Andreas Tille

Skattar og samkeppnishæfni

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að umgjörð atvinnulífsins sé með þeim hætti að íslensk fyrirtæki séu samkeppnishæf við erlenda keppinauta. Eitt af því sem ræður miklu um samkeppnishæfni fyrirtækja er skattkerfið.

Þegar þingmenn ákveða að breyta skattkerfi fyrirtækja geta þeir ekki einblínt á hvaða áhrif breytingarnar hafa á tekjur ríkissjóðs – til hækkunar eða lækkunar. Þeir verða einnig að sannfærast um að með breytingunum sé ekki verið að skerða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja eða að minnsta kosti að ekki sé verið leggja þyngri byrðar á fyrirtækin en keppinautar í öðrum löndum bera. Ástæðan er öllum augljós. Skert samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja dregur úr þrótti efnahagslífsins, skerðir lífskjör og til lengri tíma veikir skattstofna ríkisins.

Metnaðarfull áætlun

Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára – 2018 til 2022 – og mælti fjármálaráðherra fyrir henni á þingi í síðustu viku. Áætlunin er á margan hátt metnaðarfull, jafnt er varðar aðhald og forgang útgjalda ekki síst í þágu heilbrigðiskerfisins, líkt og krafist var í kosningum. Fjármálaáætlunin er tillaga til þingsályktunar þar sem teiknaðar eru meginlínur í útgjöldum og tekjuöflun ríkissjóðs.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni til þingsályktunar, kemur fram að ríkisstjórnin stefni að því að gera róttækar breytingar á virðisaukaskattskerfinu (VSK). Um mitt næsta ár er stefnt að því að VSK-álagning á ferðaþjónustu hækki úr 11% í 24%. Sex mánuðum síðar er ætlunin að lækka skattinn í 22,5% þegar efra VSK-þrepið verður lækkað. Gengið er út frá því að þessar breytingar skili ríkissjóði um níu milljörðum í auknar tekjur á síðari hluta næsta árs og um fjórum milljörðum nettó árið 2019. Jafnframt er tekið fram að „aðrir valkostir í gjaldtöku á ferðamenn“ verði áfram til skoðunar. Áður en VSK-álagningin liðlega tvöfaldast verður gistináttagjald þrefaldað – úr 100 krónum í 300 krónur frá og með 1. september næstkomandi.

Með fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskatti af ferðaþjónustu verður skattprósentan (22,5%) sú þriðja hæsta sem lögð er á í Evrópu. Aðeins Danmörk og Rúmenía leggja á hærri skatt á gistingu.

Greinargerð markar ekki skattastefnu

Fá ef nokkur dæmi eru um róttækari breytingar á skattaumhverfi einnar atvinnugreinar á jafnskömmum tíma og stefnt er að gagnvart ferðaþjónustunni. Allar eru þær íþyngjandi og munu að óbreyttu draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Áður en hugsanlegar breytingar verða samþykktar þurfa þingmenn að huga vel að þessum þætti. Afgreiðsla fjármálaáætlunar felur ekki í sér endanlega ákvörðun um breytingar á lögum um virðisaukaskatt eða aðra skatta sem kastljósinu er beint að í greinargerð með þingsályktun. Skattastefna til lengri tíma verður aldrei mörkuð í greinargerð sem fylgir tillögu til þingsályktunar, sem löggjafinn hefur til umfjöllunar í nokkrar vikur.

Þegar tekin er ákvörðun um álagningu VSK á þjónustu og vörur fyrirtækja er mikilvægt að huga að samkeppnishæfni og þá sérstaklega á hvers konar markaði stærsti hluti sölunnar fer fram á. Þess vegna er t.d. útflutningur vöru undanskilin VSK-álagningu.

Langstærsti hluti tekna ferðaþjónustunnar er vegna erlendra ferðamanna – sala á sér stað í öðrum löndum. Sala þjónustunnar er á alþjóðlegum markaði og er í samkeppni við þá þjónustu sem þar er í boði. Hærri VSK-álagning, en gengur og gerist í samkeppnislöndum, er því augljóslega til að rýra samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja um það sem nemur mismuninum.

Þegar því er haldið fram að ferðaþjónustan hafi notið „ívilnunar“ með lægri VSK-álagningu er horft fram hjá þeirri staðreynd að kaupandi þjónustunnar er nær aldrei á íslenskum markaði – heldur annaðhvort á eigin heimamarkaði eða alþjóðlegum. Þetta þýðir að þegar lagt er mat á hugsanlega ívilnun verður annaðhvort að skoða álagningarprósentu VSK í viðkomandi landi eða í helstu samkeppnislöndum Íslands. Ef VSK-% er lægri hér á landi en almennt gengur og gerist er hægt að leiða rök að því að um ívilnun sé að ræða. Hið öfuga á við ef álagningarprósentan er hærri – þ.e. verið er að leggja á íþyngjandi skatt og/eða veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja í íslenski ferðaþjónustu.

