Klíkukapítalismi á ábyrgð skattgreiðenda

Ríkisvaldið – stjórnmála- og embættismenn – veldur oft skaða, jafnvel þótt farið sé fram af góðum hug með almannahagsmuni að leiðarljósi. Með aðgerðum og aðgerðaleysi hefur ríkið áhrif á mannlega hegðun og brenglar samkeppni. Verst er þegar gripið er til laga- og reglugerðasetninga sem veita ákveðnum fyrirtækjum forréttindi eða skjól. Afleiðingin er sú að klíkukapítalismi festir rætur, nær áhrifum og völdum.

Ívilnunarsamningar við fyrirtæki, um skattamál eða aðra mikilvæga þætti sem eru umgjörð atvinnulífsins, eru dæmi um hvernig góður vilji stjórnvalda, leiðir til ófarnaðar. Gengið er gegn jafnræðisreglu sem allir segjast halda í heiðri – á tyllidögum að minnsta kosti. Hugmyndafræði forréttinda, fyrirgreiðslu og klíkuskapar nær yfirhöndinni. Með því að berjast fyrir ívilnunarsamningum ákveðinna fyrirtækja eða atvinnugreina er reynt að örva fjárfestingu og efla atvinnusköpun. Afleiðingin er hins vegar oftar en ekki verri nýting fjármagns og vinnuafls. Öðrum arðbærari fjárfestingum er rutt úr vegi.

Með ívilnunarsamningum er „kerfið“ – stjórnmálamennirnir – að koma sér undan því að lagfæra það sem miður fer. Ekki er horfst í augu við þá staðreynd að skattkerfið og regluverkið allt er með þeim hætti að það fremur drepur í dróma en örvar efnahagslegar framkvæmdir.

Líkt og barnaskapur

Ívilnunarsamningar eru því líklegri til að leiða til ófarnaðar en hagsældar. Þó eru þeir líkt og barnaskapur við hlið beinnar eða óbeinnar ríkisábyrgðar á rekstri fyrirtækja. Skiptir engu hvort um er að ræða banka, flugfélög eða önnur fyrirtæki sem ákveðið hefur verið að séu „kerfislega mikilvæg“ fyrir þjóðarbúið.

Opinber ábyrgð á rekstri fyrirtækja, leiðir til þess að fyrr eða síðar verða athafnir þeirra sem stjórna ábyrgðarlitlar. Ekki vegna þess að stjórnendur ætli að sýna ábyrgðarleysi, heldur vegna þess að allir sem hafa öryggisnet undir sér taka stöðugt aukna áhættu. Það er aðeins mannlegt.

Á meðan stjórnmálamenn (og embættismenn ekki síður) hafa jafnmikil áhrif á efnahagslífið og almennar leikreglur og raun ber vitni verða alltaf til fyrirtæki sem þeir telja „kerfislega mikilvæg“. Vegna þessa sé ekki aðeins nauðsynlegt að hafa með þeim eftirlit heldur ekki síður að búin sé til formleg eða óformleg bakábyrgð á rekstri þeirra. Ábyrgðina veita skattgreiðendur án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Eitruð blanda

Það eru ekki lítil eða meðalstór fyrirtæki sem stjórnmálamenn hafa áhyggjur af. Slík fyrirtæki ógna ekki stöðugleika efnahagslífsins. Það eru fyrst og fremst fjármálafyrirtæki og stórfyrirtæki sem eiga hug þeirra. Þegar stórfyrirtæki eða fjármálafyrirtæki komast í vanda telja stjórnmálamenn sig nauðbeygða til að beita ríkinu til að hlaupa undir bagga og bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greip til ráðstafana og veitti þarlendum bílaframleiðendum opinbera fyrirgreiðslu til að koma í veg fyrir gjaldþrot. Minni fyrirtæki, sem voru ekki pólitískt mikilvæg, fengu enga ríkisaðstoð. Sagan geymir fjölmörg dæmi frá flestum Vesturlöndum þar sem skattgreiðendur hafa fengið reikninginn fyrir „björgunaraðgerðum“ ríkisins – ekki aðeins þegar björgunarhring hefur verið hent út til fjármálafyrirtækja heldur einnig annarra stórfyrirtækja. „Kerfislega mikilvæg“? Kannski. En alveg örugglega pólitískt mikilvæg fyrir ráðandi öfl.

Bein eða óbein, formleg eða óformleg ábyrgð ríkisins á rekstri fyrirtæki býr til eitraða blöndu klíkukapítalisma og ábyrgðarleysis.

Fyrirtæki sem ekki má fara í þrot nýtur óeðlilegra yfirburða og forréttinda yfir keppinautana. Fjárfesting í hlutabréfum þess er álitin áhættulítil og aðgangur að lánsfé er greiðari og ódýrari. Fyrirtækið þenst út – ekki í krafti eigin ágætis eða snjallrar stjórnunar og nýrra aðferða – heldur í skjóli forréttinda.

Og eitt er næsta víst: Sá sem stýrir fyrirtæki sem stjórnmálamenn hafa ákveðið að ekki megi fara á hausinn rekur fyrirtækið með allt öðrum hætti en sá sem veitir fyrirtæki forstöðu sem „kerfið“ kærir sig kollótt um. Sá fyrrnefndi tekur meiri áhættu, sýnir jafnvel ábyrgðarleysi, en sá síðarnefndi verður að sýna varkárni og fyrirhyggju og leita leiða til að lágmarka áhættu.

Alltaf gripið til varna

Á meðan stjórnmálamenn geta veitt ákveðnum fyrirtækjum fyrirgreiðslu verða völd og áhrif forráðamanna þeirra langt umfram það sem annars væri ef allir sætu við sama borð. Til verður öflugur þrýstihópur sérhagsmuna til að tryggja forréttindi.

Áhrif ýmissa sérhagsmunahópa hafa aukist verulega á undanförnum áratugum jafnt hér á landi sem í öðrum löndum. Sérhagsmunirnir eru skipulagðari en áður og búa yfir meiri fjárhagslegum styrk. Fyrir stjórnmálamanninn er bæði þægilegra og tryggara að huga að sjónarmiðum sérhagsmuna.

Stjórnmálamaður sem vinnur gegn sérhagsmunum fárra á kostnað almennings vinnur sér ekki vinsældir meðal þrýstihópa. Sá er berst fyrir auknum áhrifum launafólks og rétti þess til að velja sér lífeyrissjóð fær aldrei stuðning þeirra sem gegna lykilhlutverki í valdakerfi vinnumarkaðarins. Stjórnmálamaður sem gagnrýnir beina eða óbeina ríkisábyrgð á rekstri fyrirtækja – hvort heldur er í fjármálakerfinu eða á öðrum sviðum atvinnulífsins – verður aldrei vinsæll meðal þeirra sem sækja sér völd til forréttinda og fyrirgreiðslu.

Klíkukapítalisminn grípur alltaf til varna með þeim aðferðum sem henta hverju sinni.

Share