Stríð, ógnanir og bjartsýni

Tyrkland Erdogans hefur tekið yfir Tyrkland Kemal Ataturks. Rússland berst við efnahagslega erfiðleika, rótgróna pólitíska spillingu og Pútín forseti stendur höllum fæti í alþjóðasamfélaginu. Í skjóli Pútíns heldur Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, áfram stríðsrekstri gegn eigin þjóð. Eins og oft áður virðast Vesturlönd máttlítil að koma í veg fyrir upplausn, ofbeldi og morð. Hundruð þúsunda hafa fallið og milljónir eru landflótta.

Blikur eru á lofti yfir Kóreuskaga. Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, er óútreiknanlegur, siðblindur einræðisherra, sem er staðráðinn í að þróa kjarnavopn sem hægt er að beita gegn nágrannaríkjum og Bandaríkjunum. Á meðan sveltur þjóðin. En nú er jafnvel kínverskum stjórnvöldum misboðið. Hungursneyð er í Suður-Súdan og Jemen, Nígería og Sómalía eru á barmi hungurs. Því er haldið fram að ástandið sé það versta frá stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945.

Hungur, ögranir, stríð, einræði, ofbeldi og fyrirlitning á mannréttindum blasa víða við þegar horft er yfir heimsbyggðina. Vandamál okkar Íslendinga sýnast oft léttvæg í samanburði. Yfirlýsingar embættismanna í Brussel um að nú skuli Bretar fá að kenna á því fyrir að yfirgefa Evrópusambandið gera þá að lítilsigldum smásálum sem skynja ekki fyrir hverja þeir eru að vinna.

Tyrkland er klofið

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá fyrir Tyrkland kom fáum á óvart. Þó var „sigur“ Erdogans forseta tæpari en reiknað hafði verið með (51,4% með en 48,6% á móti). Andstæðingum breytinganna var gert erfitt fyrir. Leikreglum kosninganna var breytt á elleftu stundu. Lögreglan truflaði fundahöld, aðgangur að fjölmiðlum var takmarkaður. Þannig stóðu þeir sem lögðust gegn breytingum höllum fæti – jafnræði var ekki á milli Erdogans og andstæðinga hans.

Með nýrri stjórnarskrá fær Erdogan gríðarleg völd í hendur – meiri völd og áhrif en lýðræðisríki getur afhent einum manni. Svo virðist sem lýðræðisríki Ataturks sé liðið undir lok – hugsjónin um aðskilnað hins veraldlega og andlega valds í Tyrklandi hafi siglt í strand. Hópar hryðjuverkamann fagna og lýsa því yfir að Erdogans sé „bróðir“. Katar og Djíbúti hafa sent Tyrklandsforseta hamingjuóskir líkt og Hamas-hreyfingin.

Leiðtogar ríkja Evrópu hafa verið varkárir í yfirlýsingum en bent á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi leitt í ljós djúpstæðan klofning meðal tyrknesku þjóðarinnar. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, óskaði Erdogan hins vegar til hamingju með úrslitin um leið og stríðið í Sýrlandi var rætt.

Enn er of snemmt að spá fyrir um áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Tyrklandi. Þjóðin er klofin og stöðugleiki í landinu er og verður brothættur. Hernaðarlegt mikilvægi Tyrklands liggur í augum uppi og Tyrkir hafa oft leikið lykilhlutverk í baráttunni við hryðjuverkasveitir. Það kann að breytast. Pólitískar gælur Erdogans og Pútíns á síðustu misserum flækja stöðuna enn frekar og geta haft áhrif innan Nató. Þannig getur þróun tyrkneskra stjórnmála haft bein áhrif á okkur hér á Íslandi.

Gjá milli Trumps og Pútíns

Á sama tíma og Bandaríkjaforseti reynir að bæta tengslin við Tyrkland hefur orðið til gjá milli hans og Rússlandsforseta. Donald Trump hefur reynst meiri haukur í alþjóðamálum en Kremlverjar reiknuðu með. Og Vladimir Pútín er vandi á höndum.

Rússland hefur glímt við efnahagslega erfiðleika vegna lækkandi olíuverðs og viðskiptaþvingana í kjölfar innlimunar Krímskaga. Staða Pútíns, jafnt innanlands og utan, var erfið. En það breyttist 2015. Hernaðaríhlutun Rússa í stríðið í Sýrlandi gjörbreytti stöðu Pútíns á sviði alþjóðamála. Rússland minnti á sig sem mikilvægt herveldi. Heimafyrir jókst lýðhylli forsetans og hann þurfti á því að halda. Sýrland og stuðningurinn við ógnarstjórn Bashar al-Assads minnti heimsbyggðina á mátt rússneska bjarnarins. Pútín varð hinn sterki leiðtogi á sama tíma og bandarísk stjórnvöld héldu að sér höndum. Kjör Trumps var talið tryggja frekara afskiptaleysi, – vera merki um sigur einangrunarhyggjunnar en um leið ávísun á góð samskipti Rússlands og Bandaríkjanna.

Sýrland er ekki lengur stökkpallur Pútíns til alþjóðlegra áhrifa, heldur akkilesarhæll. Stuðningurinn við Assad getur orðið Rússlandi dýrkeyptur. Beiting efnavopna gjörbreytti öllu og sprengjuárás Bandaríkjanna á herflugvöll í Sýrlandi boðar breytta stefnu ríkisstjórnar Donald Trumps. Sá tími er liðinn að þjóðir heims geti horft aðgerðalausar á hryllinginn í Sýrlandi. Bandarísk og bresk stjórnvöld ræða nú um að víðtækari viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi. Vonir Pútíns um að brjóta niður þvinganir vestrænna ríkja eru orðnar að engu. Efnahagslegar afleiðingar þess fyrir Rússland geta orðið alvarlegar.

Stefnubreyting í vændum?

Á sama tíma og samskipti Rússlands og Bandaríkjanna versna virðist samband Kína og Bandaríkjanna þróast með öðrum hætti. Xi Jingping, forseti Kína, var nýlega í heimsókn í Bandaríkjunum og síðar á þessu ári mun Trump þiggja opinbert boð til Kína.

Bandarísk stjórnvöld gera sér grein fyrir að erfitt ef ekki útilokað verður að koma böndum á Norður-Kóreu með friðsamlegum hætti án beinna afskipta Kínverja sem eru eina skjól Kim Jong Un. Góð og náin samvinna Bandaríkjanna og Kína er forsenda þess að hægt sé að tryggja stöðugleika og frið á Kóreuskaga og þar með í Asíu. Og Kínverjar eru eina þjóðin sem getur leitt Norður-Kóreu inn í samfélag þjóða og kennt þarlendum ráðamönnum að feta leið markaðsbúskapar og fært þjóðina úr örbirgð í bjargálnir. Þar er Kína fyrirmyndin.

Náin samskipti Bandaríkjanna og Kína eru ekki síður mikilvæg fyrir efnahag heimsins. Báðar þjóðir njóta afraksturs frjálsra viðskipta milli landanna. Með beinum og óbeinum hætti njóta önnur lönd þess einnig.

Það kann að vera barnaleg bjartsýni að ætla að ögrandi stefna Norður-Kóreu verði til þess að pólitísk og viðskiptaleg samvinna Bandaríkjanna og Kína aukist á komandi misserum og árum. Donald Trump var tilbúinn til að gjörbreyta um stefnu í öryggis- og varnarmálum. Kannski eigum við eftir að sjá svipaða stefnubreytingu þegar kemur að alþjóðaviðskiptum – í stað verndarstefnu verði hagsæld frjálsra utanríkisviðskipta ráðandi.

Share