Núverandi 11% VSK-álagning virðist svipuð og í helstu löndum Evrópu. Það er því villandi og einföldun að halda því fram að ferðaþjónustan njóti sérstakrar ívilnunar. Það er hins vegar um leið augljóst að breytingar í takt við þær sem hugleiddar eru í greinargerð með fjármálaáætlun, leiða til sérstaks aukaálags sem óljóst er hvort og með hvaða hætti ferðaþjónustan getur látið endurspeglast í verðlagningu – látið erlenda ferðamenn standa undir hækkun skattsins.

Brothætt staða

Breytingar á lögum um virðisaukaskatt verða ekki ákveðnar og afgreiddar á næstu vikum. Það verkefni bíður haustsins. En vinnan er hafin og þingmenn reyna að átta sig á stöðu atvinnulífsins og þá ekki síst ferðaþjónustunnar.

Eftirfarandi blasir við:

• Íslenska krónan hefur hækkað verulega á undanförnum misserum og þar með hafa tekjur útflutningsfyrirtækja í krónum því lækkað.

• Á sama tíma og íslenska krónan hefur hækkað verulega gagnvart helstu gjaldmiðlum (eða gjaldmiðlar lækkað gagnvart krónunni) hefur launakostnaður fyrirtækja aukist. Frá upphafi 2015 til loka árs 2016 hækkaði launavísitalan um tæp 19%.

• Til að standa af sér hækkun á VSK verða aðilar í ferðaþjónustu að eiga möguleika á því að hækka verð sem nemur hækkun VSK-ins, án þess að það komi niður á nettótekjum og nýtingu innviða. Möguleikar fyrirtækjanna eru misjafnir til þessa. Erfitt og á stundum útilokað verður fyrir ferðaþjónustu, þar sem eftirspurn er takmörkuð, að hækka verð í samræmi við hækkun skattsins. Fyrirtækin verða því að bera hækkunina að hluta eða öllu leyti sjálf. Þetta er vegna þess að teygni eftirspurnar er mjög mismunandi eftir staðsetningu og eðli þjónustunnar sem verið er að bjóða. Það blasir við að eftir því sem þjónustan er fjær höfuðborgarsvæðinu, því erfiðara verður fyrir fyrirtækin að hækka verð. Þannig er líklegt að stoðir ferðaþjónustunnar út á landi verði sérstaklega veikari en áður. Þróun á gengi gjaldmiðla gerir það enn erfiðara en ella að mæta hækkun á VSK með hærra verði fyrir selda þjónustu. Vegna sterkrar stöðu krónunnar er því líklegra en ella að fyrirtækin þurfi að bera hluta VSK-hækkunar sjálf. Enginn veit hversu stóran hluta.

• Afkoma ferðaþjónustunnar versnaði á liðnu ári og mörg fyrirtæki standa höllum fæti.

• Á liðnu ári námu gjaldeyristekjur þjóðarbúsins 1.189 milljörðum króna. Hlutur ferðaþjónustunnar var 38,5%-eða 458 milljarðar. Gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustu eru þrisvar sinnum hærri en árið 2009 á verðlagi hvors árs – voru 302 milljörðum hærri á síðasta ári en 2009.

Neysluskattar fremur en beinir skattar

Rök eru fyrir því að skattleggja fremur neyslu en tekjur launafólks. Þess vegna samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins árið 2015 að stefna bæri að því að lækka tekjuskatt og útsvar einstaklinga í áföngum í samtals 25% fyrir árið 2025. Staðgreiðsluhlutfallið er nú 36,94%-46,24%. Landsfundurinn samþykkti einnig að einfalda virðisaukaskattskerfið, „fækka undanþágum og stuðla þannig að meiri skilvirkni“ en um leið var bent á nauðsyn þess að lækka tryggingagjaldið.

Ekki verður fram hjá því litið að skilvirkni virðisaukaskattskerfisins verður því meiri sem það er einfaldara. Eitt þrep með fáum eða engum undanþágum er hagkvæmara og skilvirkara en kerfi þar sem þrepin eru mörg og undanþágur einnig. En að baki undanþágum og fleiri en einu skattþrepi geta verið rök – pólitísk, menningarleg og efnahagsleg.

Það er pólitísk ákvörðun að leggja virðisaukaskatt á áskriftartekjur einkarekinna fjölmiðla, sem eru í ójafnri samkeppni við ríkisrekna fjölmiðlun. Ákvörðunin er íþyngjandi. Það eru menningarleg rök fyrir því að fella niður VSK af íslenskum bókum. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Það eru efnahagsleg rök (og spurning um samkeppnisstöðu) að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu skuli taka mið af því sem gengur og gerist í helstu samkeppnislöndum.

Þingmenn þurfa, síðar á þessu ári, að vega og meta rök af þessu tagi þegar tekin verður ákvörðun um breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Um leið er skynsamlegt að horfa til skattkerfisins í heild og fá yfirsýn yfir mikilvæga umgjörð um íslensk atvinnulíf og daglegt líf einstaklinga.

Share