Úr lamandi höftum í heilbrigða umgjörð

Úr lamandi höftum í heilbrigða umgjörð

Í upphafi áttu gjaldeyrishöftin að vera tímabundin – tvö ár eða svo. Flestir virtust sannfærðir um að haftatímabilið yrði því örstutt en þá kom vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Tökin voru hert, ekki slakað á klónni og umfangsmikið gjaldeyriseftirlit tók við.

Engin frjáls þjóð getur búið til lengdar við fjármagnshöft. En það tók liðlega átta ár – fjórum sinnum lengri tíma en stóð til – að afnema þau. Mikilsverðum áfanga var náð í gær, þriðjudag, þegar höftin voru felld úr gildi, þótt eftir standi varúðarreglur sem Seðlabankinn getur nýtt til að hamla vaxtamunaviðskiptum og afleiðum spákaupmanna. Takmarkanir eru enn í gildi á innflæði fjármagns.

Auðvitað er það nokkur einföldun að þakka ákveðnum einstaklingum þegar mikilsverðum áfanga er náð – áfanga sem markar upphaf að nýjum tímum og sagt er skilið við fortíðina. En ef nefna á einhverja sem lagt hafa þyngri lóð á vogarskálarnar en aðrir, þá eru það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra. Einörð stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 2013 gagnvart þrotabúum bankanna gjörbreytti stöðunni. Stöðugleikaframlög og skynsamleg áætlun um losun fjármagnshafta skiluðu áfangasigrum á liðnu ári og gerðu kleift að afnema höftin að fullu gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Með þessu verður til heilbrigðari umgjörð um íslenskt atvinnulíf.

Lamandi eitur

Höftin hafa verið lamandi fyrir íslenskt viðskiptalíf, dregið þrótt úr fyrirtækjum og hamlað vexti þeirra. Þannig hefur undirstaða bættra lífskjara til langrar framtíðar orðið veikari en ella. Lamandi hönd haftanna hefur gert nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum erfitt fyrir, ekki síst þegar þau hafa reynt að hasla sér völl á erlendum mörkuðum. Fjöldi fyrirtækja hefur neyðst til að leita óhagkvæmari leiða til að ná markmiðum og sinna því sem til var stofnað. Og um það verður ekki deilt að höftin hafa eitrað andrúmsloftið og búið til eftirlitskerfi sem hefur verið ofan í hvers manns koppi til að fylgjast með viðskiptum sem í frjálsu hagkerfi eru ekki aðeins lögleg, heldur eðlileg og sanngjörn. Allt hefur þetta skaðað samkeppnishæfni Íslands. Þessi tími er sem betur fer að baki.

Íslendingar geta horft bjartsýnir fram á veginn. Hagvöxtur er mikill – meiri en í flestum löndum heims, verðbólga er lítil og hefur verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í þrjú ár. Síðustu 12 mánuði hefur verið verðhjöðnun ef litið er á vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Kaupmáttur hefur aukist verulega og skuldir ríkissjóðs hafa lækkað umtalsvert og lækka enn frekar á komandi árum, ef rétt er á málum haldið.Á síðustu árum hefur efnahagskerfi landsins tekið stakkaskiptum eins og sést best á gríðarlegum vexti í útflutningi þjónustu. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar námu heildartekjur af þjónustuútflutningi um 649 milljörðum króna á síðasta ári. Þjónustujöfnuður við útlönd var jákvæður um rúmlega 260 milljarða. Á síðustu tveimur árum hefur þjónustujöfnuðurinn verið jákvæður um 462 milljarða króna. Frá 2013 hefur þjónustujöfnuðurinn verið jákvæður um 741 milljarð króna sem er litlu lægri fjárhæð en heildargjöld ríkissjóðs eru áætluð á þessu ári samkvæmt fjárlögum.

Endurskoðun peningastefnunnar

Verkefninu er hins vegar langt í frá lokið. Endurskoðun peningastefnunnar er framundan. Ný stefna getur ekki aðeins tekið mið af verðbólgu heldur verður verkefni Seðlabankans ekki síst að stuðla að jafnvægi í gengi krónunnar, draga úr sveiflum og tryggja fjármálalegan stöðugleika.

Til lengri tíma verður ekki hægt að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja ef vextir hér á landi er margfalt hærri en í helstu viðskiptalöndum. Raunvaxtamunur hér á landi og í helstu samkeppnislöndum er óeðlilega hár og hefur verið um langt skeið. Það eru allar efnahagslegar forsendur fyrir því að vextir lækki hér á landi á komandi vikum og mánuðum. Lægri vextir eiga að öðru óbreyttu að vinna gegn óeðlilegri hækkun krónunnar en um leið létta undir með heimilum og fyrirtækjum – ekki síst sprotafyrirtækjum.

Afnám hafta býr ekki aðeins til heilbrigðara umhverfi fyrir efnahagslífið heldur veitir einstaklingum og fyrirtækjum, en þó ekki síst lífeyrissjóðum, tækifæri til að dreifa áhættunni með því að ávaxta hluta af sparnaði í öðrum löndum. Fjárfestingar á erlendum mörkuðum draga úr efnahagslegri áhættu og eru því ekki aðeins skynsamlegar heldur nauðsynlegar. Þvingaður sparnaður í fjötrum fjármagnshafta eykur hættu á eignabólu sem fyrr eða síðar springur. Merki um eignabólu eru þegar farin að sjást. Frelsi í fjármagnsflutningum vinnur gegn eignabólu og kemur jafnvægi á innlenda eignamarkaði, a.m.k. þá sem ekki búa við heimatilbúinn skort.

Fyrir eigendur lífeyrissjóðanna – launafólk – skiptir mestu að áhættunni sé dreift með skynsamlegum hætti. Nú eru aðeins um 22% eigna sjóðanna í erlendum eignum, sem er allt of lítið til lengri tíma litið. Heildareignir lífeyrissjóðanna nema alls 3.500 milljörðum króna eða 145% af vergri landsframleiðslu. Á næstu 12-15 árum munu heildareignir lífeyrissjóðanna nær tvöfaldast. Stóran hluta aukningarinnar verður að fjárfesta í erlendum eignum.

Fullveldið er mikilvægt

Þegar bankarnir féllu í október 2008 kom í ljós hversu mikilvægt það er fyrir þjóðir að vera fullvalda í peningamálum. Aðrar þjóðir sem lentu einnig í gríðarlegum efnahagslegum þrengingum kynntust því með sársaukafullum hætti hve dýrkeypt það getur verið að framselja fullveldið. Nú hefur fullveldið verið áréttað með afnámi haftanna. Framtíðin er björt að minnsta kosti svo lengi sem við berum gæfu til þess að standa vörð um fullveldið, hvort heldur er í peningamálum eða í öðrum ákvörðunum um stjórnskipan, lög og reglur.

Share
Share

Written by:

View All Posts
Follow Me :