið 2012 og 2016, samkvæmt ríkisreikningum.

Styrmir vitnar orðrétt í grein mína þar sem segir:

„Þvert á það sem ætla mætti af opinberri umræðu jukust framlög til Landspítalans verulega. Á síðasta ári námu þau um 52,8 milljörðum króna, sem er 12,6 milljarða raunhækkun.”

Og Styrmir skrifar:

„Nú er það svo að þeir sem haft hafa uppi kröfur um aukin fjárframlög til Landspítalans hafa aldrei haldið því fram, að þau hafi ekki aukizt. Þeir hafa hins vegar sagt að sú aukning væri ekki nóg.

Það má líta á þetta út frá tveimur sjónarhornum. Annað er þingmanna, sem sjá þær tölur fyrir framan sig, sem Óli Björn nefnir.

Hitt er starfsmanna spítalans, sem finna vanmátt sinn við erfiðar aðstæður og svo aðstandenda sjúklinga, sem sjá með eigin augum að það skortir fólk á spítalann til þess að veita sjúklingum viðunandi þjónustu.“

Allt er þetta rétt athugað  en Styrmir hefði að ósekju mátt vekja athygli á því að það dugar ekki auka framlög ef ekki er tryggt að þjónusta við sjúklinga batni í réttu hlutfalli. Það er nauðsynlegt að gerðar séu kröfur til ríkisaðila um gæði þjónustunnar og afköst.

Líklega eru fáir þingmenn sem hafa skrifað meira um heilbrigðiskerfið en sá er þetta skrifar. Í október síðastliðnum skrifaði ég meðal annars:

„Yfirgnæfandi meirihluti okkar Íslendinga lítur svo á að í gildi sé sáttmáli – sáttmáli þjóðar sem ekki megi brjóta. Við höfum sammælst um að fjármagna sameiginlega öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir geta notið nauðsynlegrar þjónustu og aðstoðar án tillits til efnahags eða búsetu. Við viljum rétta hvert öðru hjálparhönd og aðstoða þá sem minna mega sín til sjálfshjálpar og stuðla að mannlegri reisn okkar allra. Almannatryggingakerfið líkt og heilbrigðiskerfið er hornsteinn þjóðarsáttmálans.“

Síðar í sömu grein:

„Flestir viðurkenna að enn verður að auka útgjöld til heilbrigðismála. En um leið og það er gert verðum við einnig að horfast í augu við þá staðreynd að fjármunum er víða sóað, þeir eru illa nýttir. Eitt stærsta verkefni á sviði heilbrigðismála á komandi árum verður að tryggja góða nýtingu fjármuna – að skattgreiðendur fái það sem greitt er fyrir; öfluga og góða heilbrigðisþjónustu. Þar skiptir skipulag kerfisins mestu og um það er deilt.“

Styrmir er í hópi þeirra sem krefjast aukinna framlaga til heilbrigðiskerfisins. Um nauðsyn þess gera fáir ágreining. En gott heilbrigðiskerfi snýst ekki aðeins um þá fjármuni sem úr er að spila, heldur ekki síður hvernig þeim er varið – hvernig þeir nýtast, – á Landspítalanum sem annars staðar. Potturinn er víða brotinn. Það er kerfislæg sóun fjármuna. Um það mætti minn gamli lærifaðir fjalla meira.

Í febrúar síðastliðnum benti ég enn og aftur á nauðsyn þess að gjörbreyta fjármögnun Landspítalans:

„Í skrifum hér í Morgunblaðið hef ég haldið því fram að nauðsynlegt sé að taka upp ný vinnubrögð við fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar; að ríkissjóður greiði fyrir unnin skilgreind verk og þjónustu. Innan Landspítalans hefur verið unnið að þessu með innleiðingu DRG-kerfis líkt og tíðkast víða á Norðurlöndum. Til einföldunar hef ég einfaldlega sagt að fé fylgi sjúklingi.”

Í lok greinarinnar sagði:

„Verkefni stjórnmálamanna er ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að auka valmöguleika almennings, stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna og standa vörð um sáttmálann um að tryggja öllum örugga og góða heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.”

 

Share